Í þeim drögum að kjarasamningum sem voru undirritaðir í nokkrum flýti 3. apríl 2019 er sett fram það nýmæli að tengja saman launataxta og þróun landsframleiðslu á mann næstliðið ár eins og Hagstofa Íslands metur þá þróun í 2-3 mánuðum eftir að árið er liðið. Annað nýmæli er að samningstíminn er óvenju langur (nálægt fjórum árum). Í nágrannalöndum er taktur samningsferlisins gjarnan sá að heildarsamningar eru til tveggja ára, en á „milliárinu“ er litið til þess hvort óvæntir efnahagslegir atburðir kalli á aðlögun heildarsamningsins. Meðal þeirra atriða sem samningsaðilar líta þá til er þróun vergrar landsframleiðslu á mann og hlutfall launa í landsframleiðslu. Mikil, óvænt breyting þess hlutfalls getur kallað á endurskoðun launataxta.
Sú aðferðafræði sem boðuð er í nýundirrituðum kjarasamningum SA og Eflingar og VR og fleiri félaga bendir til þess að aðilar vilji frekar styðjast við einfalda reiknireglu en að semja um „framleiðnileiðréttingar“ á gildistíma samningsins. Þegar mikilvægar ákvarðanir eru festar í reiknireglum („algorithmum“) er mikilvægt að reiknireglan sé „góð“ því vond reikniregla getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.
Viðmið við marstölur Hagstofunnar
Það vekur athygli að samningsaðilar vilja miða breytingar á hagvexti á mann við tölur sem Hagstofan birtir í mars ár hvert, þremur mánuðum eftir að því ári sem er til skoðunar lauk. Hagstofan birtir mælingar sínar á tekjumyndun í hagkerfinu á upplýsingum sem aflað er úr skattaframtölum. Skattaframtöl einstaklinga vegna ársins 2018 voru ekki komin „í hús“ hjá Ríkisskattstjóra í mars þegar Hagstofan birti fyrstu tölur um hagvöxt á mann árið 2018. Þess vegna byggir Hagstofan á vísbendingum um umsvif (upplýsingar úr staðgreiðslu- og virðisaukaskattskerfunum svo dæmi séu nefnd). Nýrri og betri upplýsingar munu safnast inn fram eftir árinu 2019 en það verður ekki fyrr en árið 2021 eða 2022 sem endanlegar tölur liggja fyrir. Þetta þarf ekki að vera vandamál ef breytingar sem verða í hverri endurskoðun Hagstofunnar eru litlar. En því er ekki að heilsa.
Samkvæmt yfirlit sem Hagstofan hefur veitt mér aðgang að verða umtalsverðar breytingarnar frá birtingu fyrstu talna til endanlegra talna. Þannig bentu fyrstu tölur til þess að hagvöxtur á mann á árinu 2017 yrði 1,1%, en nú er talið að hagvöxtur það ár hafi verið 2,2% (eða 100% meiri)! Fyrstu tölur fyrir 2013 bentu til þess að hagvöxtur á mann yrði 2,3% en endanlegar tölur sýna 3,2% vöxt á mann á árinu 2013! Marstölurnar eru því ekki góð viðmiðun.
Landsframleiðsla á mann er ekki góður mælikvarði á framleiðni
Fyrir nokkrum árum leituðu aðilar vinnumarkaðarins til helsta vinnumarkaðssérfræðing Noregs (Steinar Holden) og báðu hann að gefa ráð varðandi endurbætur á íslenska samningakerfinu. Það er því eðlilegt að horfa til Noregs varðandi fyrirmyndir og tæknilega útfærslu nýjunga sem aðilar vinnumarkaðarins brydda nú upp á.
Á hverju ári gefur sérfræðihópur sem er tengdur öllum helstu aðilum á norskum vinnumarkaði út mikinn bálk af talnaefni og greinir þróun helstu stærða sem máli skipta fyrir launamyndunina.
