Í umræðu um hinn svonefnda þriðja orkupakka á Alþingi hefur því verið haldið fram að það sé augljós og vænlegur kostur að hafna því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara á þeirri ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar sem um ræðir. Þá fari málið einfaldlega til nefndarinnar að nýju, samið verði um undanþágur fyrir Ísland og nefndarmenn leiðist að því búnu hlægjandi út í vorið. Það hafi því engar afleiðingar að hafna samþykkt þingsályktunartillögu utanríkisráðherra. Öldungis engar.
Þessi málflutningur ber þess merki að þingmenn og margir aðrir, jafnvel færustu sérfræðingar, þekki ekki til hlítar hlutverk sameiginlegu EES nefndarinnar eða hvernig hún tekur ákvarðanir. Enda sumpart snúið og blandast þar inn í bæði flókin ferli og stjórnskipanlegar kröfur EFTA ríkjanna og ESB.
Reynum því að einfalda aðeins málið. Segja má að ákvarðanir sameiginlegu EES nefndarinnar séu ígildi þjóðréttarsamnings. Í sameiginlegu EES nefninni eiga sæti fulltrúar EFTA ríkjanna þriggja, yfirleitt sendiherrar ríkjanna í Brussel, ásamt fulltrúa ESB, nú skrifstofustjóri í utanríkisþjónustu sambandsins. Samkvæmt EES samningnum ber EFTA ríkjunum að tala einni röddu í nefndinni. Það þýðir að EFTA ríkin þrjú verða að ná samkomulagi um niðurstöðu áður en kemur að ákvarðanatöku.
Ákvarðanir verða ekki teknar í nefndinni nema EFTA ríkin þrjú og ESB hafi komið sér saman um niðurstöðu. Þess vegna fara drög að ákvörðunum nefndarinnar í gegnum tiltekin ferli heima fyrir áður en kemur að töku eiginlegrar ákvörðunar. Hér á landi fara EES mál t.d. til þingnefnda í samræmi við reglur um þinglega meðferð EES mála og utanríkisráðherra þarf að fá umboð á ríkisstjórnarfundi til að unnt sé að samþykkja ákvörðun í sameiginlegu EES nefndinni. Á vettvangi ESB háttar svo til að framkvæmdastjórnin ásamt fulltrúa utanríkisþjónustunnar annast viðræður við EFTA ríkin um undanþágur eða aðlögunartexta. Þegar báðir aðilar, þ.e. EFTA ríkin þrjú sameiginlega og framkvæmdastjórn ESB, hafa orðið sammála um drög að ákvörðun, þarf framkvæmdastjórnin hins vegar að afla sér umboðs til að staðfesta ákvörðunina.Framkvæmdastjórnin leggur fram drög að ákvörðun fyrir Ráðherraráð ESB sem þarf að staðfesta umboð til og eftir atvikum eiga samráð við ESB Þingið. Í Ráðherraráðinu eiga sæti fulltrúar allra aðildarríkja ESB.
Í tilviki þriðja orkupakkans hefur þetta ferli þegar átt sér stað. EFTA ríkin hafa komist að samkomulagi, viðræður við framkvæmdastjórn ESB hafa átt sér stað og samkomulag um aðlögunartexta staðfest, drög að ákvörðun hafa verið afgreidd af þingnefndum Alþingis, ríkisstjórn Íslands hefur veitt utanríkisráðherra umboð til að staðfesta ákvörðun með stjórnskipulegum fyrirvara, framkvæmdastjórn ESB hefur óskað heimildar til staðfestingar frá Ráðherraráði ESB og ráðið hefur tekið ákvörðun um að veita framkvæmdastjórninni umboð.
Kjósi Alþingi að hafna því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara á ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar er ekki staðan sú að menn einfaldlega setjist niður í sameiginlegu EES nefndinni og semji aftur. Samkvæmt 103. gr. EES-samningsins leiðir höfnun á því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara til þess að framkvæmd viðkomandi hluta EES samningsins er frestað til bráðabirgða nema sameiginlega EES-nefndin ákveði annað. Síðan tekur við málsmeðferð samningsins um lausn deilumála sem eftir atvikum getur falið í sér beitingu öryggisráðstafanna, þ.e. að hlutum samningsins sé kippt úr sambandi, að minnsta kosti tímabundið.
Ljúki málinu með samkomulagi um nýja ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar gildir því hið sama og rakið er hér að framan. EFTA ríkin þurfa að ná samkomulagi um nýja nálgun, EFTA ríkin þurfa að fullnægja reglum heimaríkis um aðkomu þings og ríkisstjórnar, framkvæmdastjórnin þarf að afla nýs umboðs frá Ráðherraráði ESB o.s.frv. Ef að hinir eru til í það.
Höfundur er fyrrum forstöðumaður lögfræðisviðs EFTA í Brussel.