Það er lærdómsríkt að fylgjast með umræðunni um 3. orkupakkann. Hver af öðrum stíga öldungar fram og vara við honum. Það er enda skiljanlegt, því ef öldungar geta komið sér saman um eitthvað, þá er það óbreytt ástand. Helst samt að stíga eins og nokkur skref aftur í tímann sem var svo góður og skiljanlegur. Eiginlega ætti ég að vera með í þessum hópi aldursins vegna, en ég get allavega enn hugsað út fyrir rammann í svona málum. Að minnsta kosti tel ég mér trú um það sjálfur.
Ef við sleppum nú umræðunni um 3. orkupakkann og veltum fyrir okkur hver sé framtíð þessa lands í umheiminum, því hvort sem öldungarnir trúa því eða ekki. Þá munu veðurfarsbreytingar á jörðinni ekki ganga framhjá Íslandi. Ekki frekar en öðrum stöðum hér á jörðinni.
Áður en mörg ár líða mun botninn detta úr „túristasíldarævintýrinu” eins og öðrum síldarævintýrum á Íslandi. Þar átti að grípa skyndigróðann af því sem enginn vissi hvort endast myndi út árið. Öllu er nú eins og þá veðjað á einn hest, sem þegar er farinn að lasnast. Innan fárra ára verða settar takmarkanir á hversu fólk má fljúga mikið. Það mun fækka ferðum til og frá landinu um marga tugi prósenta, og þá aðallega útlendinga. Eftir munu standa tóm hótel, eins og gömlu síldarverksmiðjurnar. Óhemju fjárfestingar fara í súginn og fjöldi fólks stendur uppi gjaldþrota og atvinnulaust. Þetta eru útlínur hins íslenska hagkerfis gegnum árin. Þá er nú gott að hafa blessaða krónuna sem getur virkað eins og yoyo, upp og niður, en þó aðallega niður.
Eins og ég skil framtíðar veðurspár, munu stormar og úrkoma aukast mikið hér vegna lægðagangs yfir Atlantshafi og lægðirnar strika beint yfir Ísland, en háþrýstisvæði, hitabylgjur og þurrkar þá plaga Vestur-Evrópu. Lægðagangurinn verður þá framtíðar veðurfar frá Suðausturlandi og vestur um land. Nema Golfstraumurinn taki upp á því að sökkva, sem vonandi verður ekki í náinni framtíð. En ég er nú ekki menntaður veðurfræðingur, e.t.v. frekar eins og sjómenn og bændur hér áður fyrr sem höfðu sína eigin reynslubundnu veðurspá.
Ég höfða til ungs fólks á Íslandi. Að það taki ábyrga afstöðu til framtíðar landsins í alheimsvíðu samhengi. Það er komið nóg af staðnaðri „heima er best” pólitík gamalmenna. Íslendingar eiga að axla ábyrgð á framtíð jarðarinnar með því að nota þá gífurlega sterku aðstöðu sem Ísland hefur til þess að bæta ástand jarðarinnar og um leið að tryggja fjárhagslega framtíð þjóðarinnar. Það á að leggja eins marga sæstrengi til bæði Evrópu og Ameríku og þarf til, þegar búið verður að virkja hvern einasta bæjarlæk og hverja einustu jökulsá meðan þær endast (e.t.v. 100 ár). Það á ekki að sleppa einum einasta vatnsdropa til sjávar nema hann hafi verið fullnýttur til rafmagnsframleiðslu. Það á að setja upp eins margar vindorkustöðvar og mögulegt er til þess að nýta þá auknu storma sem hér munu sennilega ráða ríkjum til framtíðar. Alla orkustrengi á að leggja í jörðu, ekki aðeins til bættrar ásýndar landsins, en miklu fremur til öruggrar afhendingar rafmagns til sjávar á öllum árstímum.
Útflutningur vistvæns rafmagns mun verða uppspretta mikillar velmegunar á Íslandi til ófyrirsjáanlegrar framtíðar. Geta Íslendingar þar litið til olíusjóðs Norðmanna, sem mun þó löngu verða uppurinn meðan vistvænt rafmagn mun enn mala gull fyrir Ísland.
Aðeins verður að gæta þess að allar virkjanir verði eign þjóðarinnar, eins og olíuvinnslan hjá Statoil Norðmanna. Það yrði þó að fá aðstoð erlendis frá við uppbyggingu kerfisins. Það gerðu Norðmenn einnig þegar þeir byggðu upp sitt olíuvinnslukerfi. Stóru alþjóðlegu olíufélögin fengu hlutdeild í hagnaðinum með því að leggja til sína þekkingu og fjármagn við borun og úrvinnslu olíunnar. Sá samningur var þó aðeins í gildi í ákveðin árafjölda, eða þar til þau fyrirtæki höfðu fengið sitt framlag endurgreitt í formi olíu og útlagðs fjármagns. Í dag er Statoil einrátt í olíuvinnslu við Noreg og allur hagnaður hennar rennur beint til norsku þjóðarinnar.
Með bestu kveðjum og áskorunum til ungra Íslendinga um að sækja fram og virkja auðlegð Íslands til hagsmuna fyrir land og þjóð.