Núverandi ríkisstjórn hefur á stefnuskrá sinni að stofna Þjóðarsjóð (sovereign wealth fund). Fjármála- og efnahagsráðuneytið setti á netið minnisblað um málið í ágúst sl. m.a. til kynningar og umsagnar. Í Þjóðarsjóð á m.a. að renna arður frá Landsvirkjun, og hugsanlega fleiri orkufyrirtækjum. Í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar segir:
Þjóðarsjóður verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum. Afmarkaður hluti ráðstöfunarfjár sjóðsins verður notaður til að efla nýsköpun og styðja við vöxt og þroska sprotafyrirtækja. Með því verður fræjum sáð til eflingar nýrra vel launaðra starfa í framtíðinni. Einnig verður hluti nýttur til átaks í uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir elstu kynslóðina.
Stefnt er að því að greiðslur í sjóðinn gætu numið allt 15 milljörðum króna á ári og sjóðurinn gæti numið um 250 – 300 miljjörðum króna eftir 15 – 20 ár. Sjóðinn skal alfarið ávaxta erlendis.
Fjárhagsleg áföll í þessu samhengi eru ekki skilgreind nánar í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Óvenjulegt er að þjóðarsjóðir séu myndaðir í þessu óljósa tilgangi. Flest iðnríki hafa sjóði sem myndaðir hafa verið til þess að mæta áföllum á sviði efnahagsmála, auk þess sem hin almennu stjórntæki efnahagsmála, vextir og jöfnuður ríkisfjármála, eru ávallt til taks.
Þannig er gjaldeyrisforða ríkja ætlað að mæta sveiflum í utanríkisviðskiptum, svo sem falli í útflutningstekjum og greiðsluhalla við útlönd vegna efnahagsamdráttar. Gjaldeyrisforði Seðlabanka er nú um 700 milljarðar króna eða um fjórðungur af landsframleiðslu. Hér á landi hefur verið komið á fót sérstökum tryggingasjóði til þess að mæta kostnaði vegna náttúruhamfara, Náttúruhamfaratryggingum Íslands.
Lögð eru iðgjöld á fasteignir til að mæta áætluðum kostnaði vegna náttúruhamfara. Þá er tryggingasjóði innstæðueigenda ætlað að draga úr skaða innstæðueigenda við þrot innlánsstofnana. Stærð hans er milli 30 og 40 milljarðar króna og er hann fjármagnaður með iðgjöldum á innlánsstofnanir. Nýrri tegund sjóða sem ætlað er að greiða fyrir skilameðferð fallandi fjármálafyrirtækja er verið að koma í fót í Evrópusambandinu, svokölluðum skilasjóðum. Þegar sú löggjöf verður innleidd hér á landi mun sama kvöð verða lögð á hér á landi. Sá sjóður, skilasjóður, verður fjármagnaður með gjöldum sem lögð verða á fjármálafyrirtæki.
Með þessum viðbúnaði er gengið jafnlangt eða lengra en flestar þjóðir sem við berum okkur saman við. Margar þjóðir eru ekki með hamfaratryggingar og gjaldeyrisforðinn hér er nú stærri hlutfallslega en margra annarra iðnríkja.
Þjóðarsjóðir í merkingunni „sovereign wealth funds“ hafa einkum verið stofnaðir af ríkjum sem njóta góðs í efnahagsmálum af auðlindum sem ekki eru endurnýjanlegar. Dæmi um þetta eru olíulindir eða námur og hafa t.d. Norðmenn og fleiri olíuríki stofnað slíka sjóði. Hugmyndin hér á bak við er einföld, að draga úr áhrifum nýtingar auðlindarinnar meðan hennar nýtur við og framlengja áhrifin fram í tímann. Í raun er verið að treina efnahagsáhrif óendurnýjanlegrar auðlindar. Forða ofrisi hagkerfisins meðan auðlindarinnar nýtur og skell þegar hún klárast.
Orkuauðlindir íslendinga eru að stærstu hluta endurnýjanlegar séu þær nýttar að skynsemi. Til mjög langs tíma kólnar jarðarkringlan og jarðhiti minnkar. Þá kunna sveiflur í veðurfari að minnka vatnsforðabúr jöklanna. Hvorugt stafar af nýtingu auðlindanna. Sama gildir einnig um auðlindir sjávarins, varfærinn og skynsamleg nýting mun ein og sér ekki ganga á auðlindina. Núverandi fiskveiðistefna hefur þetta að markmiði. Af þessu ástæðum búum við dag hér á landi ekki við neinar sérstakar aðstæður sem markast af að við séu nýta auðlindir sem munu ganga til þurrðar og því ekki ástæða til þess að binda arð af þessum auðlindum í sjóð.
