Í þjóðsögunni um Skúla Magnússon, síðar landfógeta, fékk hann þá skipun frá vinnuveitanda sínum, dönskum kaupmanni, að setja fölsk lóð á vogarskálarnar í viðskiptum við Íslendinga. Nú til dags mun fölsun á máli eða vog varla geta viðgengist enda hafa mál og vog verið fest í alþjóðlega staðla metrakerfisins. Flestir munu sammála um það hagræði og öryggi sem felst í alþjóðlegum stöðlum fyrir mál og vog. Öðru máli gegnir um mælikvarðann á verðgildi í viðskiptum sem er íslenska krónan. Hér virðist almenningur fyllilega sáttur við að sá mælikvarði sé teigður og togaður til að endurspegla það sem kallað er íslenskur veruleiki.
Hinn íslenski veruleiki er óvissa og óöryggi um gengi krónunnar gagnvart erlendri mynt. Með einhliða upptöku á evru (eða dal) eða myntráði við evru er hægt að draga verulega úr þeirri óvissu og óstöðugleika sem fylgir örmynt. Hagstjórn undir einhliða upptöku evru eða myntráði er nánast eins. Myntráð er mun ódýrari leið en einhliða upptaka evru; myntsláttuhagnaður helst innanlands og viss sveigjanleiki er fyrir hendi því skipta má um viðmiðunarmynt án þess að traust á myntráði minnki. Á móti kemur að einhliða upptaka er nánast óafturkræf. Kosti og galla myntráðs þarf að ræða í samhengi við einhliða upptöku evru en það hefur ekki verið gert í opinberum skýrslum um peningastefnu.
Íslendingum er ekkert að vanbúnaði að taka upp myntráð við evru (eða dal). Þetta einfalda kerfi innleiðir traustan mælikvarða á verðgildi og sparar háar fjárhæðir í viðskiptakostnaði ásamt bættri áætlanagerð fyrirtækja og heimila. Auk þess munu vextir lækka í takt við vaxtastig á evrusvæði. Sá her fræðinga sem nú hefur atvinnu af því að spá og spekúlera um verðbólgu, gengi og vexti verður óþarfur og rekstrarkostnaður fjármálakerfisins lækkar.
Ógnir evrunnar
Óttinn við upptöku evru með myntráði virðist aðallega vera fóðraður, fyrir utan stöðugan hræðsluáróður gegn ESB, með þeirri staðhæfingu að tekjuskerðing í þjóðarbúinu leiði síður til atvinnuleysis ef hægt er að breyta mælikvarðanum á verðgildi, það er fella gengið. Gríðarleg gengisfelling vegna áfalla í þjóðarbúskapnum 1967-68 og 2008 kom ekki í veg fyrir mikla aukningu atvinnuleysis og stórfelldan landflótta. Í fyrra tilvikinu réttist hagur þjóðarbúsins við eftir um tvö ár. Samdrátturinn vegna bankakreppunnar 2008 hefur einnig unnist upp og vel það. Vissulega hjálpaði veikt gengi til að auka ferðamannastraum til landsins en fleiri þættir stuðluðu að uppgangi ferðaþjónustu. Í hruninu olli krónan sjálf, eftir ofris og fall, meiri vandræðum fyrir almenning og fyrirtæki heldur en gjaldþrot bankanna eða samdráttur í útflutningi.
Einkageirinn lagar sig strax að tímabundnum sveiflum í tekjum með uppsögnum, minni yfirvinnu, lægra starfshlutfalli eða sókn á nýja markaði. Það er hinn mikli fjöldi opinberra starfsmanna sem gerir gengisbreytingu þægilegt efnahagsúrræði frá sjónarhóli stjórnvalda. Hægt er að draga úr kaupmætti opinberra starfsmanna án þess að raska kjarasamningum.
Spurningin er hvort hagsmunum opinberra starfsmanna sé best borgið með því að halda í sveiflukennda krónu og háa vexti í stað þess að gera sveigjanlega kjarasamninga sem geta tekið mið af því ef þjóðarbúið verður fyrir verulegum tekjumissi. Lækkun á gengi leiðir til ófyrirsjáanlegrar og ógegnsærrar tilfærslu á verðmætum ekki aðeins frá framleiðslu og þjónustu fyrir innanlandsmarkað til útflutningatvinnuvega heldur einnig til sumra fjármagnseigenda og lánardrottna. Hærra gengi eykur kaupmátt og þannig virðist hagur almennings batna sjálfkrafa við gengishækkun sem fylgir innflæði gjaldeyris en sem fyrr er skipting ábatans mjög ójöfn. Framboð og eftirspurn ákveða hlutfallsleg verð á markaði og þar með hagstæðustu samsetningu framleiðslunnar í nútíma hagkerfi. Engin þörf er að brengla verðhlutföll markaðarins með ógegnsæjum og ófyrirsjánlegum sveiflum í gengi krónunnar.
