Ef bæta á strætó þarf að gera bílinn verri

Eiríkur Ragnarsson segir að til að gera strætó samkeppnishæfan þurfi mögulega ekki bara að bæta strætó heldur þurfi kannski líka að byrja að „skemma fyrir“ bílnum.

Auglýsing

Flestir geta verið sammála því að bæting almenningssamgangna sé af hinu góða. Til að mynda gæti aukin notkun strætó dregið fólk úr einkabílnum og þannig dregið úr mengun. Það er gott. Bættar tímatöflur og fjölgun vagna væri líklega hvalreki fyrir núverandi notendur, sem eiga það til að vera tekjuminni einstaklingar og ungt fólk (sjá mynd að neðan). Svo ekki sé minnst á þann sparnað, bæði fyrir einstaklinga og þjóð, sem felst í því færa fjölda fólks sem brunar um á einkabílnum í strætisvagna. En þrátt fyrir það að flestir ættu að geta verið því sammála, að betri nýting á strætó sé af hinu góða, þá hefur það gengið hægt að fjölga notendum. Og ein ástæðan fyrir því er sú að við höfum einblínt á það að gera strætó bærilegri, án þess þó að draga úr aðdráttarafli bílsins.

Mynd: Eikonomics

Veikar staðgönguvörur

Íslendingar borða SS pylsur. Það er að segja, allavega svo lengi sem þær eru ekki mikið dýrari en pylsurnar frá Goða. Ef SS myndi á morgun hækka verðið á pylsupakkanum um 25%, þá er líklegt að slatti Íslendinga myndi bara skipta yfir í Goða. Ástæðan er einföld: Pylsa er pylsa, pulsa er pulsa og pylsa er pulsa.

Auglýsing

Strætó þjónar þeim tilgangi að færa fólk frá einum stað til annars. Þá þjónustu bjóða einnig fætur á fólki, hjól, leigubílar og einkabíllinn. Í þeim tilgangi að koma fólki úr einkabílnum og inn í strætó hefur ýmist verið reynt í gegnum tíðina. Til dæmis hefur leiðakerfið verið hægt og smátt bætt, ferðum hefur fjölgað og app verið þróað. Svo eitthvað sé nefnt. Þetta er að sjálfsögðu velkomin bót fyrir þá sem voru strætófarar fyrir og þannig verið ágætis endurskipting auðs, að mestu frá ríku gömlu fólki í bíl til fátæks ungs fólks í strætó. En þegar kemur að því að færa gamla ríka fólkið úr bílunum sínum yfir í vagna okkar hefur lítið tekist til.

Mynd: Eikonomics

Ólíkt pylsum þá eru Íslendingar til í að borga ansi mikið fyrir það að láta einkabílinn færa sig frá A til B. Ef marka má forsendur FÍB, þá má á hófsaman hátt reikna það að einstaklingur, sem nú þegar á bíl, þarf að keyra 10 kílómetra í vinnu geti sparað sér á bilinu 60 til 140 þúsund kall á ári með því að skilja bílinn eftir í bílskúrnum og taka strætó í vinnuna í staðinn (en nota samt bílinn í allt annað). (Ef heimili með tvo bíla ákveða að vera með einn bíl, eða einhverjir ákveða að lifa án bíls, Þá er sparnaðurinn um milljón krónur.) En pylsur eru pylsur og strætó er ekki bíll. Það er nokkuð ljóst að fólk sé tilbúið að borga ansi vel fyrir að gönna brautina á kagganum, í stað þess að bíða eftir strætó.

Ekki er hægt að bæta strætó endalaust

Verð skiptir að sjálfsögðu máli. Ef árskort í strætó lækkar í verði á morgun er líklegt að gangandi vegfarendur myndu taka strætó oftar. Kannski myndu einhverjir leggja bílnum og byrja að taka strætó. En þar sem verð í strætó er nú þegar ekki langt frá núllinu er sá hópur líklega smár. Og þetta veit starfsfólk Strætó sem og borgaryfirvöld vel. Því hafa þau reynt að leggja áherslu á það að bæta þjónustuna. Borgarlínan er gott dæmi um það.

Þegar bætingar eiga sér stað á strætó, þá fer fólk sem áður gældi við þá hugmynd að taka strætó að byrja að taka strætó. Ástæðan er sú að í þeirra augum er strætó nú sambærilegur kostur bílsins. En sama hvað Borgarlínan verður nett og ódýr þá eru því miður efri mörk á því hversu mikið hægt er að bæta strætó. Meira að segja ef við fjárfestum heilum helling í strætó, búum þá með Lazy-Boy, látum þá ganga á 10 mínútna fresti, fjölgum strætóskýlum og gefum öllum popp sem koma um borð, þá er samt líklegt að flest allir sem eru á bíl í dag haldi sig við það val. Allavega ef marka má söguna.

Að gera bílinn verri

Til að gera strætó samkeppnishæfan þarf því mögulega ekki bara að bæta strætó heldur þarf kannski líka að byrja að skemma fyrir bílnum. Augljósast væri að beita sköttum, til að hækka kostnaðinn við það að nota bílinn innanbæjar. En það væri líka hægt fækka akreinum á hinum ýmsu götum. Í staðinn gætu komið hjólastígar og akreinar fyrir strætó. Einnig væri hægt að setja upp vegatoll við Gullinbrú. Þar gætu myndast umferðateppur á morgnana, þar sem bílafólk gæti horft með öfundaraugum á farþega strætó sem kæmu brunandi niður akreinar sem einu sinni tilheyrðu bílnum. Borgin gæti líka breytt bílastæðum í lóðir fyrir íbúðir, verslanir, eða leikvelli. Þar með yrði martröð að finna stæði, sem myndi gera strætó meira spennandi kost, í samanburði.

Ef einhverjar, eða allar, þessara hugmynda yrðu framkvæmdar, samhliða Borgarlínu og uppbyggingu strætó, þá er ekki ólíklegt að með tímanum myndi fólk byrja að leggja bílnum og taka strætó. Og þó svo að þetta yrði kannski sársaukafullt í fyrstu þá á endanum yrði þetta eðlilegt. Með tímanum yrði strætó normið, rétt eins og neðanjarðarlestir í London eða trammar í Amsterdam. Þá mun enginn sakna bílsins.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars síðastliðinn.
„Nýr ógnvaldur“ við heilsu manna kominn fram á suðvesturhluta Íslands
Lungnalæknir segir að lítið sé vitað um langtímaáhrif vegna gasmengunar í lágum styrk til lengri tíma og áhrif kvikugasa í mjög miklum styrk í skamman tíma á langtímaheilsu. Nauðsynlegt sé að rannsóknir hefjist sem fyrst.
Kjarninn 7. maí 2021
Viðsnúningur Bandaríkjanna í óþökk lyfjarisa
Óvænt og fremur óljós stefnubreyting Bandaríkjanna varðandi afnám einkaleyfa af bóluefnum gegn COVID-19 hefur vakið litla kátínu í lyfjageiranum. Deildar meiningar eru um hvort afnám einkaleyfa kæmi til með að hraða framleiðslu bóluefna.
Kjarninn 7. maí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Ísland skoðar að kaupa 100 þúsund skammta af Spútnik V og vill fá þorra þeirra fyrir 2. júní
Viðræður hafa átt sér stað milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og þeirra sem framleiða og markaðssetja hið rússneska Spútnik V bóluefni. Ísland myndi vilja fá að minnsta kosti 75 þúsund skammta fyrir 2. júní.
Kjarninn 7. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Sonos fær uppreist æru og Framsóknarmaður vill aldurstakmark á snjalltæki
Kjarninn 7. maí 2021
Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Páll Magnússon er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Nefnd búin að afgreiða fjölmiðlastyrki og umsóknarfrestur verður til loka maímánaðar
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur skilað áliti um stuðningskerfi til fjölmiðla. Þar er lagt til að þrengja skilyrði fyrir stuðningi úr ríkissjóði og gildistími laganna er færður í eitt ár.
Kjarninn 7. maí 2021
Meira úr sama flokkiEikonomics