Mikil ringulreið og ráðleysi ríkir í dómskerfinu eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp þann dóm að dómsmálaráðherra hafi ekki farið að lögum heldur beitti geðþóttavaldi við skipan dómara í Landsrétt og þar með grafið undan undan réttaröryggi í landinu. Grundvallarmannréttindi verða einungis tryggð með sjálfstæðum dómstólum, segir í dómsorðum, og skipan dómsmálaráðherra á dómurum í Landsrétt telst ógnun við réttarríkið og lýðræðið í landinu.
En hvað varð til þess að dómsmálaráðherra stóð þannig að verki? Helsta skýringin blasir við: Sigríður Á. Andersen fetaði í fótspor fyrri dómsmálaráðherra úr röðum Sjálfstæðisflokksins. Þeir taka fullveldi Flokksins fram yfir sjálfstæða dómstóla.
Hæstiréttur takmarkar fullveldi Sjálfstæðisflokksins
19. desember árið 2000 var tímamótadagur á Íslandi. Með tveim dómum Hæstaréttar var sem lýðveldinu væri dregið inn í nýjan veruleika þar sem æðsti dómstóll landsins viðurkenndi tilkall til mannréttinda á grundvelli íslensku stjórnarskrárinnar, mannréttindasáttmála Evrópu og alþjóðlegra skuldbindinga landsins. Annars vegar var Sigurður G. Guðjónsson sýknaður af meiðyrðakröfu Kjartans Gunnarssonar framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins með tilvísun til ákvæða um tjáningarfrelsi sem grundvallarmannréttindi. Kjartan væri opinber persóna og þyrfti sem slík að þola harða gagnrýni á sín störf sem formaður bankaráðs stærsta bankans, Landsbanka Íslands. Hinn dómurinn snerti mannréttindi öryrkja.
Í stuttu máli hafði Tryggingarstofnun ríkisins um árabil skert tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap með því að telja helming samanlagðra tekna beggja hjóna til til tekna lífeyrisþegans í því tilviki er maki hans er ekki lífeyrisþegi. Öryrkjabandalagið höfðaði mál til að fá þessum skerðingum hnekkt. Ragnar Aðalsteinsson var lögmaður bandalagsins og vísaði m.a. til upphafsmálsgreinar 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins:
„Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.”
Öryrkjabandalagið tapaði málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar meirihluti dómaranna (Hjörtur O. Aðalsteinsson og Eggert Óskarsson) sýknaði Tryggingarstofnun ríkisins. Auður Þorbergsdóttir skilaði sératkvæði í Héraðsdómi Reykjavíkur og ályktaði að viðurkenna bæri að skerðingin væri óheimil:
„Það að flytja lögbundinn rétt öryrkja skv. 76. gr. yfir á maka öryrkja og gera öryrkja algjörlega háða maka sínum fjárhagslega gengur gegn yfirlýsingum um rétt fatlaðra og er brot á ákvæði stjórnarskrár um jafnrétti og stjórnarskrárverndaðan rétt til aðstoðar vegna örorku, enda telst það, að geta gengið í hjúskap að vissum skilyrðum fullnægðum, hluti almennra mannréttinda og eðlilegs lífs.”
Í dómi Hæstaréttar komst meirihlutinn (Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henryssson, Hrafn Bragason) að sömu niðurstöðu og Auður Þorbergsdóttir áður: Skerðing Tryggingarstofnunar bryti gegn mannréttindum örorkuþega í hjúskap. Minnihluti Hæstaréttar (Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein) var hins vegar sammála meirihluta Héraðsdóms.
Djúpstæður ágreiningur um aðhaldshlutverk dómstóla
Ekki skal hér tekin efnileg afstaða til þessa ágreinings um mannréttindi öryrkja í hjúpskap heldur einungis bent á tvennt:
- Bæði í Héraðsdómi Reykjavíkur og í Hæstarétti birtist djúpstæður ágreiningur dómara um vald dómstóla gagnvart löggjafarvaldinu. Auður Þorbergsdóttir og meirihluti Hæstaréttar töldu að almenn mannréttindi takmörkuðu verulega svigrúm Alþingis til lagasetningar en meirihluti Héraðsdóms og minnihluti Hæstaréttar vildi veita Alþingi mjög víðtækar heimildir til að ákvarða umfang félagslegar aðstoðar.