Í skýrslu tækninefndarinnar vegna gerðar kjarasamninga á árinu 2019 er því lýst (bls. 84) að stöðugt hlutfall launa í þáttatekjum þeirra atvinnugreina sem skilgreindar eru sem „industrien“ (jafngildir útflutningsatvinnugreinum í íslensku samhengi) haldist stöðugt til lengri tíma litið. Þ.e.a.s. lækki þetta hlutfall kalli það á launahækkanir, hækki það kalli það á aðlögun raunlauna t.d. þannig að nafnlaunavöxtur haldi ekki í við vænta verðbólgu).
Í sömu skýrslu er líka farið yfir þróun þáttatekna á tímaverk í „industrien“ (bls. 101). Stærðin „verg landsframleiðsla á mann“ er aðeins notuð til að bera saman samkeppnishæfni norsks atvinnulífs við helstu viðskiptalönd. Aðilar vinnumarkaðarins í Noregi telja því greinilega að aðrar stærðir en verg landsframleiðsla á mann skipti máli fyrir launamyndunina og kjarasamninga.
Skiptir máli hvort miðað er við VLF á mann á Íslandi eða þáttatekjur á klukkustund í útflutningsgreinum?
Svarið við spurningunni er „já“. Þessir tveir mælikvarðar stjórnast að hluta til af sömu stærðum, m.a. vegna þess að þáttatekjur í útflutningsgreinum er einn þeirra þátta sem myndar Verga Landsframleiðslu. Þættir sem stækka þáttatekjur útflutningsgreina munu, allt annað óbreytt, hafa áhrif til aukninga vergrar landsframleiðslu. En það eru fjölmargir þættir sem geta valdið því að þessar stærðir hreyfist í gagnstæðar áttir, þannig að önnur hækki samtímis sem hinn lækkar.
Gefum okkur t.d. að fiskur breyti hegðun sinni þannig að það taki tvöfalt skemmri tíma að ná sama magni af fiski að landi og áður, án þess að veiðikvótar yrðu auknir. Þátttatekjur í útflutningi myndu þá ekki breytast mikið, þáttatekjur á unna vinnustund í útflutningsgreinum myndu hins aukast mikið. Breytt hegðun veiðidýra myndi hins vegar ekki hafa teljandi áhrif á Verga Landsframleiðslu á mann.
Annað dæmi: Gefum okkur að atvinnuþátttaka aukist með því að margir ófaglærðir sem áður voru utan vinnumarkaðar finni sér (láglauna) störf. Við þetta myndi VLF á mann aukast en VLF á unna stund lækka, jafnframt því sem líklegt er þáttatekjur á unna stund í útflutningi myndi lækka. Það er því hætt við að atburðir sem flestir myndu telja til efnahagslegra búhnykkja (aukinn veiðanleiki sjávarfangs) myndi ekki hafa áhrif á launastigið í landinu á sama tíma og aukin atvinnuþátttaka myndi þvinga atvinnurekendur til að greiða öllum hærri laun!
Árið 2015 jókst verg landsframleiðsla á Írlandi um 26% á sama tíma tekjur í landinu jukust um 5% að nafnvirði. Hefði verið ástæða fyrir aðila vinnumarkaðarins á Írlandi að hækka laun um 25% árið 2016 á grundvelli þessara upplýsinga? Nei, alls ekki. Árið 2015 flutti Apple skráningu á hugverkaeign sinni frá skattaskjólum til Írlands í kjölfar þrýstings frá samkeppnisyfirvöldum í Evrópusambandinu. Skatttekjur Írska lýðveldisins jukust vissulega nokkuð en í grundvallaratriðum var um bókhaldsæfingu að ræða.
Niðurstaða
Aðilar á almenna vinnumarkaðnum hafa flýtt sér heldur mikið við frágang á kjarasamningi þetta árið. Það er full ástæða fyrir alla aðila að draga djúpt að sér andann og setjast niður aftur og laga það sem laga má svo reiknireglur leiði ekki hagkerfið út í mýri!
Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur fjallað um vinnumarkaðstengd málefni í kennslu og rannsóknum og á sæti í stjórn og samninganefnd Félags prófessora við ríkisháskóla.