Núna á næstu dögum verður makríll færður í kvóta með sérlögum á Alþingi. Því er undirritaður ekki mótfallinn heldur hvernig það er gert. Málið er allt með ólíkindum en forsaga málsins er, að þegar makríll byrjaði að veiðast í lögsögunni þá fór stór hluti afla íslensku uppsjávarskipanna í bræðslu enda mikið aflareynslukapphlaup milli útgerðanna. Aflareynsla skipa í tonnum skiptir öllu máli þegar að kvótasetningu kemur. Þessi sóun varð Íslandi álitshnekkir sem ábyrgri fiskiþjóð. Í leiðara MBL frá 19. júní 2009 er ekki verið að skafa utan af því og segir að „mokveiðar á horuðum og smáum makríl bera vitni um vanvirðingu við auðlindir“ og seinna segir í áðurnefndum leiðara að „við höfum ekki efni á því að moka verðmætum afla í bræðslu, eins og óhjákvæmilega gerist þegar allt kapp er lagt á að sýna fram á aflareynslu“. Úr því að Mogginn talaði svona geta menn ímyndað sér hvernig norska, írska og skoska pressan trompaðist yfir því að gómsæti og dýrmæti makríllinn „þeirra“ væri veiddur í bræðslu á Íslandi.
Sjávarútvegsráðherrarnir Einar Kr. og Steingrímur Sigfússon klikkuðu báðir nokkuð alvarlega í þessu máli með því að taka þetta risastóra mál ekki inn á borð Alþingis. Slíkt hefði átt að gera árin 2008 / 2009. Þar var fordæmi frá síldinni en Alþingi kom margoft að málefnum síldarinnar þegar hún fór að ganga aftur. Ekkert var gert og úthafsveiðilögunum var leyft að malla með frjálsri sókn í makríl undir heildaraflamarki. Orðspor Íslands versnaði þar sem ekki var gripið inn í atburðarrásina og eðlilega gerði hver útgerð það sem líklegast var til að skila árangri.
Steingrímur Sigfússon, sem orðin var „allsherjarráðherra“ og tók við af Jóni, lokaði aðgangi að frystitogarahópnum eftir einungis eitt ár á veiðum, en leyfði skipunum stöðugt að fjölga í ísfisktogarahópnum og minnkaði hlutdeild hvers skips þar ár frá ári. Það er ótrúlegt að útgerðir ísfisktogara á Grundarfirði eða annarsstaðar hafi ekki látið reyna á þá grófu mismunun fyrir dómsstólum sem gerð var á hlutskipti þessara tveggja skipahópa. Kannski er ástæða þess að flestir ísfiskararnir eru í dag í eigu stórútgerðarinnar.
Línuskipin voru hinsvegar öll árin í ólýmpískri veiði eins og uppsjávarskipin voru nokkrum árum fyrr. Það er jú nánast skilgreining á aflareynslu og aflareynslukapphlaupi, að það sé brjáluð samkeppni milli skipa í frjálsri sókn - sá duglegasti fái mesta kvótann. Þetta rímar illa við togarahópana tvo sem fengu alla tíð sinn árlega „skammt“ sem hvert skip mátti veiða. Spyrja mætti fyrir dómstólum hvort það teljist aflareynsla í skilningi úthafsveiðilaganna. Ef þetta fyrirkomulag hefði verið almennt við lýði, þá hefðu öll skip frá árinu 1984 fengið sömu kvótaúthlutun þar sem allir hefðu sömu aflareynslu. Það blasir við að slíkt stenst ekki skoðun.
