Ef svo heldur áfram sem horfir verður verkafólk á Íslandi komið allt í einn launaflokk um 2031 – eða að munur á milli launaflokka verður það lítill að ekki tekur að tala um launaflokka lengur. Þetta þýðir að byrjandi á vinnumarkaði – 18 ára – með enga reynslu verður nánast á sömu launum og t.d. hópferðabílstjóri með 5 ára starfsreynslu eða þaðan af meiri og sem er alvanur er ferðum yfir fjallvegi og ber ábyrgð á lífi og limum tuga farþega hverju sinni.
Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig launaflokkaþróun Starfsgreinasambandsins hefur verið síðustu 10 ár eða allt frá kjarasamningum 2009. Gráa línan er efsti virki launaflokkur SGS – efsta þrep eða launaflokkur og þrep bílstjórans sem minnst er á að framan. Appelsínugula línan er launaflokkur viðvaningsins – lægsta mögulega kaup sem greitt er skv. kjarasamningum SGS. Bláa línan sem kemur að ofan vinstra megin og fellur svo niður er hlutfallslegur munur á þessum tveimur flokkum. Ef sú lína er framlengd – stefnir í að munur á milli flokkanna verði orðinn óverulegur 2031.
Ljósbláa línan er síðan laun í fjármálakerfinu – en við sjáum að 2015 hafa starfsmenn þar náð vopnum sínum í kringum 2015 og hafa tekið kúrsinn upp. Græna línan er síðan þróun neysluvísitölu á sama tíma.
Allt frá upphafi kjarabaráttu hafa einstaka starfahópar reynt að bæta kjör sín með því að berjast fyrir viðurkenningu á starfi sínu og eðli þess. Laun umfram lágmarkslaun hafa síðan annað hvort byggst á einhverju „réttlætisviðmiði“ eða með því að einstaka starfahópar hafa náð að beita þrýstingi með t.d. verkfallsaðgerðum.
Réttlætisviðmið byggir t.d. á menntun eða færni og svo ábyrgð. Þannig þykir eðlilegt að læknar hafi hærri laun en hjúkrunarfræðingar af því menntun þeirra er meiri og sömuleiðis ábyrgð; að bankastjóri hafi hærri laun en gjaldkeri og þá af sömu ástæðum.
Á sama hátt hefur launaflokkakerfi SGS þróast – starfsreynsla og færni fólk hefur verið metin til launa. Þannig raðast þeir sem flokkast sem sérþjálfaðir byggingastarfsmenn hærra en viðvaningur í byggingarvinnu. Sérhæft fiskvinnslufólk með tvö fiskvinnslunámskeið að baki – er raðað hærra en byrjanda í fiskvinnslu.
Innan hvers launaflokks eru síðan starfsaldursþrep þannig að árafjöldi í starfi skilar og launahækkun. Áður en yfirstandandi þróun hófst var ákveðið hlutfallsbil á milli launaflokka og þrepa – í töflunni 2008 voru ca 1,1% á milli bæði flokka og þrepa. Það ár var munur á launum bílstjóra í efsta þrepi og nýliða í neðsta flokki og þrepi – 209 kr. á tímann eða 20.8%. Í dag er munurinn 196 krónur eða 10,7%.
Þessi þróun er verk verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar en ekki utanaðkomandi andstæðinga. Í tíu ár hafa kröfur okkar sífellt verið að öll laun skuli hækka um sömu krónutölu því þannig sé réttlætið mest. Í þessi sömu tíu ár höfum við beitt þessari aðferð skipulega á okkar eigið fólk en verið áhrifalítil um launaþróun annarra hópa. Þannig framfylgjum við harðri jafnaðarstefnu innan raða Alþýðusambandsins á meðan aðrir launaþegahópar fara sínu fram – með eða án hjálpar kjararáðs og kjaradóms.
Orsök þessarar kröfu okkar er að reglulega birtast fréttir um ofurlaun og ofurlaunahækkanir. Það eru þá bankastjórar og forstjórar, þingmenn og ráðherrar og biskupar. Almenningur stendur varnarlaus og magnlaus af reiði og hefur upp raust sína – allar hækkanir skulu vera í krónum. En af því við höfum engin ráð á að stjórna launum biskups (eða allra hinna) þá hengjum við bílstjórana og sérhæfða fiskvinnslufólkið og alla aðra hópa sem með samstöðu náðu á sínum tíma að lyfta sér upp fyrir strípuð lágmarkskjör og stefnum hratt að því að koma þeim aftur á lágmarkskjör.
Það er ekki við nýgerða kjarasamninga eina að sakast – þessi þróun hefur verið allar götur síðan 2006. Það hefur verið „pólitískt rétthugsun“ allar götur síðan að kalla eftir krónutöluhækkunum og bölva prósentuhækkunum. Í öllum viðhorfskönnunum AFLs síðustu ár hefur reiði og beiskja hópa á borð við tækjastjórnendur og bílstjóra farið vaxandi og skyldi engann furða. Við höfum setið frekar varnarlaus gagnvart reiði þeirra þar sem allir samningar hafa beinlínis haft af þeim þann ávinning sem þessar hópar hafa fengið í gegnum tíðina.
Höfundur er framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinafélags.