Heilbrigðisstefna fyrir alla?

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, skrifar um heilbrigðisstefnu stjórnvalda.

Auglýsing

Ný heilbrigðisstefna ríkisstjórnar VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar var samþykkt á Alþingi á dögunum. Það má vissulega taka undir ýmislegt sem kemur fram í stefnunni, en þó er brýn ástæða til að gagnrýna þá aðferðafræði sem liggur þar til grundvallar.  Þess vegna ákvað þingflokkur Viðreisnar að sitja hjá þegar málið var afgreitt frá Alþingi.

Heilbrigðisstefna ríkisstjórnarinnar til ársins 2030 er ekki mjög bitastæð. Í haust leggur ráðherra fram heilbrigðisáætlun sína, í samræmi við þessa óskýru stefnu og sú áætlun til fimm ára hlýtur að verða plaggið sem byggjandi er á. Þar má vænta pólitískra fyrirætlana ráðherra í einstaka málaflokkum ásamt yfirlýstum markmiðum, aðgerðabindingum og þess háttar, nokkuð sem hressilega er skautað yfir í heilbrigðisstefnunni.

Auglýsing
Það má spyrja hvort nokkur ástæða sé til að hafa áhyggjur af því að sitthvað vanti í þessa stefnu fyrst áætlun til fimm ára kemur í haust. En við þinglega meðferð heilbrigðisstefnunnar kviknuðu ýmis viðvörunarljós, sem lofa ekki góðu um framhaldið. Heilbrigðisráðherra hefur talið þessari stefnu helst til tekna hve mikið og gott samráð hafi verið haft við alla þá sem máli skipta. Um leið staðfestir ráðherra að engin ástæða var talin til samráðs við ýmsa hagsmunaaðila aðra innan heilbrigðiskerfisins, sem ekki hlutu náð fyrir pólitískum augum ráðherra.

Sérvalið samráð

Þær tæplega 40 umsagnir sem bárust velferðarnefnd Alþingis um málið áttu það flestar sammerkt að því var fagnað að verið væri að vinna heildstæða stefnu, enda öllum ljóst hve mikilvægt er að skýra framtíðarsýnina í þessum risastóra og mikilvæga málaflokki.  En það var annar og mun skýrari samhljómur þar sem vel flestir söknuðu ítarlegri umfjöllunar – eða bara umfjöllunar yfirhöfuð - um tiltekin atriði og málaflokka. Þessari gagnrýni var svarað af hálfu heilbrigðisráðherra á fundum nefndarinnar á þann hátt að með þessari stefnu væri ætlunin að leggja stóru línurnar. Það kæmi að einstökum málaflokkum síðar. Og það er rétt að halda því til haga að sú vinna er hafin í mörgum málaflokkanna. En það breytir ekki þeirri staðreynd að þetta plagg – sem ber heitið Heilbrigðisstefna til ársins 2030, nefnir varla til sögunnar þætti sem allir sjá að hljóta að skipta sköpum í stefnumótun. Hér má t.d. nefna geðheilbrigðismál, öldrunarþjónustu, meðferð við fíknisjúkdómum, endurhæfingu almennt og rekstur hjúkrunarheimila.

Úti í kuldanum

Yfirlýst markmið með mótun heilbrigðisstefnu er að leggja línur sem þola tímans tönn. Innan þess ramma sem stefnan býr til á ráðherra að geta komið sinni pólitísku sýn á framfæri.  Þetta hljómar ekki illa, en frumskilyrði til sátta um stefnuna hlýtur að vera víðtækt samráð. Þar fengu margir áheyrn, en öðrum var haldið úti í kuldanum.

Einn hagsmunaaðilinn sem var hunsaður í þessu ferli, eru Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV). Það eru hagsmunasamtök fyrirtækja sem eru ekki ríkisfyrirtæki en starfa á heilbrigðissviði skv. þjónustusamningi eða öðrum tengdum greiðslum frá ríkinu, t.d. daggreiðslum. Innan samtakanna eru tæplega 50 fyrirtæki, félagasamtök og sjálfseignarstofnanir, þ.m.t. flest hjúkrunarheimili landsins. Greiðslur ríkisins til aðila innan SFV nema um 15% af heildarútgjöldum ríkisins til heilbrigðismála á ári, upphæðin er um 30 milljarðar kr.

Í umsögn sinni lýsa Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu því samráðsleysi sem réði ríkjum við vinnslu stefnunnar. Stefnan öll og umræður um hana hafi miðast við þær stofnanir og þá hluta heilbrigðiskerfisins sem komu að gerð hennar á upphafsstigum. Og þar var dregin skýr lína. Skortur á umræðu um tiltekna efnisflokka og önnur atriði, t.d. rekstrarform, er bein afleiðing þess að ekki var haft samráð við þá aðila sem þar þekkja best til við undirbúning vinnunnar.

Auglýsing
Undir þessa gagnrýni var tekið í umsögnum Samtaka heilbrigðisfyrirtækja, Læknafélags Íslands, Læknafélags Reykjavíkur o.fl.  

Það sem þessi fjölmörgu félög, stofnanir og fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem ekki hlutu náð fyrir pólitískum augum heilbrigðisráðherra eiga helst sameiginlegt er að vera ekki ríkisrekin, heldur starfa samkvæmt þjónustusamningi við ríkið. Þetta eru aðilar sem hafa um áratugaskeið verið mikilvægur hlekkur í íslenskri heilbrigðisþjónustu. En nú eru blikur á lofti.

