Mikil ringulreið og ráðleysi virðist ríkja í dómskerfinu eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp sinn dóm: Dómsmálaráðherra fór ekki að lögum heldur beitti geðþóttavaldi við skipan dómara í Landsrétt og gróf þar með gróflega undan réttaröryggi í landinu. Grundvallarmannréttindi verða einungis tryggð með sjálfstæðum dómstólum segir í dómsorðum, og skipan dómsmálaráðherra á dómurum í Landsrétt telst ógnun við réttarríkið og lýðræðið í landinu.
En hvað varð til þess að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra stóð þannig að verki? Helsta skýringin blasir við: Dómsmálaráðherra fórnaði sjálfstæði dómsstóla á altari varnar fyrir fullveldi Sjálfstæðisflokksins. Fjórum meðal hæfustu umsækjenda var vikið til hliðar. Einn þeirra var Ástráður Haraldsson sem bæði Alþýðubandalagið og VG höfðu tilnefnt til trúnaðarstarfa. Eiríkur Jónsson hafði sömuleiðis unnið sér það til óhelgi að vera í framboði fyrir Samfylkinguna. Hin fjögur útvöldu – en síður hæf dómaraefni að mati dómsnefndar – voru hins vegar tengd Sjálfstæðisflokknum og/eða ráðherranum persónulega.
Enn einu sinni var forystumaður í Sjálfstæðisflokknum að verja fullveldi Flokksins og ráðast á sjálfstæði dómstóla. Þá sögu þarf að segja. Best á byrja á upphafinu.
Sjálfstæðisflokkurinn: Ríki í ríkinu
Árið 1995 sátu í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur undir forystu Davíðs Oddssonar, formanns þess fyrrnefnda. Flokkurinn gerði tilkall til fullveldis innan landamæri íslenska ríkisins, að vera ríki í ríkinu. Sjálfstæðisflokkurinn hafði til dæmis tekið sér vald til skattlagningar á fyrirtækin í landinu. Skattheimtumenn á vegum fjármálaráðs flokksins heimsóttu eigendur fyrirtækja og tilkynntu þeim hversu mikið hvert fyrirtæki skyldi greiða árlega í flokkssjóðinn. Í staðinn nutu fyrirtækin velvildar og fyrirgreiðslu – ekki síst hjá bönkum og opinberum sjóðum. Nú gengu tveir félagar úr fjármálaráði flokksins, Sigurður Gísli Pálmason og Páll Kr. Pálsson, á fund Sigurðar G. Guðjónssonar, stjórnarformanns Íslenska útvarpsfélagsins, og sögðu honum að félagið ætti að borga fimm milljónir á ári til flokksins. Upphæðin væri reiknuð út frá stærð og veltu og veltu fyrirtækisins. Sigurður neitaði að borga.
Ógn við fullveldi Sjálfstæðisflokkins
Stóran skugga hafði áður borið á fullveldislanganir Sjálfstæðisflokkins þegar andstæðingar flokksins buðu fram sameiginlegan lista í borgarstjórnarkosningum 1994, Reykjavíkurlistann, og höfðu sigur. Nær óslitnum valdatíma Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík var lokið. Sjálfstæðislokkurinn gat ekki lengur stundað sín hefðbundnu fyrirgreiðslustjórnmál þar sem flokksforystan í Reykjavík úthlutaði opinberum gögnum og gæðum en hlaut í staðinn stuðning og atkvæði í kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn var ekki lengur fullvalda við stjórn Reykjavíkur.
Á landsvísu var hinu þægilega samlífi fyrirtækja og flokks nú líka ógnað. Jón Ólafsson hét sá skuggabaldur og gleðispillir. Hann hafði átt í miklum átökum við öfl handgengin Sjálfstæðisflokknum, meðal annars um yfirráð í einkabanka, Fjárfestingabanka atvinnulífsins. Jón var aðaleigandi Bylgjunnar fyrstu einkaútvarpsstöðvarinnar sem fór í loftið 1986. Vorið 1994 eignuðust Jón og viðskiptafélagar hans meirihluta Stöð 2 – en meira en helmingur heimila í landinu voru þar áskrifendur.
