Gleðibankamenn sungu frumraun okkar Íslendinga í Júróvisjón árið 1986. Það ár var ekki bara merkilegilegt fyrir okkur Íslendinga með góðu júróvisónlagi heldur fyrir heimsbyggðina alla. Það ár var leiðtogafundur haldinn í Höfða milli Ronald Reagan, forseta Bandaríkjanna og Mikhaíl Gorbatsjev, leiðtoga Sovétríkjanna. Slíkur viðburður var sögulegur enda höfðu þessi ríki þá átt í áralöngum átökum kennda við kalda stríðið. Hér til landsins komu um eitt þúsund fréttamenn hvaðan af úr heiminum. Þeir töluðu og skrifuðu fréttir af þessum merkilega fundi um gjörvallann heiminn. Á nær óteljandi stjórnvarpstöðvum og á fjölmörgum tungumálum fluttu fréttamenn stórmerkilegar fréttir frá Íslandi.
Ímyndum okkur heim þar sem við fengum engar fréttir af Júróvison. Ekkert væri fjallað um önnur lög, fyrir hvað þau standa eða listamennina sem flytja þau. Í slíkum fréttalausum heimi hefði fólk aldrei fengið að upplifa vonarglætuna sem samræður og samtal leiðtoganna í Höfða sköpuðu og lögðu síðar grunn að endalokum kalda stríðsins. Fréttir og fréttamennska eru hornsteinn heilbrigðar lýðræðisþróunar. Menning okkar, listir og sköpun þarfnast einnig umfjöllunar og sýnileika. Hver veit af list nema hann heyri og sjái listsköpun?
Oft er talað um fjölmiðla sem fjórða valdið. Slíka nálgun má réttlæta, vegna þess að öll þekking er byggð á upplýsingum. Með örri tækniþróun og tilkomu veraldavefsins verður hins vegar vandamál að ekki eru allar upplýsingar byggðar á þekkingu. Þó tilkoma falsfrétta sé í eðli sínu ekki ný af nálinni og svokallaðar gróusögur hafi lengi fylgt mannlegu samfélagi, þá hefur magnið margfaldast af röngum upplýsingum sem haldið er að almenningi. Slík aukning er nú víða um hinn vestræna heim að grafa undan lýðræðislegri grundvallarvirkni sem eftir upplýsingaöldina hefur byggst á sannreynanlegri þekkingu. Nú sem aldrei fyrr er starf fréttamanna – vítt og breytt um samfélagið og landið allt – okkur nauðsynlegt svo við getum tekið málefnalega afstöðu í þeim fjölmörgu málum sem snerta samfélagið.
Eins og stjórnmálamenn kenna sig við hægri eða vinstri, þá þarf almenningur að fá tækifæri til að sannreyna hvort þeir eða tillögur þeirra séu skynsamlegar. Aðrar norrænar þjóðir hafa fyrir löngu síðan áttað sig á mikilvægi þess að styrkja sjálfstæða og vandaða fréttumfjöllun. Nú loksins árið 2019 er ríkisstjórn sem hræðist ekki sjálfstæða og vandaða fréttamennsku, heldur styður í orðum og gjörðum þennan mikilvæga grundvöll vestrænnar siðmenningar. Hagrænn stuðningur við fjölda fréttamanna, frekar en fjölda frétta er líkleg til að auka fjölmiðlalæsi, styðja við þekkingarauka samfélagsins og tryggja lýðræðisvitund og virkni á 21. öldinni.
Höfundur er varaþingmaður og formaður SIGRÚNAR – félags ungra Framsóknarmanna í Reykjavík.