Næst gerist það að hver skipahópurinn eftir annan er „kvótasettur“ samkvæmt sinni aflareynslu. Þá fóru flestir að anda léttar og reyna að hámarka arðsemi veiðanna. Sumir leigðu frá sér heimildirnar og leigðu til sín aðrar. En seinna kom í ljós að þessi „kvótasetning“ áranna 2014 og 2015 var ekki nema að forminu til þar sem reynt var að endurspegla raunverulega kvótasetningu í reglugerð árlega. Þetta skildu auðvitað fáir og töldu að kvótasetning væri þegar komin til framkvæmda samkvæmt aflareynslu hvers skips. Í ljósi hæstaréttardóma um nauðsynlegan almennan skilning fyrirtækja á umhverfi sínu, til dæmis þegar erlendu lánin voru dæmd ólögleg hjá minni fyrirtækjum, þá má fullyrða að það umhverfi var mjög einfalt miðað við lagaumhverfi makrílveiðiskipa árum saman. Það var kvótasett, en svo kom í ljós að það var bara í plati.
Nýr sjávarútvegsráðherra, Sigurður Ingi, var fyrsti ráðherrann sem reyndi að koma þessu máli fyrir þingið árið 2015 og fullgilda þá kvótasetningu sem orðin var. Mikil umræða spannst um málið meðal þjóðarinnar og tugþúsundir skrifuðu sig á mótmælalista. Sigurður Ingi afturkallaði frumvarpið. Þetta makrílmál vildi ekki í gegnum þingið.
Nú er komið í ljós að einn af hæstaréttardómurum í makrílmálinu, Árni Kolbeinsson, á erfitt með að meta hæfi sitt til dómarastarfa samkvæmt nýföllnum dómi Mannréttindadómstól Evrópu í öðru máli. Nú er spurt hvort efast megi um hæfi hans í þessu máli, en sonur hans var framkvæmdastjóri LÍÚ og hafði ríka aðkomu að kröfugerðum á hendur ríkinu í tengslum við makrílhagsmuni aðila innan LÍÚ, en tveir þeirra höfðuðu síðan dómsmálið á hendur ríkinu sem faðir hans dæmdi í. Þessu tilviðbótar var fyrrnefndur hæstaréttardómari ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu árin 1985 til 1998 og hefur auðvitað sem slíkur haft ríka aðkomu að gerð úthafsveiðilaganna frá árinu 1996 sem dómurinn snýst allur um.
Gunnar Bragi, Þorgerður Katrín og Kristján Þór úthluta kvóta ár eftir ár á þeim grundvelli sem Jón Bjarnason bjó til. Ekkert þeirra reynir að afla þessum úthlutunum frekari lagastoðar þó svo að fyrir lægi álit umboðsmanns Alþingis um hugsanlegt ólögmæti. Ljóst er að enginn sjávarútvegsráðherra að Sigurði Inga undanskildum virðist hafa sett sig niður í sögu og grundvöll veiðanna.
En snúum okkur þá að línuskipunum, en undirritaður hefur starfað þar sem skipstjóri og útgerðarmaður árum saman. Þessi flokkur er stærstur í fjölda útgerða en þar hafa verið yfir 100 skip á veiðum. Sigurður Ingi úthlutaði þessum skipaflokki kvóta samkvæmt aflareynslu hvers skips ásamt frumkvöðlaálagi til þeirra skipa sem hófu veiðar fyrir árið 2013, en slíkt er heimillt samkvæmt úthafsveiðilögunum. En Sigurður mismunaði þessum skipaflokki gróflega í reglugerð árið 2015 sem síðan hélt áfram á sjálfsstýringu eins og flest annað í þessum makrílmálum. Hann lokaði aflaheimildir línuskipanna af þannig að þau gátu einungis skipst á aflaheimildum sín á milli. Seinna var settur á félagslegur pottur með mjög ríflegum aflaheimildum upp á 2000 tonn þar sem nýir aðilar sem ekki höfðu aflareynslu gátu leigt kvóta af ríkinu og farið á línuveiðar. Allir hinir skipaflokkarnir þrír, stórútgerðin sjálf - mátti hinsvegar skipta á aflaheimildum milli skipaflokka og myndaðist markaðsverð upp á 40-50 krónur fyrir kílóið af óveiddum makríl. Hjá línuflokknum var hinsvegar ekki sömu sögu að segja, enda ljóst að ef makríll gekk ekki á grunnslóð þá var dræm veiði hjá öllum. Ef ekki veiddist þá brann kvóti línuskipanna upp og var færður til hinna flokkanna árið eftir á silfurfati – frítt. Á vakt núverandi sjávarútvegsráðherra hafa brunnið upp hjá línuflokknum samtals um 5000 tonn af makríl árin 2017 og 2018. Þessi línuskip, sem réðu yfir 4-5% af heildarkvóta makríls á Íslandsmiðum, gátu ekki leigt til annarra skipaflokka og ekki nóg með það heldur þurftu þau samhliða að standa í samkeppni við leigumiðlun ríkisins á félagslegum heimildum, sem ráðuneytið stundar í gríð og erg.