Nú þurfti að að berja í brestina í valdakerfi Sjálfstæðisflokksins eins og hægt er. Til þess er flokksforystan í góðri aðstöðu – ekki síst hægri hönd Davíðs Oddssonar, Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri flokksins. Kjartan var jafnframt formaður bankaráðs langstærsta bankans, Landsbanka Íslands, sem var alfarið í eigu ríkisins. Kjartan var einnig formaður útvarpsréttarnefndar og hafði sem slíkur yfirumsjón með starfsemi allra einkarekinna fjölmiðla. Íslenska útvarpsfélagið hf. Leitaði eftir viðskiptum við Landsbankann en bankinn neitaði án þess að nefna formlega einhverja ástæðu. Sparisjóðirnir tóku síðan Stöð 2 í viðskipti og Chase Manhattan banki í New York veitir fyrirtækinu stórt lán. Ekki tókst að kom Jóni Ólafssyni á kné. Málið var hins vegar ekki gert opinbert og látið kyrrt liggja um hríð.
Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins höfðar meiðyrðamál
Samtvinnun viðskipalífs, banka og flokks var ógnað. Ósigur var vissulega slæmur en þolanlegur ef hann gerðist að tjaldabaki og yrði ekki nefndur á opinberum vettvangi. Allt þetta breyttist með grein stjórnarformanns Stöðvar 2, Sigurðar G. Guðjónssonar (Dagur, 31. ágúst 1999). Kjartan Gunnarsson stefndi Sigurði fyrir meiðyrði í sinn garð vegna tveggja fullyrðinga Sigurðar:
- Engar skýringar hafi fengist á neitun Landsbankans á viðskiptum við Íslenska útvarpsfélagið hf. en „þó var okkur sagt sem stóðum í viðræðum við bankann að Kjartan Gunnarsson legðist gegn því að Landsbanki Íslands ætti í viðskiptum við félag sem Jón Ólafsson ætti aðild að.“
- Sparisjóðirnir hafi tekið Stöð 2 í viðskipti. „Þar var ákvörðun um viðskipti við Íslenska útvarpsfélagið hf. tekin á grundvelli hagsmuna sparisjóðanna, en ekki á þeim forsendum hvað væri Sjálfstæðisflokknum fyrir bestu og forkólfum flokksins þénanlegt.“
Kjartan Gunnarsson gerði kröfu um að þessi ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk; Sigurði gert að greiða 600.000 krónur í miskabætur og 350.000 krónir til opinberrar birtingar forsendna og dóms í þremur dagblöðum. Að auki greiði Sigurður allan málskostnað Kjartans.
Sigurður byggir sýknukröfu sína á að blaðagreinin væri hvöss ádrepa á þær leikreglur sem hann teldi vera við lýði í viðskiptum hér á landi og tjáningafrelsi í ræðu og riti væru verndað með lögum. Ennfremur að einstaklingar eins og Kjartan Gunnarsson, sem væru í forsvari fyrir stjórnmálaflokka eða mikilvægar þjóðfélagsstofnanir verði að sæta því að verða fyrir hvassari gagnrýni í störf sín eða stöðu en einstaklingar sem ekki létu til sín taka á opinberum vettvangi.
Kjartan Gunnarsson tapar dómsmáli
Fyrri dómar íslenskra dómstóla í meiðyrðamálum gáfu Kjartani Gunnarssyni fulla ástæðu til bjartsýni um niðurstöðu málarekstursins. Sektardómur yfir Sigurði myndi þagga niður í þeim sem reyndu að afhjúpa starfsaðferðir Sjálfstæðisflokksins, sem fengi vinnufrið til að reka áfram sitt eigið fullvalda ríki.
Kjartani varð ekki að ósk sinni. Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari sýknaði Sigurð af öllum kröfum Kjartans.
