Við Íslendingar misstum forræði okkar yfir stjórn umhverfismála í hendur Brusselvaldinu með þeim afleiðingum að það er nú skylda að allar framkvæmdir sem ráðist er í fari áður í umhverfismat. Við glötuðum yfirráðum okkar yfir neytendamálum með þeim afleiðingum að nú hefur sérstakri neytendavernd verið þröngvað upp á landsmenn. Við ráðum ekki einu sinni yfir því lengur hvernig háttað er vinnulöggjöf, og þrátt fyrir hetjulega baráttu fyrir því að fá að aka vansvefta á vegum úti þurfa vörubílstjórar nú nauðbeygðir að taka sér hvíldartíma …
Og þannig má áfram telja. Alls konar lög og reglugerðir og tilskipanir hafa orðið hluti af lagaumhverfi okkar vegna aðildar okkar að EES og varða réttindi almennings, réttindi neytenda, réttindi vinnandi fólks – já og umhverfisvernd. Ekki er einhlítt samasemmerki milli svokallaðs fullveldis og svo aftur réttinda borgaranna í samfélaginu. Þetta er ekki vegna þess að við Íslendingar séum ófær um að sjá fótum okkar forráð eða eigum að varpa fullveldi okkar fyrir róða og segja okkur til sveitar í öðrum ríkjum á borð við Noreg eins og stofnuð var hreyfing um hér fyrir nokkrum árum; öðru nær: Evrópusambandið er hins vegar vettvangur fullvalda ríkja þar sem skapaðar eru leikreglur hins frjálsa markaðar og séð til þess að réttindi séu virt en ekki sé hægt að vaða yfir allt og alla í krafti auðmagns og sterkrar stöðu.
Nú er komið fram mál sem varðar einkum náttúruvernd og neytendavernd í orkumálum Evrópu, sem við kennum við 3. orkupakkann og það er eins og við manninn mælt: upp rís þjóðlið og skipast í sveit við að bægja þessari vá frá Íslandsströndum. Þetta eru raunar sömu öfl og ævinlega taka svari framleiðenda og fyrirtækja en hirða minna um málstað neytenda; svo áhugalitlir eru þessir aðilar um náttúruvernd að þeir berja enn hausnum við steininn í loftslagsmálum.
Við þurfum alltaf að ræða fyrirkomulag orkumála hér á landi. Þau verða sífellt mikilvægari með hverju árinu. Og við þurfum alltaf að ræða fyrirkomulag auðlindamála hér á landi; hvernig við ætlum að haga nýtingu og eignarhaldi á auðlindum okkar, sem eru óumræðilegar ríkulegar og óendanlega dýrmætar fyrir okkur sem samfélag. Við þurfum að tryggja yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindum sínum svo að þær lendi ekki í braskarahöndum, eins og henti til dæmis þegar Suðurnesjamenn voru þeir glópar að selja frá sér Hitaveituna sína. En hættan sem okkur er búin er ekki af völdum utanaðkomandi ógnar: hún er okkar eigin græðgi og stundarhagsmunablinda. Það er löngu tímabært að við tryggjum í stjórnarskránni að auðlindir þjóðarinnar séu alltaf í hennar eigu.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.