Hvernig á að skrifa þegar maður fer að vera vitni að því að æðstu ráðamenn ætla að svíkja þjóðina með því að fara gegn afgerandi vilja hennar og samþykkja Orkupakka 3? Hvað getum við gert?
Ég get eiginlega ekki lýst því hvernig mér líður. Það er eiginlega búið að tæma orkuna úr líkama mínum. Hræðilegt að hugsa sér til þeirrar framtíðarsýnar þar sem búið að selja orku landsins okkar til peningaberserkja sem munu kaupa og selja sér orku eftir vild til þess eins að græða og græða bara meira. Og með algjöru tillitsleysi til annars fólks sem býr í þessu landi. Síðan endar þetta með sæstreng þar sem þeir sem hafa keypt sér orkuna geta selt hana úr landi til að önnur lönd í Evrópu geta fengið hana og notið. Sem svo verður til þess að raforkuverð til Íslendinga mun stórhækka.
Íslendingar eru mesta raforkuþjóð í heimi. Við framleiðum tvöfalt meiri raforku á hvern íbúa. Hagnaður hins opinbera af raforkufyrirtækjum okkar er um 50 milljarðar á ári og fer vaxandi. Við almenningur í þessu landi eigum að njóta afrakstur þess en ekki þeir sem vilja kaupa, selja og græða. Þjóðin á raforkuna og alla möguleika að nýta okkur til okkar hagsbóta.
Ég hef fylgst með ýmsum greinum og umræðum um þetta mál. Þar sem við sem viljum verja orku landsins okkar eru kallaðir ýmsum nöfnum. Meira að segja prófessorar tala um að andstæðingar séu aðallega bara fullveldissinnar og öll þessi andstaða sé tengd því. Ég get hvergi séð neitt sem mælir með samþykki. Sama hvað skrifað hefur verið um málið. Flest okkar vitum að þegar orkugeirinn hefur verið markaðsvæddur, mun hann fyrr eða síðar hafna í klóm fjárfesta.
Hvað sem er í mjög mikilvægum málum á þjóðin rétt á að fá að kjósa um í þjóðaratkvæðagreiðslu. Varðandi nefnda fyrirvara þá munu þeir fara eftir því hvernig stjórn við fáum á Íslandi, lítandi til baka þegar VG og Samfylkingin settu þjóðina í þá aðstöðu að fara í viðræður um inngöngu í Evrópusambandið án þess að spyrja hana að því. Svona til samanburðar. Það er ljóst eftir lestur þar til gerðs skjals á milli EB og EES að öll raforkutengd mál eiga að renna frá EES yfir í EB. Þið sem hafið áhuga lesið endilega EES-viðbætir við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins - TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS2009/72/EB frá 13. júlí 2009 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu tilskipunar 2003/54/EB(*) ---- 2017/EES/31/46.
Það er eiginlega ótrúlegt til þess að hugsa að þingmenn skuli ætla sér að samþykkja Orkupakka 3 þvert gegn vilja mikils meirihluta þjóðarinnar sem er andstæðingur hans. Grundvallaratriði er að það er þjóðin sjálf sem á orkuna. Og ófrávíkjanlegt að við getum notið alla orku landsins okkar sjálf, eingöngu til eigin nota.
** Ágæti þingmaður þú sem ætlar þér að samþykkja Orkupakka 3. Ég skora á þig að hugsa málið vandlega. Hvað þú gerir þjóð þinni með því! Ég hvet þig/ykkur til að hugsa til almennings í þessu landi með virðingu og trausti. Verið heiðarlegir og leyfið fólki að kjósa um þetta mjög mikilvæga mál. **
Til okkar hinna. Notum tímann vel meðan þingið er í fríi fram til 29. apríl til að úthugsa hvernig almenningur á Íslandi getur komið í veg fyrir að þingið geti samþykkt Orkupakka 3.