Sum mál eru þess eðlis að varasamt getur verið að skoða þau út frá einungis einu grundvallarprinsippi hversu göfugt og ágætt sem það prinsipp er. Frelsið er okkur til dæmis ólýsanlega mikilvægt og dýrmætt. Við getum samt ekki horft á mál rígbundin við algildi þess þegar við leitum farsællar niðurstöðu eða hugsa um frelsið einungis út frá einni hlið. Við megum ekki bara hugsa um frelsi til að gera eitthvað heldur líka frelsi undan einhverju. Frelsið er ekki takmarkalaust og nær ekki til þess að beita ofríki og yfirgangi, þótt sumir valdhyggjumenn vilji telja okkur trú um annað. John Stuart Mill minnti okkur á að frelsi mitt takmarkast við heill náungans.
Ég hef verið á báðum áttum í vínsölumáli Viðreisnar, en fylgst með umræðum í þingsal. Slíkur er ofsinn í málflutningi sumra andstæðinga frumvarpsins að maður fer ósjálfrátt að leggjast á sveif með því við að hlusta á þá. Þannig lét Þorsteinn Sæmundsson Miðflokksmaður á sér skilja að hann teldi afnám bjórbanns hafa verið mikið óheillaskref á sínum tíma og hann vildi helst banna hann aftur, væri það bara hægt; aðrir hafa talað eins og hófdrykkja nútímans sé engu betri en ofsadrykkja fyrri tíma, jafnvel skaðlegri; einblína á selda lítra en ekki neyslumynstrið og telja fimm hvítvínsglös með mat sem dreifast yfir vikuna skaðlegri en eina Vodkaflösku á föstudagskvöldi með tilheyrandi öngviti og djöfulskap. Sumir virðast ekki trúa því að tiltölulega ódrukkið fólk geti haft vín um hönd.
Hjá stuðningsmönnum virðist málið snúast um frelsið – frelsisprinsippið svífi ofar öllu öðru á sínum eigin himni. Þetta virðist snúast um tilfinningu fyrir persónulegu rými, að ekki sé verið að ráðskast með mann, hafa vit fyrir manni. Þetta snýst ekki síst um nokkurs konar „rýmiskennd“ sem ég held að sé mjög rúmfrek og jafnvel vanmetin í íslenskri stjórnmálahugsun. Flutningsmenn segja sjálfir að málið snúist umfram allt um viðskiptafrelsi.
Ég styð frelsi í viðskiptum og afnám viðskiptahindrana. Ég tel markaðinn vænlegan kost þar sem hann á við, til dæmis í sjávarútvegi þar sem ég vil afnema einkaaðgang fárra voldugra fyrirtækja en láta þjóðina njóta arðsins sem myndast þegar markaðsverð er greitt fyrir aðganginn að auðlindinni – og landbúnaði þar sem ég held að mikil tækifæri séu í matvælaframleiðslu ef einstaklingsframtakið fær að blómstra þar með heilbrigðri fyrirgreiðslu ríkisins, til dæmis gagnvart gróðurhúsum. En ég lít ekki á viðskiptafrelsi sem algilda grundvallarstefnu sem alltaf eigi við í öllum málum. Í þessu sem öðru leita ég að meðalhófinu – enda krati, og verð stundum hálf umkomulaus í pólaumræðunni sem hér er svo algeng.
Hvert er vandamálið? Höft. Eru höft á áfengiskaupum? Nei. Hins vegar er markaðsaðgangur takmarkaður og þar með kunna einhverjir framleiðendur og innflytjendur að vera í vandræðum með að koma vöru sinni á framfæri og vekja á henni athygli. Verða til fleiri vandamál við rýmkunina? Já. Flest bendir til þess. Heilsfarsleg, félagsleg, menningarleg.
Því áfengisneysla er ekki einkamál hvers og eins. Tilhögun áfengissölu er ekki bara viðskiptamál heldur er hér um að ræða lýðheilsumál, eins og Oddný Harðardóttir rakti ágætlega í ræðu á þingi um málið þar sem hún nefndi fjölmargar rannsóknir sem sýna það hvernig aukið aðgengi að áfengi veldur aukinni neyslu. Og aukin neysla veldur margvíslegum kvillum og vanlíðan – hjá neytandanum, aðstandendum og ástvinum – og börnum.
Við kratar aðhyllumst vissulega viðskiptafrelsi og afnám hindrana og heilbrigða samkeppni. Við aðhyllumst líka einstaklingsfrelsi. En stjórnmálamenn – þingmenn – þurfa líka alltaf að hafa í huga hvernig ákvarðanir stjórnvalda hafa áhrif á líf fólks og líðan. Við getum ekkert lokað augunum fyrir því. Hægri menn, sem aðhyllast stjórnlausa markaðshyggju, kalla slíkt viðhorf „forsjárhyggju“ en eins mætti kalla þetta „umhyggju“. Þess þarf hins vegar ævinlega að gæta að umhyggja leiði ekki til valdhyggju, af því tagi sem ýmis hægri menn aðhyllast.
Við eigum hér sem annars staðar að reyna að gæta meðalhófs. Við eigum að tryggja aðgengi fólks að þessum varningi, ekki síst bjór og léttvíni sem síður ærir fólk. Við eigum að stuðla áfram að bættri áfengismenningu sem svo sannarlega hefur orðið til með breyttum neysluháttum sem fylgt hafa minni höftum. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er þessi: eigum við að miða þennan aðgang eingöngu við þá sem eiga ekki í neinum vanda með áfengi eða eigum við að miða þennan aðgang eingöngu við hin sem eiga í þessum vanda? Eða eigum við eins og sannir kratar að hugsa málið út frá almannahagsmunum, hafa hag allra hópa að leiðarljósi: stuðla að góðum aðgangi fólks að varningnum, stuðla að betri og ánægjulegri neysluháttum – en taka líka og um leið tillit til þeirra fjölmörgu sem myndu vilja vera lausir við að takast á við þá hugdettu að fá sér áfengi oftar en nauðsyn krefur; vilja þurfa að taka á sig krók til að verða sér út um áfengi, þurfa að taka ákvörðun um það frekar en að láta þá ákvörðun taka sig.
Það er raunar ágætt fyrir okkur öll. Áfengi vekur vellíðan, frjóvgar samræður, er gott með mat, er gott á góðri stund. En það er líka vanabindandi, það breytir hugsun okkar, hefur áhrif á dómgreind okkar og losar um hömlur, oft með skelfilegum afleiðingum. Það er hinn löglegi vímugjafi samfélagsins. Það er ágætt að muna að áfengi er sérstök vara og þegar svo margt fólk hér á landi þarf að sneiða hjá því vegna ofneyslu er markaðsvæðing á sölu þess óráðleg – en frumvarp Viðreisnar gerir líka ráð fyrir því að leyfa auglýsingar.
Boð og bönn eiga sjaldan við; samtöl, fræðsla og fortölur reynast iðulega betur. Þar með er ekki sagt að bönn eigi aldrei við undir nokkrum kringumstæðum; við bönnum til dæmis ölvunarakstur og vopnaburð á almannafæri; reykingar voru bannaðar í almannarými innandyra og flestum okkar finnst nú að það hafi verið farsæl ákvörðun, en hún var mjög umdeild á sínum tíma. Og við tökumst ekki á við loftslagsmálin nema með boðum og bönnum, við afneitunarsinna í þeim málum þýðir ekki að eiga með samtölum og fræðslu. Bann við áfengisneyslu reyndist hroðalega og bjórbannið var afkáraskapur sem maður roðnar yfir, svipað og bann við hundahaldi í Reykjavík. Þar með er ekki sagt að áfengissala eigi að vera markaðsvædd með öllu. Hér sem í flestu öðru gildi meðalhófið.
Ég veit að núverandi fyrirkomulagi fylgja vandamál; erfitt kann að vera fyrir lítil brugghús, til dæmis í fámennum byggðarlögum, að koma vöru sinni á framfæri og miðstýring er ef til vill meiri en góðu hófi gegnir hjá þessari einkasölu ríkisins. En það breytir því ekki að áfengi á ekki að vera eins og hver önnur vara á markaði. Áfengisneysla er lýðheilsumál – heilbrigðismál – menningarmál. Tilhögun áfengissölu er samfélagslegt úrlausnarefni.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.