Haustið 2012 – fyrir tæpum sjö árum – var ég beðinn að flytja framsöguræðu um viðbrögð Evrópusambandsins við fjármálakreppunni. Ég valdi erindinu sama heiti og þessari grein: Hvað gengur að Evrópu: og hvers vegna kippið þið því ekki í liðinn?Niðurstaðan var þá þegar – og er enn – sú sama: Ofvaxið fjármálakerfi í þjónustu hinna ofurríku hefur haldið evrusvæðinu í gíslingu með þeim afleiðingum, að meirihluti þjóða Evrópu hefur mátt þola glataðan áratug, sem einkennist af sívaxandi ójöfnuði, stöðnun, skuldasöfnun og fjöldaatvinnuleysi. Ástandið kallar á róttækar lausnir. Um þetta fjalla ég rækilega í bók minni, Tæpitungulaust, sem er væntanleg á bókamarkaðinn í haust. Eftirfarandi grein, sem byggir á erindi, sem ég flutti á fjölþjóðlegri ráðstefnu um sama efni í Vilníus, er forsmekkur af þeirri umræðu.
Við skulum byrja á því, nú eins og fyrir sjö árum, að fara að dæmi fræðimanna og telja upp lykilhugtök umræðunnar, til að skerpa á hugsuninni. Hér koma þau:
Eitruð lán. Gjaldþrota bankar. Ósjálfbærar skuldir. Bankabjörgun (bail-out). Ruslflokkun. Þjóðargjaldþrot. Samdráttarskeið. Skattaskjól. Markaðsmisnotkun. Innherjaviðskipti. Bókhaldshagræðing (creative accounting). Siðferðileg bjögun. Þjóðfélagssáttmáli. Ójöfnuður. 1% vs 99“. Harmkvælapólitík (austerity). Auðræði gegn lýðræði.
Ekki hljómar það vel, og gleymi ég þó sjálfsagt einhverju. Hvert eitt og einasta þessara orða segir meira en mörg orð um stöðu mála í Evrópu. Hefur þá ekkert breyst frá því að ég setti fram sjúkdómsgreiningu mína á Baltic Assembly fyrir sjö árum? Sitjum við virkilega föst í þessu feni?Standa leiðtogar Evrópu virkilega ráðalausir frammi fyrir vandanum?
1. Meiriháttar mistök
Bókunum á mínu borði um Evru-kreppuna fer stöðugt fjölgandi. Það er eins og ekkert hafi breyst. Og harmkvælapólitíkin – niðurskurður ríkisútgjalda plús vænn skammtur af einkavæðingu – sem átti að laga ástandið, hefur haft þveröfug áhrif. Nýjasta bókin um þetta ófremdarástand heitir: „Evran: hvernig sameiginlegur gjaldmiðill ógnar framtíð Evrópu“. Höfundurinn er nóbelsverðlaunaður hagfræðingur í fremstu röð, Joseph Stiglitz. Heyrum hvað hann hefur að segja:
„Upptaka evrunnar fyrir 17 árum var hugsað sem framfaraskref í samrunaferlinu, áfangi á langri leið til að skapa samkennd með hinum sundurleitu þjóðum Evrópu; til að opna landamæri og rækta samkennd með fyrrum fjendum. Árangurinn er þveröfugur á við það sem lagt var upp með. Evran hefur ýtt undir árekstra, vakið upp gömul umkvörtunarefni og ýtt undir vantraust sem torveldar lausn mála. Evrusamstarfið – The European Monetary Union (EMU) – flokkast undir meiriháttar mistök. Sameiginlegi gjaldmiðillinn hefur ýtt undir vaxandi ójöfnuð og sundrað Evrópu í tvær andstæðar fylkingar – lánadrottna og skuldunauta.“
Niðurstaða Stiglitz er á þessa leið: „Fjármálageirinn hefur rakað til sín gróða sem byggist fyrst og fremst á lánstrausti ríkisstjórna, án þess að láta í té þá þjónustu sem bönkum var upphaflega ætlað að gera. Þetta fjármálakerfi er meginfarvegur og undirrót hraðvaxandi ójafnaðar í Evrópu og í heiminum öllum“ (bls 281).
