Rafbílavæðing á Íslandi er mjög mikilvægur liður í því að minnka áhrif Íslendinga á hlýnun jarðar. Orkuskipti í samgöngum mynda enda aðra meginstoð aðgerðaáætlunar íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Til viðbótar við mikinn ávinning í loftslagsmálum er rafvæðing bílaflotans þjóðhagslega hagkvæm aðgerð, líkt og kemur fram í greiningu HÍ og HR um þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar á Íslandi sem kynnt var síðastliðið haust.
Rafbílavæðing getur orðið enn hagkvæmari þjóðhagslega ef lögð verður áhersla á að eigendur rafbíla nýti innviði raforkukerfisins eins vel og kostur er. Orkuskipti í samgöngum munu auka innlenda raforkuþörf, á meðan þörf fyrir innflutt jarðefnaeldsneyti mun minnka. Árið 2030 er fyrirséð að rafbílaflotinn muni þarfnast raforku sem samsvarar um þriðjungi af núverandi raforkunotkun heimilanna. Þetta mun kalla á aukna fjárfestingu í raforkuinnviðum, svo sem í virkjunum og dreifikerfum. Umfang þessarar fjárfestingar getur þó ráðist af hleðsluvenjum rafbílaeigenda.
Raforkuþörf meðalheimilis er um 4000 kWh á ári. Aflþörf heimila (þ.e. hversu hratt raforkan rennur inn í húsið, mælt í kW) er hins vegar breytileg og háð því hvaða tæki eru í notkun, þar með talin hleðslustöð rafbíls ef heimilið er búið slíkri. Hliðstætt þessu notar meðalheimili um 400 m3 af heitu vatni á hverju ári. Notkunin er ekki jöfn, því rennslið (stundum mælt í lítrum á mínútu) er háð útihitastigi og t.d. því hvort skrúfað sé frá krana.
Kostnaður raforkuvinnslu sá sami að nóttu og degi
Í íslenska raforkukerfinu er raforka geymd í formi vatns í lónum vatnsaflsvirkjana og í háhitakerfum undir jarðvarmavirkjunum. Orkuna má geyma á því formi þar til þörf er á að vinna úr henni raforku. Vegna möguleikans á að geyma orkuna er kostnaður raforkuvinnslu úr vatnsafli eða jarðvarma nokkurn veginn sá sami allan ársins hring, að nóttu sem degi. Það er ekki rétt, sem stundum er gefið til kynna í umræðu á Íslandi, að kostnaður raforkuvinnslu hérlendis sé breytilegur milli dags og nætur.
Erlendis er þessu víða öðruvísi farið. Þar er kostnaður við raforkuvinnslu yfirleitt hærri að degi en nóttu þar sem að nóttu til nægir að vinna rafmagn með hagstæðustu orkuverunum. Að degi til þarf að bæta við vinnslu frá óhagstæðari orkuverum (oft kolaorkuverum) til að svara eftirspurn eftir raforku. Þetta þýðir að erlendis má bjóða rafbílaeigendum (og öðrum) ódýrari raforku að nóttu en degi.
Tækifæri til þess að nýta innviði betur
Þótt kostnaður raforkuvinnslu á Íslandi sé ekki breytilegur þarf að vera til staðar nægilegt afl í virkjunum og flutningsgeta í flutnings- og dreifikerfi raforku til að hægt sé að framleiða og flytja nógu mikið rafmagn til að mæta eftirspurn á hverri stundu. Líkt og orkuskipti í samgöngum munu kalla á aukna orkuþörf munu þau einnig kalla á aukna aflþörf. Hversu mikil aukningin verður er mjög háð því hversu stór hluti rafbílaeigenda hleður bíla sína samtímis, og hversu mikið af þeirri aflaukningu leggst ofan á þá tíma dags þegar álagið er mest, svo sem um kvöldmatarleytið. Þetta ræður miklu um það hve umfangsmikla fjárfestingu í raforkuinnviðum orkuskipti í samgöngum munu kalla á.
Landsvirkjun vinnur raforku í virkjunum sínum sem seld er meðal annars til smásöluaðila sem sjá um raforkusölu til heimila og fyrirtækja í landinu. Raforkan er flutt um flutningskerfi Landsnets og síðan dreift af dreifiveitum til notenda. Engir beinir hvatar eru í dag til staðar fyrir heimili og smærri fyrirtæki til að hlaða rafbíla utan háálagstíma (svo sem að nóttu til), en yrði slíkt raunin væri hægt að lágmarka þá fjármuni sem verja þyrfti til styrkingar innviða. Þar með væri þörf smásala og dreifiveitna fyrir að hækka gjaldskrár sínar einnig lágmörkuð. Þetta væri allra hagur og myndi auka enn þjóðhagslega hagkvæmni þeirrar þjóðþrifaaðgerðar sem orkuskipti í samgöngum eru.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landsvirkjunar.