Fjölbreytileiki ógnar ekki

Viðreisn hefur talað fyrir mikilvægi þess að skynsamleg nýting fjármuna og skilvirkni ráði för við stýringu ríkisútgjalda til þessa mikilvæga málaflokks. Jafnframt hljóti gæði og öryggi þjónustu við sjúklinga að skipta öllu máli, en ekki hver veitir þá þjónustu. Kerfið er rekið fyrir almannafé og eina hlutverk hins opinbera á að vera að tryggja almenningi sem best og öruggast kerfi.

Þessi afstaða, og þar með gagnrýni Viðreisnar á þá vegferð ríkisstjórnarinnar að ríkisvæða sem mest í heilbrigðisþjónustunni, hefur kallað á viðbrögð heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur. Ráðherra segir Viðreisn ítrekað tala í þingsal fyrir hagsmunum seljenda heilbrigðisþjónustu á einkamarkaði. Við gættum hagsmuna þeirra sem vildu tína út ábatasömustu þjónustuþættina til þess eins að hagnast á veiku og slösuðu fólki.

Þetta eru stór orð og mér þykir miður að upplifa þetta viðhorf heilbrigðisráðherra til þeirra fjölmörgu fagaðila og sérfræðinga í heilbrigðisþjónustunni sem ekki starfa hjá ríkisreknum stofnunum.

En heilbrigðisráðherra mun fá fjölmörg tækifæri til að senda mér og félögum mínum svona skeyti áfram því við munum ekki hætta að tala máli sjúklinga, heilbrigðisstarfsmanna og skattgreiðenda almennt með því að leggja áherslu á þessi mál. Íslenskt heilbrigðiskerfi þarf að nýta fjármagnið vel. Fjölbreytileiki er svarið svo lengi sem tryggt er að allir þurfi að uppfylla sömu gæðakröfur og séu fjármagnaðir á sama hátt. Heilbrigðiskerfið er opinbert kerfi, um það ríkir samfélagsleg sátt og innan þess kerfis þurfa að þrífast mismunandi form á jafnréttisgrundvelli vegna þess að það er þannig sem kerfið þjónar notendum sínum best. Það stafar engin ógn af fjölbreytileikanum, miklu nær væri að tala um tækifæri.

Það er jákvætt að stjórnvöld vilji móta heilbrigðisstefnu til lengri tíma. Eftir því hefur lengi verið kallað, bæði af þeim sem veita þjónustuna og þeim sem þiggja hana. Það er hins vegar slæmt að við þá vinnu skuli myndast gjá á milli heilbrigðisyfirvalda og fjölda aðila sem um áratugaskeið hafa verið hryggjarstykkið í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Það hlýtur að vera stjórnvöldum umhugsunarefni. Það ætti að minnsta kosti að vera þeim umhugsunarefni. Ekki síst þeim stjórnarflokki sem á árum áður kynnti sig sem sérstakan velunnara einkaframtaksins. Þar er nú Snorrabúð stekkur. Og heilbrigðiskerfið líður fyrir.

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorkell Helgason
Kominn er tími á umbætur á kosningakerfinu
Kjarninn 3. ágúst 2021
Minnsti álútflutningur í átta ár
Þrátt fyrir hækkandi álverð á heimsvísu hefur magn útflutts áls minnkað á síðustu mánuðum. Heildarútflutningur á síðasta árshelmingi hefur ekki verið minni síðan árið 2013.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Katrín Baldursdóttir og Símon Vestarr
Katrín Baldursdóttir og Símon Vestarr efst hjá Sósíalistaflokknum í Reykjavík suður
Listi Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður hefur verið kynntur. „Þetta er fjölbreyttur listi og kraftmikill. Fólk sem vill breyta samfélaginu þannig að allir hafi tækifæri til blómstra, hafi öruggt og gott húsnæði og góð laun,“ segir oddvitinn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Sigmundur Ernir ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins
Jón Þórisson, sem hefur ritstýrt blaðinu frá því haustið 2019 ætlar að snúa sér að öðrum störfum. Sigmundur Ernir verður einnig aðalritstjóri Torgs.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Bólusetningin hafi ekki skapað það hjarðónæmi sem vonast var til
Flest smit að undanförnu má rekja til hópatburða en delta afbrigði veirunnar hefur breiðst út á ótrúlegum hraða að sögn sóttvarnalæknis. Til stendur að bjóða þeim sem fengu Janssen bóluefni upp á aðra bólusetningu sem og að bólusetja 12 til 15 ára börn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir
Náttúruspjöll í Vatnajökulsþjóðgarði
Kjarninn 3. ágúst 2021
Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festis segir félagið ekki ætla að reyna fyrir sér í byggingargeiranum.
30 þúsund fermetra uppbygging í stað bensínstöðva
Samkvæmt samkomulagi Festis við Reykjavíkurborg á Festi byggingarrétt á lóðum þar sem til stendur að loka bensínstöðvum N1. Félagið hyggst selja byggingarréttinn í stað þess að byggja. „Það er ekki okkar bissness, það eru aðrir í því,“ segir forstjórinn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans – 5. þáttur: „Vits er þörf þeim er víða ratar“
Kjarninn 3. ágúst 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar