Það er göfugt markmið lífeyrissjóða að vinna að því að hámarka lífeyrisgreiðslur fólks við starfslok. En sé ævin skoðuð sem heild þá eru þessi „efri ár“ aðeins 30% af fullorðinsárunum en hin 70% eru það tímabil þar sem við erum almennir neytendur, í fullu fjöri og greiðum háar upphæðir inn í kerfið, á sama tíma og við erum flest að greiða af húsnæði og reka heimili.
Athafnir lífeyrissjóða geta haft veruleg áhrif á efnahagsstöðu launafólks, eins og á lánskjör (vexti), verðtryggingu, kaupmátt, gengissveiflur og verð hlutabréfa í kauphöll. Lífeyrissjóðir þurfa að fara gætilega með þau áhrif sem þeir hafa og gæta þess að ýta ekki óþarfa byrðum á vinnandi fólk, í von um aukna ávöxtun sjóða, til þess eins að hámarka lífeyri eftir starfslok. Þetta er nefnilega sama fólkið, þeir sem bera ýmsar fjárhagslegar byrðar yfir starfsævina og þeir sem þiggja lífeyri eftir starfslok. Góður lífeyrir er gott hlutskipti en það er varhugavert að ná því fram með óhóflegum álögum á árunum fyrir starfslok. Við verðum að finna rétta jafnvægið í þessum efnum því ef ekki er hugsað um efnahag launafólks yfir ævina í heild er hætta á að lífeyrissjóðir leggi óþarfa álögur á vinnandi fólk til að geta rétt þeim ábata síðar meir.
Í stað þess að einblína á árin eftir starfslok þá væri snjallara að hugsa þetta sem eitt samhangandi tímabil, starfsævina og lífeyrisárin sem einn, samhangandi tímaás. Út frá hvaða stefnu ættu lífeyrissjóðir að hámarka velmegun fólks á báðum tímabilum? Markmiðið ætti að vera að gæta þess bæði að lífeyri sé viðunandi á efri árum, en einnig að íhuga í ríkara mæli að takmarka byrðar eins og hægt er, á launafólk.
Það er, sem dæmi, álitamál hversu mikilvægt það er að hækka iðgjöld í lífeyrissjóði því þar er um að ræða álögur, bæði gagnvart launafólki og launagreiðendum. Hægt er að færa einhver rök fyrir hækkunum iðgjalda, sem raungerðust 1. júlí 2018, en einnig er auðvellt að færa rök fyrir að lífeyrissjóðirnir séu nú þegar offjármagnaðir og að hægstæðara sé að efla sparnað launafólks með öðrum hætti en sameignargreiðslum. Þetta er því eitt álitamál sem snertir vinnandi almenning.
Annað mál eru vextir húsnæðislána sem lífeyrissjóðir hafa nær aldrei haft jafnmikil áhrif á en nú í seinni tíð. Á að keppa að því að hafa vexti mun hærri en tíðkast í nágrannalöndum eða á að skoða ávinning í því að bjóða eigendum lífeyrissjóða – sjálfum almenningi – að taka út ábata frá lífeyriskerfinu fyrir starfslok, með lágum vöxtum á húsnæðislánum. Margir myndu kjósa léttari álögur á meðan allir eru í fullu fjöri, þegar fjárþörf heimila er sem mest, um og fyrir miðjan starfsaldurinn, þegar barnauppeldi og húsnæðiskaup taka alla orku magra heimila.
Þriðji þátturinn er sjálf verðtryggingin en lífeyrissjóðir hafa verið tryggir talsmenn hennar um áratugaskeið. Það kann að vera hagstætt fyrir lífeyrissjóði ef eina markmið þeirra er að hámarka lífeyri eftir starfslok. Er það endilega það sem almenningur vill? Er það örugglega hagstæðasta hlutskipti almennings að greiða fjórfalda vexti á við nágrannalönd í 30-40 ár með von um eilítið hærri lífeyri hin síðustu ár? Hvernig er hægt að komast að slíkri niðurstöðu? Hún er sannarlega ekki augljós. Hugsanlega er hægt að stilla upp Excel-líkani sem kallar þetta fram, en jafnauðvelt væri að setja saman líkan sem sýnir andhverfa niðurstöðu.
