Já, Ari Trausti, orkan er okkar og okkur ber að sjá til þess að svo verði áfram

Haraldur Ólafsson, einn af stofnendum hreyfingarinnar Orkan okkar, svarar pistli Ara Trausta Guðmundssonar, þingmanns VG, um stöðuna í íslenskum orkumálum.

Auglýsing

Ari Trausti Guð­munds­son fjallar um ýmsa þætti orku­mála í grein­inni „Orkan er okk­ar.“ í Kjarn­anum 1. maí sl. Við þá úttekt er nokkru að bæta. 

Valdið

Saka- og afreka­skrá Lands­regl­ara­stofu Evr­ópu­sam­bands­ins (ACER) er vegin og létt­væg fundin af Ara Trausta. Að svo komnu máli leggur und­ir­rit­aður ekki mat á hana, en minnir á þrennt:

  • Saga emb­ætt­is­ins er ekki mjög löng. Engu að síður hefur það nýtt vald­heim­ildir sínar í mörgum málum þar sem háar fjár­hæðir eiga í hlut. 
  • Valdi má beita með ýmsum óbeinum hætti án þess að form­legar ákvarð­anir séu tekn­ar. Svo­leiðis má kalla vald­heim­ildir kjarn­orku­sprengj­unn­ar. Þótt sprengjan hafi ekki verið notuð í ára­tugi hefur hún haft mikil áhrif. 
  • Saga til­tölu­lega nýstofn­aðs emb­ættis segir lítið um hvernig það muni fara með það vald sem því verður fengið í síbreyti­legu ríkja­sam­bandi sem stefnir í átt að meiri sam­ein­ingu. Afar erfitt getur reynst að kom­ast undan valdi emb­ætt­is­ins síðar meir. 

Hvar er hót­un­in?

Allt tal um að EES-­samn­ing­ur­inn kom­ist í upp­nám er úr lausu lofti grip­ið, nema auð­vitað ef Evr­ópu­sam­bandið hefur hótað íslenskum stjórn­völdum refs­ingu kjósi þau að nýta sér rétt sinn til að afþakka laga­bálk­inn. Hafi Ari Trausti eða aðrir þing­menn fengið upp­lýs­ingar um slíka hótun er rétt að upp­lýsa það taf­ar­laust. 

Auglýsing

And­stæð­ingar þess að Ísland gangi í orku­banda­lag Evr­ópu­sam­bands­ins hafa ýmsar skoð­anir á flestum mál­um, meðal ann­ars EES-­samn­ingn­um. ­Menn eru þó nokkuð sam­mála um að haldi Ísland áfram veg­ferð­inni inn í orku­banda­lagið muni óvin­sældir EES vaxa hratt. Þá verður vita­skuld umræða um þann samn­ing og í þeirri umræðu mun síend­ur­tekið söngl um að allt gott sé EES að þakka og að Íslend­ingar hafi búið í torf­kofum við sult og seyru fyrir árið 1994 duga skammt. 

Í upp­hafi skyldi

Frakkar og fleiri í Evr­ópu­sam­band­inu takast nú á við fyr­ir­mæli Evr­ópu­sam­bands­ins um mark­aðsvæð­ingu vatns­orku sem verka­lýðs­fé­lög og fleiri túlka sem einka­væð­ingu. Eng­inn vafi er á að hlið­stæð krafa muni koma á hendur Íslend­ingum fyrr eða síðar verði haldið áfram inn­limun Íslands í orku­banda­lag Evr­ópu­sam­bands­ins. Sann­gjarnt væri að Ari Trausti og aðrir þing­menn útskýrðu hvernig þeir munu þá bregð­ast við. Ekki væri væri verra að gauka að Frökkum og öðrum í hlið­stæðri stöðu, ráðum um hvernig þeir gætu kom­ist úr því neti sem um þá hefur verið spunn­ið. Er svarið þar kannski bara máls­hátt­ur­inn „Í upp­hafi skyldi endir­inn skoða“ ?

Skylda Alþing­is­manna

Óum­deilt er að bálk­arnir um lands­regl­ara og Lands­regl­ara­stofu Evr­ópu­sam­bands­ins fela í sér valda­fram­sal. ­Fyr­ir­varar hafa ríka til­hneig­ingu til að þynn­ast og hverfa og allt vísar í þá átt að fyr­ir­varar í þessu orku­bálk­s­máli séu fyrst og fremst til heima­brúks. Það er ekki gæfu­legt fyrir Íslend­inga að koma sér í þá stöðu, full­kom­lega að nauð­synja­lausu, að þurfa að „mæta því með rökum og vörn­um“ ef ESA úrskurðar að fyr­ir­vari gangi ekki upp, svo vísað sé í orð Ara Trausta. Það er ein helsta skylda Ara Trausta og ann­arra Alþing­is­manna að standa á þann hátt vörð um auð­lindir Íslands að ekki komi til þess að verja þurfi þær fyrir erlendum dóm­urum gegn ásælni erlendra aðila, með allri þeirri áhættu og óvissu sem slíku fylg­ir. 

Já, Ari Trausti, orkan er okk­ar, að minnsta kosti enn sem komið er. Það er okkar að binda svo um hnúta að hún verði það um ókomna tíð. Það gerum við í dag með því að hafna því að færa vald­heim­ildir í orku­málum til erlends ríkja­sam­bands og afþakka þriðja orku­laga­bálk­inn. Það er ekki flókn­ara.

Höf­undur er for­­maður Heims­­sýn­ar og einn stofn­enda hreyf­ing­ar­innar Orkan okk­ar.

Meira úr sama flokkiAðsendar greinar