Tveimur árum eftir aldamótin sat ég í Stúdentagarði í Berlín og horfði á sjónvarpið. Þetta var í herbergi meðleigjanda míns. Hann átti sjónvarpið, hélt á fjarstýringunni og fletti gerræðislega milli stöðva.
Í örskamma stund sá ég glitta í Hlemm á sjónvarpsskjánum.
„Stop, Mann! Das war Island!“ Hrópaði ég með blöndu af forundran og heimþrá. Hann fletti til baka og við horfðum á. Þetta var heimildarmyndin Hlemmur. Rúmenskur meðleigjandi fylgdist þögull með þegar fólkið í heimalandi mínu lýsti degi sínum og hvaða hreinlætisvökva og hreinsiefni það innbyrti til að láta hann líða hraðar.
Hið ágæta enskumælandi blað Reykjavík Grapevine hefur komið út frá 2003. Það birtir iðulega túristakort af Reykjavík. Í fyrsta tölublaðinu leit kortið af Kvosinni svona út:
En ef hinn endi Laugavegar er skoðaður þá fengum við þessa mynd:
Í stuttu máli. Seinustu útverðir siðmenningar á ofanverðum Laugaveginum voru, að mati blaðamanna Grapevine: Svarta kaffi og Argentína steikhús. Annað var ekki að sjá á þessu svæði.
Þar sem ég stend á horn Laugavegar og Rauðarárstígs reiknast mér að geti talið 19 veitingastaði sem ég sé að geta labbað í á innan við mínútu. Í þeim hópi eru kaffihús, fjölþjóðlegir skyndibitastaðir og veitingastaðir sem frægir dekkjaframleiðendur, Michelin, hafa séð ástæðu til að mæla með.
Næst á dagskrá er að búa til fallegt torg á Hlemmi, gefa gangandi vegfarendum meira vægi á kostnað bílaumferðar og búa til meira pláss fyrir veitingarekstur og mannlíf. Þar með búum við til tveggja kjarna miðbæ með Austurvelli og Hlemmtorgi á sitt hvorum endanum og göngugötu á milli. Ekki ósvipað og við þekkjum í Kaupmannahöfn með Ráðshústorginu og Kóngsins nýja torgi.
Í framhaldinu er vert að huga að frekari uppbyggingu á Hlemmsvæðinu og svæðinu austan við Hlemm. Skipholtið er að verða að spennandi götu fyrir fyrirtæki og stofnanir sem velja valkost á jaðri miðbæjarins. Í framtíðinni munu þeir sem vilja birta túristakort af miðbænum skera myndina enn austar. Enda er miðbærinn að vaxa og dafna. Og hefur gert frá aldamótum.
Höfundur er borgarstjórnarfulltrúi Viðreisnar