Það hefur verið skrýtið að fylgjast með umræðunni um þriðja orkupakkann að undanförnu. Ótrúlegt magn af misvísandi og jafnvel röngum upplýsingum hefur verið haldið að landsmönnum. Sannleikurinn virðist ekki skipta suma máli heldur er haldið áfram að hamra á áróðrinum eins og það muni eitthvað breyta staðreyndum. Jafnvel forystumenn stjórnmálaflokka koma fram í fjölmiðlum og halda frammi fullyrðingum sem standast enga skoðun. Málið er að 2+2 eru alltaf 4 alveg sama þótt einhverjir hamist við að reyna að sannfæra fólk að talan sé 5.
Kíkjum á helstu fullyrðingar sem hefur verið haldið á lofti í umræðunni.
- Ísland tapar yfirráðum yfir auðlindum sínum. Þetta er rangt. Ísland heldur áfram fullu forræði yfir orkuauðlindinni. Erlendur aðili getur ekki fyrirskipað lagningu sæstrengs eða hvernig eigi að hátta eignarhaldi með orku á Íslandi. Staðreyndin er sú að þriðji orkupakkinn hefur engin áhrif á forræði Íslendinga yfir orkuauðlindinni.
- Orkupakkinn stangast á við stjórnarskrána. Þetta er rangt. Nánast allir lögspekingar staðfesta það. Meira að segja Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Hirst, sem andstæðingar Orkupakkans hafa vísað mikið til, segja: ,,Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögur utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá.“
Auglýsing
- Orkupakkinn skuldbindur íslensk stjórnvöld til að einkavæða Landsvirkjunar. Þetta er rangt. Hvorki Evrópusambandið né ESA hafa neinar valdheimildir til að skipta upp eða einkavæða íslensk orkufyrirtæki. Engin nýmæli eru í þriðja orkupakkanum sem geta stuðlað að slíku. Staðreyndin er sú að þriðji orkupakkinn hefur enga þýðingu gagnvart einkavæðingu, eignarhaldi eða uppskiptingu íslenskra orkufyrirtækja.
- Ísland þarf að samþykkja lagningu sæstrengs til Evrópu. Þetta er rangt. Það er ekkert sem skuldbindur Íslendinga til að leggja sæstreng til eða taka á móti sæstreng frá Evrópu. Staðreyndin er sú að þriðji orkupakkinn leggur engar skyldur á herðar Íslands að samþykkja lagningu sæstrengs.
- Orkupakkinn felur í sér framsal valdheimilda til Brussel. Þetta er rangt. Ákvæði þriðja orkupakkans um valdframsal hafa enga þýðingu á Íslandi þar sem engin tenging er við innri raforkumarkað Evrópu.
- Ekkert sé minnst á orkumál í EES samningnum og því eigi að hafna þessu máli. Þetta er rangt. Í 24. gr. EES samningsins eru sérstök ákvæði og fyrirkomulag varðandi orkumál. Sérstaklega í lV. Viðauka. Þar segir: ,,Innan ESB hefur ekki þróast nema í mjög takmörkuðu mæli sameiginleg stefna í orkumálum...Sameiginlegar reglur verða þó um gagnkvæma tilkynningarskyldu um fjárfestingar á sviði jarðolíu, jarðgass og raforku, blöndun annars eldsneytis í olíu og aðgang að orkuflutninganeti. Hið síðasta gæti komið að gagni ef og þegar af útflutningi orku frá Íslandi til Evrópu með sæstreng ef verður.“
- Orkuverð mun hækka með samþykkt orkupakkans. Þetta er mjög vafasöm fullyrðing. Skýrsla sem verkfræðistofan Efla hefur unnið fyrir forsætisráðuneytið bendir til að orkukostnaður heimila hafi fylgt almennri verðlagsþróun frá árinu 2005. Orkuveita Reykjavíkur hækkaði að vísu verð undir lok árs 2010 vegna rekstrarvanda þess tíma. Sú hækkun hafði ekkert með orkupakkana að gera né uppskiptingu Orkuveitunnar. Staðreyndin er sú að þriðji orkupakkinn eykur neytendavernd, stuðlar að aukinni samkeppni og jafnræði milli aðila sem ætti almennt að stuðla að lægra verði en ekki hærra.
- Við getum hafnað Orkupakkanum án nokkurra afleiðinga fyrir EES samstarfið. Þetta er mjög vafasöm fullyrðing. Gunnar Dofri Ólafsson lögfræðingur kom með skemmtilega samlíkingu í grein í Kjarnanum nýlega. Þar sagðist hann hafa fullan rétt á því að koma blindfullur heim til kærustunnar sinnar á hverri nóttu. Það væri hins vegar öruggt að sú framkoma myndi örugglega hafa áhrif á samband sitt við hana. Á margan hátt má bera þetta saman við samstarfið innan EES. Einhver er ástæða fyrir því að ekkert aðildarland hefur beitt neitunarvaldi frá upphafi. Fundin er málamiðlun í sameiginlegu EES nefndinni ef löndin telja að þjóðhagslega mikilvægt mál sé að ræða. Staðreyndin er sú að þriðji orkupakkinn er búinn að vera í þinglegri meðferð síðan 2010. Árið 2017 var málið afgreitt frá Sameiginlegu EES nefndinni án athugasemda íslenskra stjórnvalda. Svo mæta hérna einhverjir norskir Miðflokksmenn og þá verður allt vitlaust. Þeir vita mætavel að ef málið er fellt hér þá tekur það ekki heldur gildi í Noregi. Þeim mistókst að stoppa málið i Noregi og reyna því að hafa áhrif á umræðuna hér á landi. En við eigum að skoða þetta út frá íslenskum hagsmunum en ekki áhuga norskra Miðflokksmanna að trufla EES samstarfið.
Það er eðlilegt að vera ekki alltaf sammála í pólitík. En að næra lýðskrumið með fullyrðingum sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum er óboðlegt í opinberri umræðu. Sérstaklega þegar óprúttnum aðferðum er beitt til að hafa áhrif á skoðanir almenning. Dæmi um slíkan ófögnuð er að gróusögu um persónulega hagsmuni utanríkisráðherra og maka hans er fleytt inn í umræðuna á mjög Brexítiskan hátt. Þrátt fyrir að þetta hafi verið margleiðrétt þá dúkkar þetta hvað eftir annað upp í röksemdarfærslum andstæðinga orkupakkans.
Það verður að hrósa þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og þá sérstaklega ráðherrunum Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur fyrir málefnalega umræðu í þessu hitamáli. Þau hafa verið óþreytandi að koma réttum upplýsingum á framfæri þrátt fyrir mikla pressu frá fyrrverandi áhrifafólki í flokknum.
Þetta framtak ásamt skrifum ýmissa forráðamanna samtaka og fyrirtækja virðist hafa skilað árangri. Í nýjustu skoðanakönnun varðandi þetta mál kom í ljós að eftir því sem fólk kynnti sér málið betur því betur gerði það sér grein fyrir staðreyndum málsins. Það er því von að lýðskrum og falsfréttir eiga ekki upp á pallborðið hjá Íslendingum.
Höfundur er með M.Sc. gráðu í Evrópufræðum frá London School of Economics og hefur starfað að Evrópumálum í 25 ár.