Norska ríkisfyrirtækið Stakraft, sem er Landsvirkjun þeirra Norðmanna, var að opna nýjan vindmyllugarð. Sem er sá stærsti í Noregi til þessa. Þarna í Roan í Þrændarlögum voru á einungis tveimur sumrum reist 71 vindmylla með afl upp á samtals 255,6 MW. Hver vindmylla er 3,6 MW og eru þær framleiddar af danska Vestas. Þetta er þó einungis fyrsti áfanginn í miklu stærra vindokuverkefni. Í þessari grein segir frá þessu risaverkefni Norðmanna, sem er til marks um mikinn og góðan uppgang vindorkunnar, auk þess sem hér er lýst fjárfestingum Norðmanna í íslenskri vindorku.
Norska Statkraft leggur áherslu á vindorku
Með opnun þessa nýja vindmyllugarðs í nágrenni Þrándheims er Statkraft orðið stærsta vindorkufyrirtæki í Noregi; fór þarna fram úr norska fyrirtækinu Zephyr í uppsettu afli í norskri vindorku. Þessi nýi vindmyllugarður upp á rúmlega 250 MW er þó einungis upphafið af miklu stærra verkefni, sem nefnist Fosen Vind og mun samanstanda af sex þyrpingum vindmylla á svæðinu. Fullbyggður verður þessi norski vindmyllugarður um 1.000 MW og orkuframleiðslan verður um 3.400 GWst árlega.
Til samanburðar má nefna að fullbyggður mun Fosen Vind vindmyllugarðurinn framleiða fimmfalt meiri raforku en hin nýja Þeistareykjavirkjun og um þrefalt meira en öll sú raforka sem HS Orka framleiðir. Og fullbyggður mun Fosen Vind framleiða nánast nákvæmlega jafn mikið rafmagn eins og allar virkjanir Orkuveitu Reykjavíkur (Orku náttúrunnar) til samans!
Statkraft er ekki eini hluthafinn í Fosen Vind. Fyrirtækið er þarna í samstarfi við norsku fyrirtækin Trønder Energi og Nordic Wind Power, ásamt Credit Suisse Energy Infrastructure Partners og svissneska orkufyrirtækinu BKW. En Statkraft fer með meirihluta hlutabréfanna í Fosen og er framkvæmdaraðili verkefnisins.
Vindorkan er hagkvæmust
En af hverju er verið að virkja norskan vind í svo miklu magni? Svarið við því er einfalt: Hagkvæmni. Vindorka er orðin ódýrasta tegund nýrrar raforkuframleiðslu. Það er því sannarlega líka orðið tímabært að vindurinn verði virkjaður á Íslandi. Um leið er unnt að minnka hér þörfina á nýjum og oft afar umdeildum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum.
Nú eru orðin nokkur ár síðan greinarhöfundur sannfærðist um að það væri einungis tímaspursmál að vindorka yrði svo ódýr og hagkvæm að hún yrði samkeppnishæf á íslenskum raforkumarkaði. Sá tími er runnin upp, sbr. nýleg ummæli á vegum Landsvirkjunar.
Zephyr Iceland byrjar starfsemi
Nýverið átti greinarhöfundur þátt í stofnun vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland. Fyrirtækið hyggst á komandi misserum og árum ráðast í umtalsverðar rannsóknir á íslenskum vindi með það að markmiði að reisa vindmyllugarða á Íslandi. Fyrirhuguð verkefni dreifast víða um landið og senn verður greint nánar frá þeim rannsóknum og undirbúningi verkefnanna.
Zephyr Iceland er í meirihlutaeigu norska vindorkufyrirtækisins Zephyr. Það fyrirtæki hefur verið brautryðjandi í norskri vindorku og er eitt reynslumesta vindorkufyrirtækið þar í landi. Í dag er norska Zephyr annað stærsta vindorkufyrirtækið í Noregi, með lítið minna uppsett vindafl þar í landi en ríkisfyrirtækið Statkraft. Og það var reyndar einungis nýlega að Statkraft varð þarna stærra en Zephyr, með áðurnefndum Fosen vindmyllugarði sínum.
Google og Alcoa meðal helstu viðskiptavina
Að auki er Zephyr nú að reisa tæplega 200 MW vindmyllugarð á Guleslettene vestast í Noregi. Öll sú raforka sem þar verður framleidd hefur verið keypt af álveri Alcoa í Noregi með langtímasamningi. Áður hafði Zephyr m.a. reist 160 MW Tellenes vindmyllugarðinn og þar kaupir Google alla raforkuna sem vindmyllugarðurinn framleiðir næstu 12 árin. Með Guleslettene verður uppsett vindafl á vegum Zephyr komið í samtals um 500 MW. Að auki er svo Zephyr nýlega búið að semja um að yfirtaka reksturinn á um 280 MW vindmyllugarðinum Nordlys nálægt Tromsø í N-Noregi. Zephyr er sem sagt með mikla og geysigóða reynslu af öllu því sem viðkemur vindorku og þ.á m. undirbúningi verkefna, fjármögnun, byggingu vindmyllugarða og rekstri slíkra garða.
Samstarf við Black Rock
Verkefni Zephyr í Noregi hafa gengið mjög vel. Það kemur því ekki á óvart að fyrirtækið skyldi fá athygli eins stærsta fjárfestingasjóðs í heimi, sem er bandaríska sjóðafyrirtækið Black Rock, en það fyrirtæki keypti nýlega tvo af vindmyllugörðum Zephyr í Noregi. Samkvæmt langtímasamningi við Black Rock sér Zephyr áfram um reksturinn á vindmyllugörðunum. Black Rock er með um sex þúsund milljarða USD í eignastýringu og álítur bæði vind- og sólarorku skynsamlega fjárfestingu.
Norsk skynsemi og varfærni að leiðarljósi
Áður en norska Zephyr ákvað að koma til Íslands skoðaði fyrirtækið íslenska raforkumarkaðinn af gaumgæfni og kynnti sér íslensk raforkumál ítarlega. Zephyr hefur varfærni og skynsemi í fyrirúmi, enda er fyrirtækið í eigu þriggja norskra vatnsaflsfyrirtækja, sem öll eru í eigu norskra sveitarfélaga og fylkja. Slíkir eigendur forðast of mikla áhættusækni og leggja mikið upp úr samfélagslegu gildi verkefna sinna. Um leið er leitast við að verkefni fyrirtækisins stuðli að öflugum fjárfestingum með sterkum samstarfsaðilum. Zephyr Iceland væntir þess að innan nokkurra ára geti fyrirtækið boðið Íslendingum og íslenskum fyrirtækjum raforku frá íslenskum vindi á hagstæðu verði.
Höfundur er framkvæmdastjóri Zephyr á Íslandi.