Hér væri hægt að segja að ríkisstjórn og Seðlabanki taki ákvarðanir um vexti og verðtryggingu. En þær ákvarðanir byggja á hagsmunum lánveitenda og þar spila lífeyrissjóðir stórt hlutverk. Lífeyrissjóðir geta því haft mjög mikil áhrif í þessa veru og ættu að íhuga hvort það sé ekki eðlilegri stefna, að hámarka efnahagslega stöðu almennings yfir bæði æviskeiðin, launþegatímabilið og lífeyrisþegatímabilið.
Fleiri atriði þyrftu að koma inn í þessa mikilvægu stefnumótun: Spyrja má: Er rétt að setja lífeyrisþega framtíðar í afkomuáhættu með því að láta þá greiða íslenskar krónur inn í kerfið en umbreyta þeim fjármunum í erlendar upphæðir með tilheyrandi gjaldmiðlaáhættu? Lífeyrissjóðir fjárfesta jú erlendis og er sá hluti í starfsemi þeirra vaxandi. Hver verður staða Evru og Bandaríkjadollars eftir 30 ár? Sagan segir að þetta veðmál sé ekki endilega mikið lukkuhjól fyrir íslenska launþega. Lífeyriseign getur breyst með þessari gjaldmiðlaáhættu sem lífeyrissjóðir ákveða að taka, um tugi prósenta og er niðurstaðan ekkert endilega launafólki í vil.
Einnig má setja spurningu við það að geyma fjármuni sjóða í hlutabréfum á hinum örsmáa hlutabréfamarkaði hér á landi því þar eru stórar sveiflur ekki síst þekktar. Á alla þessa þætti þetta geta lífeyrissjóðir haft áhrif og þessi áhrif verður að meta, eins og nú er gert, út frá framtíðarhag sjóðsfélaga, en einnig í meira mæli út frá því hvaða áhrif lífeyrissjóðir eigi að hafa á efnahagslega þætti almennings í landinu, fólksins sjálfs sem heldur kerfinu uppi með greiðslum inn í það. Fölsk eða grunn verðmyndun á hlutabréfamarkaði er áhættuspil sem eykur líkur á efnahagslegum niðursveiflum og má færa rök fyrir því að almenningur sé kominn með nóg af slíku.
Áhrif lífeyrissjóða þarf því að hugsa út frá efnahagslegri stöðu beggja hópa: Vinnandi fólki og lífeyrisþegum, því efnahagsleg áhrif þurrkast ekki út þegar fólk hættir að vinna. Það verður ekki til neinn núllpunktur. Lágt eignahlutfall í eigin húsnæði hverfur ekki við starfslok heldur er staða sem þarf að vinna úr. Það verður ekki eitt tekið af öðrum og sett til hins því þetta er sami hópurinn. Það getur varla komið vel út að láta sömu manneskjuna hlaupa í þungum skóm ef markmiðið er að hún komist að lokum á vel skóuð, á þægilegan stað hinu megin við marklínuna.
Einnig þarf að huga að siðferðisstefnu, sem taka myndi á því hvar lífeyrissjóðir ætla að draga mörkin með þátttöku sinni í fjárfestingum sem eru e.t.v. stundum ekki í takt við langtímasjónarmið almennings, eru stundum of áhættusamar og e.t.v. stundum á skjön við grunngildi sjóðsfélaga í umhverfis- og orkumálum. Allt þetta mun leiða til betra lífeyriskerfis, ánægðari lífeyrisgreiðenda, bættrar ímyndar lífeyrissjóða, bætts gagnsæis og nútímalegrar fjárfestingastefnu, sem skila mun auknu trausti í garð íslenska lífeyriskerfisins.
Þess vegna þarf lífeyriskerfið nýja tveggja hópa stefnumótun, með sameiginlega hagsmuni launafólks og lífeyrisþega að leiðarljósi. Ef lífeyriskerfið heldur áfram að horfa aðeins á stöðuna á „efri árum“ er hætta á að niðurstaðan verði of miklar álögur á vinnandi fólk og jafnvel of mikil sjóðssöfnun, sem ekki er endilega hin rétta leið. Því með óbreyttu kerfi erum við að láta lífeyrisgreiðendur taka þátt í nokkurskonar lífeyrishappadrætti, þar sem sumir verða ánægðir og aðrir óánægðir og að slíkt sé látið gerast út frá þáttum sem fólk hefur lítið val um. Í flestum bókum kallast það skortur á heildarsýn.