2. Mislukkað hjónaband
Röksemdarfærslan er á þessa leið. Hagkerfin hafa aðallega þrenns konar tæki til að laga sig að ytri áföllum eða innri ójöfnuði: Vaxtastig (sett af Seðlabanka), gengisskráningu, og aðlögun ríkisfjármála – það þýðir breytingu á skattbyrði eða útgjöldum ríkissins til að örva eða draga úr eftirspurn.Síðasttalda aðferðin er seinvirk en mikilvæg. Evrusvæðið hefur ekkert þessara tækja í lagi.
Það sem verra er: Seðlabanki Evrópu hefur ekki einu sinni vald til þess að vera lánveitandi til þrautavara gagnvart aðildarríkjum. Þetta þýðir að skuldug ríki eru hneppt í efnahagslega spennitreyju, sem heldur þeim innikróuðum í vítahring samdráttar eða efnahagskreppu. Aðildarríkin hafa verið svipt nauðsynlegum tækjum til að framfylgja hagvaxtarstefnu með fulla atvinnu að markmiði. Þetta er óttalega mislukkað hjónaband.
Í stað þess að ráðast að rótum vandans með því að gera nauðsynlegar breytingar á lögum og starfsháttum, hafa leiðtogar Evrópu gert illt verra með því að þröngva harmkvælapólitík – í formi niðurskurðar ríkisútgjalda – upp á hagkerfi sem voru fyrir í lamasessi og á samdráttarskeiði. Allt er þetta gert, segir Sieglietz, í nafni „hagfræðikreddu sem er löngu úrelt og afskrifuð, nefnilega að ef þú einbeitir þér einungis að því að koma í veg fyrir hallarekstur ríkisins og verðbólgu, þá megi treysta mörkuðunum til að tryggja hagvöxt“. Þeir geta það ekki. Það er margsannað mál og hafið yfir allan vafa.
Staðreyndirnar tala sínu máli: áratug eftir að fjármálakreppan skall á er Evrópa enn á samdráttarskeiði. Þetta er að verða glataður áratugur. Staðreyndirnar sýna að þessa úrelta hagfræðikredda gerir illt verra. Þvert á það sem lofað var, þá er hlutfall skulda af þjóðarframleiðslu mun hærra en það var fyrir kreppu. Í sumum tilvikum er skuldabyrðin augljóslega ósjálfbær. Þjóðarframleiðsla landanna sem verst hafa verið leikin hefur enn ekki náð sömu stærðum og fyrir kreppu. Þetta þýðir glatað framleiðsluverðmæti sem mælist í trilljónum evra. Þar með hafa fyrirheit um samsvarandi sköpun nýrra starfa orðið að engu. Tugmilljónir starfa hafa farið forgörðum. Þetta tjón verður seint upp unnið. Atvinnuleysi, sér í lagi atvinnuleysi ungu kynslóðarinnar, er innbyggt í kerfið. Það sjást engin merki um bata. Þetta er forkastanleg sólund á mannauði Evrópu.
Á sama tíma keyrir ójöfnuður ríkra og fátækra úr öllu hófi. Hinir ríku verða stöðugt ríkari, en hin fátæku verða fátækari. Það er þrengt að millistéttinni á báðum endum. Miðjan heldur ekki mikið lengur. Grundvallarreglur hins óskráða þjóðfélagssáttmála lýðræðislegs markaðsþjóðfélags hafa verið brotnar: Hagnaðurinn var einkavæddur en skuldirnar eru þjóðnýttar. Af þessu leiðir að í pólitíkinni eru djúpir undirstraumar vonbrigða og vantrausts á pólitíska forystu, sem virðist getulaus til að fást við félagsleg og efnahagsleg vandamál af þessari stærðargráðu. Brexit er skólabókardæmi um þetta. Ef ekki verða gerðar nauðsynlegar breytingar á fjármálakerfinu, er við því að búast að Brexit geti leitt af sér Exit fyrir fleiri. Framtíð evrusamstarfsins er að öllu óbreyttu mikilli óvissu undirorpin.
3. Sjúkt fjármálakerfi
Ofvöxtur fjármálakerfisins á tímabili nýfrjálshyggjunnar er helsta undirrót ójafnaðarins. Frá árinu 1980 til 2014 hefur fjármálakerfið vaxið sex sinnum hraðar en raunhagkerfið. Ein helsta kenning frjálshyggjunnar er sú að í nafni hagvaxtar verði að virkja forstjóraveldið til þess að hámarka arð hlutafjáreigenda og sanna það ársfjórðungslega á kauphöllinni. Rétta leiðin til þess telst vera sú að hækka laun forstjóranna þrjú til fjögur hundruð sinnum umfram laun starsfmanna, fyrir utan aðra kaupauka og bónusa. Ríkisvaldið á svo að leggja sitt af mörkum með því að snarlækka skatta á fjármagnstekjur. Af þessu leiðir að þetta stjórnlausa fjármálakerfi er orðið að meginfarvegi auðs og tekna frá raunhagkerfinu til forréttindastétta fjármagnseigenda. Frá 99% til 1%. Hlutur launa í þjóðarframleiðslu heimsins hefur fallið sem nemur hundruðum milljarða á ári, en hlutur fjármagnstekna, sem aukaofurgróða 1% - elítunnar, hefur vaxið sem því svarar. Þetta endurspeglar valdatilfærslu frá verkalýðshreyfingu og jafnaðarmannaflokkum til fjármálaelítunnar. Fjármálaelítan hefur víðast hvar sölsað undir sig pólitíska valdið líka.
Þetta fjármálakerfi þjónar ekki lengur hagsmunum samfélagsins hvorki framleiðslufyrirtækja né heimila. Lítil og meðalstór fyrirtæki skapa 67% nýrra starfa að jafnaði í þróuðum þjóðfélögum. Þau fá til sín einungis brotabrot af útlánum fjármálakerfisins. Blind sókn fjármagnseiganda eftir skammtímahagnaði veldur því að bankar beina útlánastarfsemi sinni fyrst og fremst að verðbréfa- og fasteignabraski. Þar með auka þeir nafnvirði „eigna“ sem fyrir eru – og auðga hina ríku – en þetta bitnar á öllum almenningi með aukinni tíðni á fasteignabólum og fjármálakreppum.
Þetta er ástæðan fyrir því að vaxandi ójöfnuði halda engin bönd lengur. Hinir ríku verða ríkari, hinir fátæku fátækari.
Það er vegna þessa sem að atvinnuleysið er orðið innbyggt í kerfið.
Það er vegna þessa sem fátækt fer vaxandi mitt í velmeguninni.
Það er vegna þessa sem samheldni fer þverrandi og politísk átök harðnandi.
Þar sem leiðtogarnir virðast ekki kunna nein sannfærandi ráð né lausnir, endurspeglar þjóðfélagsumræðan í sívaxandi mæli vonbrigði, vonleysi, reiði og vantraust. Lýðræðið á í vök að verjast fyrir auðræðinu.
Þetta fjármálakerfi er gersamlega ósjálfbært. Það lítur ekki lengur lýðræðislegri stjórn. Þetta er hvikult og fótfrátt fjármagn sem fer á taugum við fyrstu merki um vandræði og skilur eftir sig sviðna jörð: Hrunda gjaldmiðla, fallna banka og þjóðargjaldþrot; og skuldafjöll með kröfu um að almenningur borgi. Niðurstaðan er frelsi hinna fáu með forréttindum, án nokkurrar samfélagslegrar ábyrgðar.
Eftir hrunið árið 2008 hefur kerfið verið endurreist að mestu eftir óbreyttri forskrift. Undirliggjandi vandamál eru óleyst. Þess vegna eru margar þjóðir enn á samdráttarskeiði og geta átt von á nýju áfalli fyrirvaralítið. Allur almenningur, sem verður að taka afleiðingunum þegar illa fer, er við það að glata trú á stjórnmálaforystuna og bíður eftir róttækum lausnum.
Ef þið kunnið að halda að þessi greining endurspegli róttækar hugmyndir eða óraunhæfa draumóra, væri ráð að hlusta á það sem Mervyn King, fyrrverandi aðalbankastjóri Englandsbanka, segir um þetta efni að fenginni langri reynslu. Við yfirheyrslu þingnefndar neðri deildar Breska þingsins sagði hann eftirfarandi:
„Af öllum þeim hugsanlegu leiðum sem við getum farið til að skipuleggja fjármálakerfi í þjónustu samfélagsins, er sú sem við höfum valið the worst imaginable – sú versta hugsanlega“.
Hann ætti að vita það.
4. Róttækar lausnir
Ég vona að ég hafi sagt nóg til að sannfæra ykkur um að ástandið kallar á róttækar lausnir. Málamiðlanir – of lítið of seint – duga ekki lengur. Sem betur fer getum við vísað á hverja rannsóknina annarri betri með raunsærri greiningu og yfirveguðum tillögum um lausnir. Allt er það upp á kant við markaðstrúboð nýfrjálshyggjunnar. Ég læt fylgja hér með fylgisskjal með 15 tillögum um lausnir. Án róttækra umbóta af þessu tagi mun Evrópa reynast ófær um að gegna jákvæðu hlutverki í alþjóðakerfinu á komandi árum.
Það sem einkennir þetta tímabil er ris Kína, hnignun Bandaríkjanna, hefndarpólitík Rússa, mannskætt stjórnleysi í Miðausturlöndum og pólitísk stöðnun og glæfraleg spilling Arabaheimsins. Til viðbótar er síðan hryðjuverkaógnin og krafan um mannúðlegar lausnir á flóttamannavanda heimsins.
Að lokum minni ég ykkur á vísdómsorð Francis páfa sem endurspegla reynslu hans við að þjóna fátæku fólki í fátækrahverfum Buenos Aires: „Skurðgoðadýrkun gullkálfsins forðum daga á sér hliðstæðu á okkar dögum í gróðadýrkun kauphallanna og alræði fjármálamarkaða, sem hirða ekkert um mannlegar þarfir. Munum, að peningar eiga að þjóna – ekki ráða“.
Fylgiskjal:
Tillögur um uppstokkun á fjármálakerfinu:
- Eldvarnarveggurinn milli venjulegra viðskiptabanka, sem þjóna samfélagi og atvinnulífi annars vegar, og hins vegar „skuggabankakerfisins“ (fjárfestinga- og áhættusjóðir) verði endurreistur.
- Lágmarksinnistæðutryggingar sparifjáreigenda nái bara til viðskiptabanka. Áhættufíklar taki sjálfir afleiðingum gerða sinna.
- Risabankar verði leystir upp skv. lögum gegn einokun.
- Þak á ofurlaun og kaupaukafríðindi fjármálafursta. Skattleggjum fríðindin, ef þeir þráast við.
- Afnemum innbyggðan hagsmunaárekstur, sem í því felst, að fjármálastofnanir greiða sjálfar matsstofnunum (rating agencies) fyrir vottunina. Fjárfestar greiði sjálfir fyrir þessa þjónustu.
- Fjárfestingarbanki að meirihluta í eigu ríkisins verði stofnaður til að fjármagna vanræktar langtímafjárfestingar í innviðum (svo sem varðandi hreina og endurnýjanlega orku, samgöngur o.fl.).
- Tökum upp Tobin-skattinn (skatt á fjármagnstilfærslur yfir landamæri), bæði til tekjuöflunar og sem stjórntæki.
- Stöðvum skattasamkeppni niður á við milli þjóðríkja innan EES með samræmingu á skattlagningu fyrirtækja og fjármagnstekna.
- Tryggjum, að fjölþjóðafyrirtæki greiði skatta, þar sem tekna er aflað. Náist það ekki fram í fjölþjóðasamstarfi – leggjum þá „lágmarksskatt“ á fjölþjóðafyrirtæki.
- Lokum skattaskjólunum – punktur og basta.
- Seðlabanki Evrópu fái óskorað umboð til að vera lánveitandi aðildarríkja til þrautavara. Umboð hans nái einnig til fullrar atvinnu og hagvaxtar – ekki bara verðbólgu – eins og hjá Seðlabanka Bandaríkjanna.
- Bankasamband“ (banking union) nái til allra aðilarríkja ESB, þ.m.t. sameiginlegar innistæðutryggingar til að koma í veg fyrir fjármagnsflótta í kreppum.
- Gerðar verði ráðstafanir til að samræma stefnu í peningamálum og ríkisfjármálum innan ESB.
- Styrkjum ríkisfjármálaarm ESB með því að stofna sameiginlegan auðlegðar- og fjárfestingasjóð fyrir bandalagið í heild.
- Varðandi Ísland: Ríkið reki „samfélagsbanka“. Sparisjóðir verði endurreistir.
- Ríkið viðhaldi þeim höftum sem þarf til að hafa stjórn á gengisskráningu; og koma í veg fyrir vaxta- og gegnismunarbrask.