Gömul og þekkt meinsemd á vinnumarkaði er því miður að ryðja sér aftur til rúms í íslensku samfélagi. Þetta er svokölluð gerviverktaka. Gerviverktaka á sér stað þegar fyrirtæki ákveða að setja ekki starfsfólk sitt á launaskrá í fasta vinnu, heldur borga einungis verktakalaun. Þessi óæskilega þróun er ekki bundin einungis við Ísland. Baráttan gegn gerviverktöku á sér stað um alla Evrópu og í raun í heiminum öllum.
Nú þegar stéttarfélög iðnaðarmanna og Samtök atvinnulífsins hafa skrifað undir kjarasamninga, eftir langar og strembnar viðræður, og þeir samningar eru komnir í kynningarferli, er mikilvægt að ræða á sama tíma mikilvægi þess að allir aðilar taki höndum saman og útrými gerviverktöku. Hvers vegna? Jú, gerviverktaka er leið sem er því miður notuð til að sniðganga kjarasamninga og draga úr réttindum fólks.
Hvernig virkar gerviverktaka?
Við iðnaðarmenn vorum auðvitað ekki að semja til þess að þeir samningar yrðu síðan hunsaðir með gömlum brellum. Gerviverktaka er slík brella. Vitaskuld er verktaka sem slík algengt fyrirkomulag á vinnumarkaði, hentar oft og getur að sjálfsögðu verið hið eðlilegasta mál. Fyrirtæki ráða verktaka — önnur fyrirtæki eða einyrkja — í afmörkuð verk, samkvæmt samningi þar um. Gerviverktaka er hins vegar allt önnur ella. Hún er ekkert annað en markviss svik við launafólk.
Fólk á vinnumarkaði á almennt að njóta samningsbundinna réttinda og kjara. Einstaklingur sem er ráðinn sem verktaki á vinnustað nýtur ekki slíkra réttinda eða kjara. Upphæðin sem verktaki fær fyrir vinnu sína kann að líta vel út á blaði. En þegar dæmið er reiknað til enda koma verktakagreiðslur sjaldan vel út, það hallar yfirleitt á starfsmanninn. Öfugt við launafólk þurfa verktakar nefnilega að standa skil á alls konar gjöldum, eins og tryggingargjaldi og öðrum launatengdum gjöldum og samningsbundnum gjöldum eins og lífeyrisgreiðslum. Þar á ofan er verktaki hlunnfarinn ýmsum réttindum tengdum orlofi, vinnutíma, frídögum og veikindum. Sá sem ræður meginhluta af sínu starfsfólki sem verktaka fer því yfirleitt hlæjandi í bankann. Starfsfólkið tapar. Vinnuveitandi græðir.
Skerum upp herör
Í tilefni kjarasamninga er afskaplega mikilvægt að hamra á því, að fólk þekki réttindi sín og skyldur. Það að ráða fólk — sem á að vera launafólk — til verktöku er aðferð sem óprúttnir aðilar nota til þess að reyna að nýta sér neyð fólks og bága stöðu. Fyrirtæki eiga ekki að komast hjá því að greiða launafólki þau laun og réttindi sem kjarasamningar kveða á um. Það er lykilatriði málsins. Við hljótum öll að geta sammælst um það á þessum tímamótum að við þurfum að skera upp herör gegn gerviverktöku og þeirri ömurlegu meinsemd allri. Tryggjum örugg störf, með fullum réttindum launafólks.
Höfundur er formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.