Önnur ástæða þjóðarsjóða er að auka stöðugleika í efnahagslífi ríkja sem búa við einhæfan og sveiflukenndan útflutning. Sveiflur geta verið bæði verðsveiflur eða sveiflur í framleiðslu. Á sjöunda áratug síðustu aldar var settur á laggir hér á landi „Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins“ og átti hlutverk hans að vera að draga úr áhrifum verðsveiflna á þjóðarbúskapinn. Á þeim tíma var útflutningur frá landinu mun einhæfari en seinna varð. Erfiðlega gekk að ná sátt við atvinnugreinina um greiðslur inn í sjóðinn þegar vel áraði, og mikill þrýstingur var á útgreiðslur úr sjóðnum þegar sló í bakseglin í fiskvinnslunni. Áform um stýringu greinarinnar gengu því ekki eftir og sjóðurinn tæmdist fljótt. Verðjöfnunarsjóður var lagður niður á tíunda áratug síðustu aldar. Þjóðarsjóð virðist ekki ætlað gegna þessu hlutverki, þ.e. sveiflujöfnun vegna útflutnings sjávarafurða eða annarra vöruflokka. Aðstæður hér á landi eru enda mjög breyttar atvinnulíf og útflutningur standa fleiri fótum en á sjöunda áratugnum.
Á seinni árum, eftir því sem lýðfræðileg þróun í iðnríkjum á Vesturlöndum hefur orðið skýrari, hefur skapast umræða um að nauðsynlegt sé að safna sjóði til mæta lífeyrisbyrði aldraðra sem fer hlutfallslega fjölgandi á næstu árum og áratugum. Fáar eða engar þjóðir hafa brugðist við þessu vanda, að öðru leyti því að Norðmenn hafa endurskilgreint sinn olíusjóð sem nokkurskonar lífeyrissjóð til þess að mæta þessum vanda. Hér á landi hagar þannig til, eins og kunnugt er, að lífeyriskerfi Íslendinga byggir fyrst og fremst á sjóðssöfnun. Þannig hefur verið séð fyrir þeim vanda sem kann að myndast vegna vaxandi lífeyrisbyrði eftir sem þjóðin verður hlutfallslega eldri. Eini bresturinn í því kerfi er að ríkið sem vinnuveitandi hefur ekki greitt nægjanlega mikið í lífeyrissjóði opinberra starfsmanna til þess að mæta áföllnum skuldbindingum. Talið er að skuld ríkissjóðs við sjóði opinberra starfsmanna nemi um rúmum 600 milljörðum króna.
Ljóst er að margvíslega fjárfestingarverkefni standa fyrir dyrum hér á landi á næstu árum og áratugum.
- Í vegamálum er talið að fjárfesta þurfi fyrir 300 – 400 milljarða króna til útrýma einbreiðum brúum og ljúka gerð slitlags á hringveg. Þá virðist nauðsynlega að breikka vegi og tvöfalda kringum helstu þéttbýliskjarna á landinu. Á höfuðborgarsvæðinu kann að vera þörf verulegra fjármuna við endurbætur á þjóðvegahluta vegakerfisins á svæðinu mislæg gatnamót, tvöföldun, vegstokkar, brýr og borgarlína).
- Vegna aukinnar ferðaþjónustu þarf að huga að uppbyggingu innviða til að mæta fjölgun ferðamanna. Um er að ræða uppbyggingu flugvalla, vega, göngustíga, hestaleiða, aðstöðu vegna þjónustukjara og salerna ferðamannastöðum og -leiðum. Uppbygging á þjónustu í þjóðgörðum m.a. Vatnajökulsþjóðgarði og áformuðum nýjum þjóðgarði á miðhálendi Íslands.Þörf er á verulegu fjármagni til þess að endurbæta dreifikerfi raforku landinu til að tryggja betri orkunna og öryggi notenda.
- Uppbygging í heilbrigðiskerfi, nýtt LSH sjúkrahús, fjölgun hjúkrunarheimila og heilsugæslustöðva.
- Uppbygging í menntamálum, ekki síst háskólastiginu.
Mótsagnakennt virðist að ætla ráðstafa um tæpum 15 -20 milljörðum á ári í Þjóðarsjóð sem fjárfestur yrði alfarið í erlendum verðbréfum (stefnt er að því að Þjóðarsjóður nái 250 – 300 milljarða króna stærð á 15 – 20 árum skv. minnisblaði Fjármála- og efnahagsráðuneytis) á meðan ekki er til fé í ríkissjóði til þess að standa undir þeim útgjöldum sem nefnd hafa verið að ofan. Spurning hver er tilgangur þess að safna sjóðum erlendis vegna óskilgreindrar þarfar (fjárhagsleg áföll) á meðan ofangreind sem öll eru til þess fallin að auka hagsæld og velferð þarf að fjármagna með sköttum gjöldum eða lántökum.
Þá virðist einnig skynsamlegt að ríkissjóður greiði upp skuld sína við lífeyrissjóði opinberra starfsmanna áður en uppbygging væri hafin á Þjóðarsjóð.
Höfundur er hagfræðingur og starfar hjá Samtökum fjármálafyrirtækja. Skoðanir hans endurspegla ekki endilega afstöðu Samtaka fjármálafyrirtækja.