Sjá roðann í austri
Óstöðugleiki og ófyrirsjáanleiki krónunnar hefur kynt undir miklum vexti eftirlitsiðnaðar hér á landi. Eftir bankahrunið 2008 virðist þurfa að fylgjast með hverju skrefi fáeinna lítilla fjármálastofnana sem eftir standa. Tillögur liggja fyrir um sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins þar sem komið er á fót eins konar alsherjar eftirlitsstofnun til að tryggja stöðugleika í hagkerfinu. Það er eðli eftirlitsiðnaðarins að hann getur vaxið endalaust, áhættu má jafnan sjá frá nýjum sjónarhóli og alltaf þarf að fylgjast með fleiri og fleiri aðilum til að koma í veg fyrir óvæntar uppákomur. Næsta skref er að Eftirlitsstofnun ríkisins fylgist með stórum fyrirtækum til að koma í veg fyrir WOW skelli í framtíðinni, síðan mætti herða eftirlit með fjárfestingum smærri fyrirtækja og heimila. Bankar og fjárfestingarsjóðir munu alltaf lenda í útlánatapi sama hvað kerfisáhættu-fjármálastöðugleika-þjóðhagsvarúðar eftirlitskerfið gerir. Gallinn við ofvöxt eftirlitsiðnaðar er að hann styrkir ekki raunverulegan grundvöll stöðugleika. Til þess þarf traustan gjaldmiðil ásamt því að ábyrgð og ákvarðanataka séu á sömu hendi. Mikilvægt er að fjárhagstjón lendi á þeim sem taka ákvarðanir ekki almenningi.
Einfalt peningakerfi
Seðlabankinn hefur það hlutverk að tryggja verðstöðugleika eða halda verðbólgu innan vissra marka og til þess er vaxtatækinu aðallega beitt. Vegna smæðar hagkerfisins er innflutningsverð afgerandi fyrir verðþróun og því er stýring á heildareftirspurn með vöxtum of seinvirk. Stjórn á gengi og /eða fjármagnsflæði er óhjákvæmileg fyrir stöðugt verðlag við íslenskar aðstæður. Fyrir stór hagkerfi getur verðbólgumarkmið með sjálfstæðum seðlabanka náð góðum árangri þótt stýrivextir nálægt núlli eins og nú tíðkast hafi fyrst og fremst örvað hlutabréfamarkað en ekki almennan hagvöxt.
Myntráð eða einhliða upptaka evru er vafalítið besta og ódýrasta peningastefnan fyrir örhagkerfi. Myntráð þarf að starfa sem sjálfstæð og óháð stofnun líkt og Seðlabankinn nú með sitt verðbólgumarkmið. Því miður er gengið gegn hugmyndinni um sjálfstæðan seðlabanka með því að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlit. Peningastefna sem undirdeild í stofnun sem ber ábyrgð á öðrum viðfangsefnum sem ekki falla undir hugmyndafræði um sjálfstæði seðlabanka getur ekki haft sama traust og sjálfstæð stofnun með vel skilgreint markmið. Til dæmis væri lítið traust á sjálfstæði dómstóla ef Landsdómur væri deild í dómsmálaráðuneytinu.
Myntráð er fámenn stofnun sem hefur það meginhlutverk að tryggja að krónan sé skiptanleg í evrur og öfugt. Þannig getur peningamagn í umferð ekki aukist verulega án þess að gjaldeyrisvarasjóðurinn vaxi samhliða. Þetta fyrirkomulag flytur inn verðstöðugleika og vaxtastig evrusvæðisins. Sjálfstætt myntráð hefur ekkert með lánveitanda til þrautavara að gera. Það hlutverk á að vera í hendi og á ábyrgð stjórnvalda. Fjármálaeftirlit verður sérstök stofnun óháð starfssemi myntráðsins. Umsýsla peninga og varðveisla gjaldeyrisvarasjóðs getur samrýmst starfsemi myntráðs. Með myntráði við evru fæst stöðugur og trúverðugur gjaldmiðill.