En vendum þá kvæði okkar í kross. Dómurinn er fallinn. Lilja Rafney er formaður Atvinnuveganefndar. Sjávarútvegsráðherra hefur sent til nefndarinnar frumvarp sem er mjög ósanngjarnt en einfalt. Það er ósanngjarnt þar sem brugðið er út af grunnhugsun laganna um úthafsveiðar varðandi það viðmiðunartímabil veiðanna sem leggja skal til grundvallar þess kvóta sem hvert skip fær. Í frumvarpi Kristjáns Þórs er aflareynslan miðuð við 10 bestu ár skipanna af síðustu 11 árum. Úthafsveiðilögin kveða hinsvegar á um 3 bestu árin af síðustu 6 árum. Ekki er ólíklegt að einhver muni láta á það reyna hvort ólögleg mismunun felist í valinu á einmitt þessum árafjölda. Það er ljóst öllum sem til þekkja að sjávarútvegsráðherra ber hagsmuni uppsjávarskipanna mjög fyrir brjósti, þar slær hjarta þessa ráðherra – enda stjórnarformaður Samherja um langt árabil.
Hæstiréttur segir að veiðistjórn Jóns Bjarnasonar hafi ekki verið tæknilega rétt þar sem setja hefði þurft lög til að stjórn veiðanna stæðist dóm sem hefði aftengt úthafsveiðilögin eins og fyrr segir. Allar ríkistjórnir í nærri áratug hafa haldið sig við núverandi stjórn veiða og fyrir því eru ótal góðar ástæður. En nú með meðbyr dómsins reynir ráðherra að snúa vilja allra þessara ráðherra og ríkistjórna í þágu stærstu útgerðanna. Hann ætlar með vali sínu á viðmiðunartímabilinu að færa kvóta frá hinum flokkunum þremur til uppsjávarskipanna. Þannig er talan 10 ár af 11 árum fundin sem leið til að mismuna milli skipa – færa heimildirnar til þeirra stóru. Ella hefði þá verið valið 6 ár af síðustu 11 árum í anda laganna. Þetta val ráðherrans er mjög sértækt. Afleiðingarnar eru gífurlegar fyrir tugi línuskipa sem munu skerðast að meðaltali um 45% árið 2019 miðað við árið á undan ef þessi óskapnaður verður að lögum. Þessi leikur, að mismuna milli útgerða í sömu stöðu með því að máta allan mögulegan árafjölda, sem í frumvarpið geta farið, og velja svo þær tölur sem koma rétt út fyrir rétta aðila, gætu gert þjóðina skaðabótaskylda – aftur.
Rökin, sem eru færð fyrir því að færa ríkustu útgerðum Norðurlanda makrílkvóta sem tekinn er af minnstu útgerðum landsins, fara ekki hátt, en því er hvíslað að með þessu ráðslagi séu minni líkur á því að uppsjávarútgerðirnar fari í skaðabótamál á hendur ríkinu, fái þær meiri kvóta frá og með árinu 2019.
Allt er þetta tóm þvæla. Auðvitað fara útgerðirnar í skaðabótamál sama hverju lofað er á göngum Alþingis, í einhverjum pólitískum skiptimyntum. Ég er viss um að stórútgerðin reynir að sækja sínar bætur því þeim dugar ekki að eiga grænu baunirnar, Moggann, mjólkurkexið, olíufélögin, Eimskip og tryggingafélögin.