- Í dómi Hæstaréttar um lífeyrisréttindi öryrkja birtist sama mynstur og áður í dómi réttarins í meiðyrðamáli Kjartans Gunnarssonar gegn Sigurði G. Guðjónssyni: Hæstarréttardómarar skipaðir af Sjálfstæðisflokkknum dæmdu meirihluta á Alþingi og ríkisstjórn fremur í hag en aðrir dómarar.
Á yfirborðinu virtist ágreiningur dómara snúast um mat á ummælum um valdsmann eða upphæð bóta til örorkuþega í hjúskap. Þegar nánar er skoðað birtist hins vegar mismunandi réttarheimspeki dómarar: hér opinberaðist ólík sýn á mannréttindi og úrskurðarvald dómstóla. Hæstaréttardómarar skipaðir af Sjálfstæðisflokknum höfðu þrengri túlkun á mannréttindum og víðari skilgreiningu á lagasetningavaldi Alþingis en aðrir hæstaréttardómarar.
Sjálfstæðisflokkur vill þóknanlegan meirihluta í Hæstarétt
Margir tóku dómi Hæstréttar fagnandi og töldu hann marka tímamót í átt að sjálfstæðari dómstólum. Þannig sagði til dæmis Sigurður Líndal prófessor í lögum að það væri alls ekki óæskilegt að löggjöf þróaðist í vixlverkan löggjafarvalds og dómsvalds. Dómurinn væri í samræmi við þróun sem hafði átt sér stað í evrópskum rétti á seinni árum. (Morgunblaðið, 22 desember 2000).
Forysta Sjálfstæðisflokksins brást hins vegar hart við dómi Hæstaréttar í öryrkjamálinu. Forsætisráðherra úr Sjálfstæðisflokki, Davíð Oddsson, kvað meirihluta dómsins ekki styðjast við nein lagaleg rök heldur eigin pólitískar hugmyndir. (Morgunblaðið, 21. desember 2000). Forseti Alþingis, Halldór Blöndal samflokksmaður forsætisráðherra, taldi ótrúverðugt að minnihluti allra dómara í Hæstarétti skuli ákveða „að ryðja lögum úr vegi”. Slíkt græfi undan trausti á dómstólum. Fullskipaður dómur níu dómara Hæstaréttar hefði að að öllum líkindum komist að annarri niðurstöðu. (Dagur, 22. desember 2000). Björn Bjarnason, menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokki, var sammála flokksbræðrum sínum:
„Það vekur athygli, hve orðalag í forsendum meirihluta dómsins er óljóst miðað við mikilvægi málsins. Er þó nauðsynlegt að kveða sérstaklega skýrt að orði, þegar Hæstiréttur fer inn á valdsvið Alþingis eins og ótvírætt er gert með þessum dómi. Þá virðist einsýnt, að Hæstiréttur eigi að móta sér þá starfsreglu eða sett verði í lög, að sjö dómendur fjalli um mál, sem byggja á því að Alþingi eða ríkisstjórn hafi brotið stjórnarskrána með ákvörðunum sínum. Myndi það tryggja réttaröryggi í landinu og draga úr ágreiningi um málsmeðferð Hæstaréttar sjálfs í viðkvæmum málum”. (https://www. bjorn.is, 24. desember 2000).
Björn Bjarnason skipar Ólaf Börk Þorvaldsson Hæstaréttardómara
Björn Bjarnason varð dómsmálaráðherra vorið 2003. Um sumarið var tilkynnt að Haraldur Henrysson léti af störfum hæstaréttardómara vegna aldurs en Jón Helgason dómsmálaráðherra úr Framsóknarflokki skipaði hann í réttinn árið 1986. Haraldur var í meirihluta dómsins bæði í sýknudómnum yfir Sigurði G. Guðjónssyni og í öryrkjamálinu. Nýjum dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins var því eflaust lítil eftirsjá í téðjum hæstaréttardómara. En fullveldi flokksins væri hætta búin ef annar „óþægur” dómari kæmi í stað Haraldar. Forræði Sjálfstæðisflokksins varð að tryggja með öllum ráðum.
Lögum samkvæmt var staða nýs dómara við Hæstarétt auglýst í Lögbirtingablaðinu og sérstaklega tekið fram „að hafa skyldi í heiðri jafnrétti kynjanna við stöðuveitingar” en einungis tvær konur - Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir - voru þá hæstaréttardómarar. Umsækjendur um embættið voru átta þar af tvær konur: Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari og Sigrún Guðmundsdóttir hæstaréttarlögmaður.
Leitað var leitað umsögn Hæstaréttar um hæfni umsækjenda eins og skylt var samkvæmt dómstólalögum. Hæstiréttur taldi alla umsækjendur hæfa en mælti með skipan annars hvors Eiríks Tómassonar prófessors við Háskóla Íslands eða Ragnars H. Halls fyrrum borgarfógeta og lögmanns. Í mati Hæstaréttar var sérstaklega vísað til rannsóknar- og kennslustarfa Eiríks en þekkingar Ragnars sem borgarfógeta og lögmanns.
Björn Bjarnason hafði niðurstöðu Hæstaréttar að engu heldur skipaði Ólaf Börk Þorvaldsson í embættið. Vísaði ráðherra sérstaklega til héraðsdómarastarfa hans í tíu ár og meistaraprófs í Evrópurétti. Skipan Ólafs Barkar varð tilefni mikillar gagnrýni enda vandséð hvers vegna hann þótti bera af öðrum umsækjendum. Ólafur Börkur var hins vegar náfrændi Davíðs Oddssonar formanns Sjálfstæðisflokksins.
Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari óskaði eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort dómsmálaráðherra hefði með skipaninni brotið gegn ákvæði laga um jafnan rétt karla og kvenna. Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hefði brotið gegn jafnréttislögum. Hjördís væri ótvírætt hæfari en Ólafur Börkur á grundvelli hinna lögbundna skilyrða um embættisgengi hæstaréttardómara. Formlega viðurkenndi dómsmálaráðherra ekki lögbrot sitt en í reynd viðurkenndi ráðherrann sök með því að veita Hjördísi Hákonardóttur skaðabætur í formi ársleyfis frá störfum sem héraðsdómari á fullum launum.
Velheppnuð aðför Sjálfstæðisflokks að sjálfstæði Hæstaréttar
Í venjulegu ríki réttar og lýðræðis hefði slík aðför dómsmálaráðherra að sjálfstæði dómstóls orðið honum að falli. En ekki á Íslandi. Á Alþingi kom ekki fram tillaga um vantraust á dómsmálaráðherra. Ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru sáttir og tillaga dómsmálaráðherra um skipan Ólafs Barkar verið samþykkt á ríkisstjórnarfundi.
Þegar upp var staðið skipti vel rökstutt álit umboðsmanns Alþingis og skýr niðurstaða kærunefndar jafnréttismála engu máli. Skipun Ólafs Barkar stóð óhögguð og valdahlutföllin í Hæstarétti breyttust Sjálfstæðisflokknum í hag. Í sæti málsvara sjálfstæðari dómstóls Haraldar Henryssonar, settist Ólafur Börkur Þorvaldsson sem forysta Sjálfstæðisflokksins batt vonir við að yrði fullveldiskröfu flokksins ekki til trafala.
Þessar „farsælu” málalyktir urðu síðan forystu Sjálfstæðisflokksins hvatning til að halda áfram á sömu braut næst þegar skipa ætti dómara við Hæstarétt. Það tækifæri gafst strax að ári liðnu - og það var sannarlega ekki látið ónotað. Þá var einn helsti trúnaðarmaður forsætisráðherra og flokksins, Jón Steinar Gunnlaugsson, tekin fram yfir hæfari umsækjendur um stöðu dómara við Hæstarétt. Frá því verður sagt í næstu grein minni í Kjarnanum.