Það birtir fyrr með hverjum degi. Við erum hætt að tala um klukkuna. Hún liggur okkur ekki jafnþungt á hjarta á björtum morgnum, bjartari kvöldum, og hún gerði þegar sól var lægst á lofti. Og meðan sólar nýtur mestan hluta sólarhringsins þá höfum við ekki áhyggjur af því hvort klukkan er hálf eitt eða hálf tvö á hádegi.
Slegið í gegn
Miðvikudag fyrir páska tók ég þátt í ánægjulegri stund vestur á fjörðum þegar ég „sló í gegn“ og rauf þannig haftið í nýjum jarðgöngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Þessi viðburður markar upphafið að stórsókn í samgöngumálum í fjórðungnum en á samgönguáætlun eru 25 milljarðar króna áætlaðir í samgöngur á Vestfjörðum og er þar á meðal hin margumtalaða leið um Teigsskóg sem á eftir að verða gríðarlega mikilvæg samgöngubót.
Árangur samhentrar ríkisstjórnar
Síðasta eina og hálfa árið hefur samhent ríkisstjórn unnið af krafti og ábyrgð. Það hlýtur flestum að vera ljóst að sá árangur sem náðist með lífskjarasamningi á almennum markaði með ábyrgri og framsýnni aðkomu stjórnvalda er stórt skref í því að bæta lífsgæði á Íslandi og tryggja betri afkomu þeirra sem eru á lægstu laununum í samfélaginu.
Stefna Framsóknar verður að veruleika
Áherslumál Framsóknar í síðustu kosningum eru áberandi í aðgerðum stjórnvalda vegna kjarasamninga. Fyrst ber að nefna „svissnesku leiðina“ sem felst í því að fyrstu kaupendum sé gert kleift að nýta hluta af lífeyrissparnaði sínum til að kaupa sér íbúðarhúsnæði. Sérstakt baráttumál okkar í Framsókn í langan tíma, það að húsnæðisliðurinn sé tekinn út úr vísitölunni, er að verða að veruleika fyrir ný neytendalán og skref sem svo gott sem tryggja að verðtryggingin sé úr Íslandssögunni verða að veruleika á næstu misserum. Næstu ár verða framlög til samgangna 9,5 milljörðum hærri á ári en þau voru í upphafi kjörtímabilsins. Samkomulag við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um 100 milljarða króna uppbyggingu á næstu fimmtán árum er í burðarliðnum. Skattar á lægstu laun lækka. Barnabætur hækka. Fæðingarorlof verður lengt í 12 mánuði. Skerðingar á framfærslu námslána hafa verið lækkaðar og ný og byltingarkennd lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna eru væntanleg. Mikilvægur stuðningur við íslenska bókaútgáfu hefur verið samþykktur. Stuðningur við leigufélög sem ekki eru hagnaðardrifin er stóraukinn. Og fleira og fleira.
Allt eru þetta gríðarlegar samfélagsbætur. Samfélag okkar verður betra í lok kjörtímabils en það var í byrjun þess. Og hafa þá stjórnmálin og stjórnmálamenn vonandi gert nokkurt gagn.
Þriðji orkupakkinn
En (því það er alltaf eitthvert en) það eru uppi miklar deilur um það sem nefnt hefur verið þriðji orkupakkinn og felst í frekari innleiðingu á orkutilskipunum Evrópusambandsins. Hefur ríkisstjórnin reynt að koma til móts við þá sem harðast hafa gagnrýnt pakkann með þingsályktunartillögu sem og fleiru sem á að taka af allan vafa um að orkuauðlindir Íslands verði undir yfirráðum Íslendinga og engra annarra. Þrátt fyrir álit fjölmargra lögspekinga þá hefur ekki náðst að sannfæra meirihluta þjóðarinnar um að nóg sé að gert með þeim fyrirvörum sem kynntir hafa verið.
Segja má að umræður um orkupakkann séu hatrammar. Er það að mörgu leyti skiljanlegt enda um eitt af fjöreggjum íslensku þjóðarinnar að ræða og líklega sú auðlind sem á eftir að skipta mestu máli fyrir lífsgæði komandi kynslóða. Það er því mikilvægt að leitað sé sáttar og niðurstöðu sem almenningur trúir og treystir að gæti hagsmuna þjóðarinnar í bráð og lengd.
Sárin eru ekki gróin
Þótt ríflega áratugur sé liðinn frá hruni þá hefur þjóðin ekki gleymt. Sárin eru ekki gróin. Stofnanir samfélagsins, stjórnmál og stjórnsýsla, hafa ekki endurheimt traust almennings. Fólk hefur auk þess horft upp á tilhneigingu Evrópusambandsins að taka sér stöðu með fjármála- og viðskiptavaldinu gegn lýðræðinu eins og við kynntumst í Icesave-málinu og sést einnig vel í ofbeldiskenndri framkomu Evrópusambandsins gagnvart grísku þjóðinni. Það er því ekki skrýtið að íslenskur almenningur vilji hafa varan á þegar kemur að samskiptum við þetta stóra veldi sem er reyndar draumaland einstaka stjórnmálahreyfinga hér á Íslandi.
Í meira en öld hefur Framsókn oft verið í því hlutverki að miðla málum. Ég tel mjög mikilvægt að í vinnu þingsins við orkupakka þrjú vinni allir þingmenn samkvæmt samvisku sinni að því að tryggja hagsmuni Íslands og gleymi ekki að hlusta eftir þeim röddum sem hljóma utan þinghússins. Þeim tíma sem fer í að skapa sátt og einingu er ætíð vel varið.
Höfundur er formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.