Ljóst er að Alþingi getur sett lög um þessi mál og úthlutað Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi öllum makrílkvótanum árið 2019 ef svo ber undir. Það hefur engin áhrif á umfang skaðabótakröfu uppsjávarútgerðanna fyrir tímabilið 2011 til og með ársins 2018 fram að þeim tíma sem dómurinn féll. Hinsvegar verður Alþingi að setja lög um úthlutunina til að stöðva klukku skaðabótakrafnanna. Þessi skrípaleikur stýrimanns Samherja virðist virka. Engin umræða er um málið – hvergi. Engir undirskriftalistar. Mogginn þegir, enda er stærsti eigandi blaðsins einn stærsti hagsmunaaðilinn og var annar tveggja til að höfða málið. Sumir segja að einhverjir nefndarmenn hafi verið plataðir, framsóknarflokkurinn situr þá í súpunni og finnst hún vond. Þingmenn virðast þróttlitlir, þreyttir og vilja komast í frí. Eftir höfðinu dansa limirnir.
Þá er komið að þætti Lilju formanns atvinnuveganefndar. Hennar saga hefur sýnt að félagslegar fiskveiðiheimildir eru henni mjög hugleiknar. Landsamband smábátaeigenda er strand þar sem stærstur hluti útgerða sem gera út af alvöru á eigin heimildum hafa yfirgefið þennan félagsskap, sem talar mest í gífuryrðum um að allt eigi að vera frjálst. Ef fer fram sem horfir þá mun þessi félagsskapur verða deild í Tryggingarstofnun eða Byggðastofnun og heimta meiri aflahlutdeild af atvinnumönnum í félagslegar heimildir þannig að flugstjórar og tannlæknar geti leikið sér á strandveiðum svo dæmi sé tekið. Formaður Atvinnuveganefndar er nátengd þessum félagsskap. Formaðurinn og hennar fjölskylda gera út bát og grundvallast sú útgerð á félagslegum heimildum og sterkum tengslum við LS, sem hugsar Félagi makrílveiðimanna þegjandi þörfina fyrir að vera í sér félagi. Með frumvarpinu tekst ráðherra og formanni atvinnuveganefndar vel til við að auka enn frekar á sundrungu smærri útgerða. Félag Makrílveiðimanna er hagsmunafélag þeirra atvinnumanna sem stundað hafa þessar veiðar síðustu árin en samtals hafa meðlimir félagsins yfir 83% af öllum heimildum línuskipa árið 2018.
Aflaheimildir línuskipanna verða aldrei neins virði í varanlegum skiptum á aflaheimildum. Línuskipin verða fyrst til að þorna upp með sína veiði og sitja uppi með verðlausar heimildir í samkeppni við risastóran leigupott ríkisins. Ef eitthvað dregur úr göngu makríls vestur með landinu þá er þessi hópur verst settur.
Er ekki nóg komið af vitleysunni í þessum málum. Er ekki rétt að vanda sig og hlífa ríkinu við frekari töpuðum málaferðum á næstu 2 árum. Eina vitræna niðurstaðan er auðvitað sú að festa núverandi úthlutanir í sessi en úthluta frumkvöðlaálagi til þeirra útgerða sem best stóðu sig í sjófrystingu á makríl í stað þess bræðslumoksturs sem Morgunblaðið lýsti ágætlega. Þetta kerfi hefur þróast á 10 árum í tíð margra ráðherra þar sem viðleitnin var sífellt að skapa fjölbreytileika og dreifingu. Ég skora á þingmenn að fá lögfræðiálit strax á því að festa núverandi úthlutanir í sessi og fá úr því skorið hvort áhrif þeirrar úthlutunnar hafi nokkur áhrif á skaðabætur áranna 2011 til 2018. Það er mín fullvissa að þeirri draugasögu hefur verið komið á flot í reykfylltum bakherbergjum.
Höfundur er eigandi Búhamars ehf. sem gerir út Hlödda VE-98.