Í dómsorði var tekið undir þau sjónarmið að takmarkanir á tjáningafrelsi „verði að eiga sér örugga stoð í stjórnskipunarlögum og alþjóðlegum skuldbindingum um mannréttindi, sem Íslendingar hafa gengist undir, svo sem mannréttindasáttmála Evrópu, lög nr. 62/1994, og alþjóðasamningur Sameinuðu þjóðanna um borgararleg og stjórnmáleg réttindi frá 1966, sem Ísland hefur fullgilt. … Að framan er frá því greint að áfrýjandi er framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokkins og því valdamaður í stjórnmálífi þjóðarinnar. Hann hefur einnig setið í bankaráði Landsbanka Íslands og verið formaður útvarpsréttarnefndar, tilnefndur af Sjálfstæðisflokknum og kosinn af Alþingi. Störf hans á þeim vettvangi eiga að vera óháð starfi hans sem framkvæmdastjóra flokksins. Þegar litið er til áberandi stöðu hans innan flokksins þykir hann verða að una því að um þessi tengsl sé fjallað á opinberum vettvangi. Ber að fara varlega í að hefta slíka umræðu í lýðræðislegu þjóðfélagi með refsiverðum viðurlögum.“
Kjartan áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar sem kvað upp sinn dóm 19. desember 2000. Þar var dómur Héraðsdóms staðfestur. Kjartan G. Gunnarsson vísaði dómnum til Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem hann taldi brotið á mannréttindum sínum því dómstólar á Íslandi hefðu ekki veitt honum viðunandi vernd fyrir ærumeiðandi ummælum, sem fælu í sér, ef sönn væru, ásakanir um ólögmætt athæfi.
Mannréttindadómstól Evrópu taldi að Kjartan hefði ekki sýnt fram á brotið hefði verið gegn mannréttindum hans og vísaði málinu frá. Dómur Hæstaréttar stóð því óhaggaður.
Sjálfstæðisflokkurinn í sókn gegn sjálfstæði dómstóla
Hér urðu vatnaskil. Varðstaða dómstóla um tjáningafrelsið er bein ógnun við leyndarhjúpinn um starfshætti Sjálfstæðisflokkins. Fullveldi flokksins þrífst best bak við luktar dyr þar sem uppljóstrunum er refsað. Hér ákveða dómarar að ganga gegn hagsmunum flokksins í nafni mannréttinda og tjáningafrelsis.
Forysta Sjálfstæðisflokkins sáu samt eina vonarglætu í Hæstaréttardómnum. Tveir dómarar af þremur, þeir Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason, voru að sönnu afdráttarlausir í meirihlutaálitinu um sýknun Sigurða, en Garðar Gíslason vildi ómerkja umæli Sigurðar og verða við kröfu Kjartans um að Sigurður greiddi kostnaði við birtingu dómsins sem og málskostnað Kjartans fyrir Hæstarétti. Hér má nefna að dómsmálaráðherra úr Sjálfstæðisflokki, Þorsteinn Pálsson, hafði skipað Garðar sem Hæstaréttardómara en dómsmálaráðherra frá Alþýðuflokknum, Jón Sigurðsson, þá Harald og Hrafn.
Forysta Sjálfstæðisflokksins lagði nú á ráðin um að vernda fullveldi flokksins gegn sjálfstæði dómstóla. Landsfundur Sjálfstæðisflokkins samþykkti til dæmis að lögum yrði breytt og minnst sjö Hæstaréttadómarar dæmdu öll mál en ekki ekki þrír eða fimm eins og venja var nema í allra mikilvægustu málum. Þannig yrðu væntanlega meiri líkur á að meirihluti tilkvaddra dómara kæmi úr röðum dómara sem ráðherrar flokksins hefðu skipað. Skjótvirkari leið til að auka líkur á „hagstæðum” dómum var hins vegar einfaldlega sú að dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokkins skipi sér þóknanlega dómara – hvort sem metnir séu hæfasti eður ei.
Sjálfstæðisflokkurinn blés til sóknar gegn réttarkerfi landsins. Ósigur framkvæmdastjóra flokksins fyrir dómstólum gaf til þess næga ástæðu, að mati margra ráðamanna innan flokksins. Fram að þessu hafði ríkt sátt um skipan dómara í Hæstarétt og skipaður sá umsækjandi sem hæfastur var talinn. Dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins rufu nú þá sátt með skipan tveggja miður hæfra umsækjenda í æðsta dómstól landsins: Fyrst Ólaf Börk Þorvaldsson árið 2003 og síðan Jón Steinar Gunnlaugsson árið 2004. Dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokkins skipaði síðan Þorstein Davíðsson héraðsdómara árið 2007 en þrír umsækjendur voru metnir hæfari en hann til dómarastarfsins.
Þessar þrjár embættaveitingar eru viðfangsefni næstu greina minna.
Höfundur er prófessor emeritus í stjórnmálafræði.