Samfélagið okkar tekur einkabílinn framyfir borgarana. Þetta lýsir sér meðal annars í því að við þurfum að berjast fyrir því að fólk fái götur til að ganga á. En það hefur ekki alltaf verið þannig.
Á göngu um borgina hittir maður mann, kunnugleg andlit brosa til hvors annars og tilveran verður léttari. Á göngugötu færðu ekki krabbameinsvaldandi agnir ofan í lungun, þú þarft ekki að hafa áhyggjur af litla sprettharða hlaupagikknum þínum og í stað umferðarniðarins heyrir þú óm borgarlífins, söng skógarþrastarins, spjall ferðamanna og tónlist unga fólksins.
Fyrsti bíllinn kom til landsins árið 1904. Fljótlega fjölgaði bílunum og með þeim krafa frá borgarbúum um að viðbragð yfirvalda við þessum lífshættulegu aðstæðum, koma þyrfti böndum á ofsaakstur þessara tækja. Nú rúmlega 100 árum síðar erum við meira upptekin af því að koma böndum á gangandi vegfarendur en bíla. Þeir skulu einungis ganga á gangstéttum og til þess að komast yfir götu skulu þeir nota viðurkennda gönguþverun.
Það er kominn tími á að snúa þessari þróun við. Gefum fólki meira rými. Borg sem er full af vafrandi ferðamönnum og marserandi mótmælendum þarf að forgangsraða í þágu þeirra sem þar dvelja. Við þurfum pláss fyrir mannlífið í allri sinni mynd og ekkert gefur því meira vægi en vönduð almenningsrými - torg og göngugötur.
Göngugötur eru gerðar til þess að bæta upplifun og ánægju vegfarenda. Þær eru varanleg fjárfesting til þess að bæta ásýnd miðborgarinnar og skapa betra verslunarumhverfi. Þær koma til móts við nýjar áskoranir í verslun þar sem upplifun og þjónusta verða sífellt veigameiri þáttur, þáttur sem netverslun getur ekki veitt.
Göngugata er gata fyrir þau sem ganga, sofa í vagni, ferðast um í hjólastól og þá sem vilja haldast hönd í hönd á göngu sinni um miðbæinn. Því göngugötur skapa öruggt umhverfi fyrir allskonar fólk, af öllum þjóðernum og á öllum aldri.
Það er þinn réttur að geta ferðast örugg á göngugötum. Göngugötur eru réttlætismál ekki síður en umhverfismál. Reykjavíkurborg er umfram allt borg fyrir fólk og stend ég stolt að opnun göngugatna.
Höfundur er borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur.