Í dag 17. júní ætla ég að ræða um trú og von. Fyrst um mitt trúaruppeldi vestur á fjörðum. Síðan um íslenska lýðveldið og hvernig sérhvert siðað og farsælt samfélag nærist á sameiginlegri von og fyrirheitum. Sérhver einstaklingur og sérhvert samfélag þarf á andlegum verðmætum að halda. Íslenska lýðveldið þarf að byggja á fallegum, sameiginlegum hugsjónum.
Faðir minn Kristján J. Jónsson var sjómaður og lengi skipstjóri á fiskibátum. Náfrændi minn var sjómaður. Afar mínir í báðar ættir voru sjómenn.
Æskudraumurinn var að fara til sjós strax og ég hafði aldur til og skipstjóri eins og faðir minn. Þessi æskudraumur rættist ekki. Ég var einfaldlega mjög sjóveikur. Þið vitið sem þá reynslu hafið að sjóveiki er ekkert grin: Getur valdið nánast óbærilegri vanlíðan, ógleði og uppsölum. Ég vissi einnig að ég myndi sennilegast ekki verða laus við sjóveikina. Faðir minn fann til sjóveiki alla tíð í vondum veðrum þó hann léti það ekki hamla sínu starfi.
Hinn æskudraumurinn var að verða trúboði þegar ég væri ekki á sjónum. Ástæðan var einföld: Ég hlaut gott trúarlegt uppeldi. Allt í kringum mig var trúað fólk. Við krakkarnir voru fermd í þjóðkirkjunni en trúargleðin kom frá barnastarfinu í Hvítasunnusöfnuðinum og Hjálpræðishernum. Þar var söngur og gleði. Fólk sem ekki notaði trú sína til að upphefja sjálfan sig yfir aðra. Trúin var einfaldlega hluti af lífinu einkum þegar mikið lá við. Fólk stóð andspænis sjúkdómum, sjávarháska, óveðrum og snjóflóðum. Djúpið gaf og Djúpið tók.
Djúpið , Gullkistan, var ein fengsælustu fiskimið landsins en hafið getur einnig orðið lífshættulegt. Faðir minn las aldrei í Biblíunni og sótti ekki messur nema á Sjómannadaginn og á Aðfangadag jóla. Hann var málglaður maður og hafði yndi af sögum en ég heyrði hann hins vegar aðeins tvisvar tala um trú sína.
Fyrra skiptið var frásögn af því þegar hann 16 ára gamall var til sjós og skyndilega brast á óveður. Allt lauslegt í bátnum var bundið niður. Skipstjórinn var einn í brúnni við stýrið en hásetarnir voru í lúkarnum. Áhöfnin beið dauða síns. Báturinn myndi farast. „Hvað gerðuð þið” spurði ég föður minn og hann svaraði: „Við fórum í kojurnar. Breyddum yfir okkur sæng og fórum með Faðirvorið.”
Hitt skiptið sem faðir minn talaði um trú var þegar útséð var um sjómennsku mína. Fór fyrst í menntaskóla og síðar til náms í Bandaríkjunum. Þegar ég var að fara sagði faðir minn við mig: „Og mundu það Svanur minn að þú ert aldrei einn.”
Trú snerist sem sagt um að treysta; að lífið sé ferðalag í fylgd verðmæta sem mölur og ryð fá ekki grandað; að öðlast hlutdeild í verðmætum sem ekki eru af þessum heimi. Verðmætum sem ekki eru áþreifanleg en samt óhagganleg í eilífum sannindum um grundvöll mannlegrar tilveru.
Í helgri bók, Biblíunni, er trúin einungis skilgreind á einum stað. Þar stendur skrifað:
„Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem ekki er auðið að sjá.”
(Bréfið til Hebrea 11:1).
Ég vildi verða trúboði til að miðla trú minni til annarra.
Sannleikurinn um einstaklinga og samfélag
Síðar varð ég fræðimaður og háskólakennari. Ég varð hvorki sjómaður eða trúboði. Ég hygg hins vegar að æskudraumar mínir tveir endurspegli djúp sannindi – ekki eingöngu um mitt líf heldur um líf okkar allra bæði sem einstaklinga og samfélags.
Þarfir okkar allra eru hinar sömu: Hver sem er: hvenær sem og hvar sem er. Annars vegar þurfum við efnisleg verðmæti. Við Íslendingar þurfum sjómenn og alls konar atvinnugreinar. Við þurfum vinnu í víðum skilningi hvort sem er launuð eða ólaunuð. Okkur hefur oft gengið vel að skapa efnisleg verðmæti. Fyrir það skulum við vera þakklát. En við þurfum einnig trú. Við þurfum að geta treyst hvort öðru. Sérhvert siðað samfélag þarfnast samfélagssáttmála. Þar eru tilgreind hvers konar samfélag við viljum vera; hver eru okkar markmið. Hverjar eru okkar samfélagslegar skyldur og hver eru okkar réttindi. Á grundvelli samfélagssáttmála eru síðan sett grundvallarlög sem venjulega eru nefnd stjórnarskrá þjóðfélagsins.
Það er gömul saga og ný að þeim samfélögum – jafnvel heimsveldum– er hætta búin sem ekki leggja rækt við sina siðferðilega undirstöðu og sameiginleg verðmæti. Vantraust, tortryggni og stjórnlausar deilur naga rætur slíks þjóðfélags ekki síst á tímum eins og okkar þegar allri tilveru lífs á jörðinni er ógnað og nauðsynlegt er að sameinast um markvissar mótvægisaðgerðir.
Algjörlega stöðugt ástand er yfirleitt ekki í boði. Hvað þá heldur þegar áföll dynja yfir. Áföll breyta lífi einstaklinga og tilveru samfélaga. Ekkert verður eins og áður. Tveir og einungis tveir kostir eru í boði:
- Áfall veldur biturleika og sjálfseyðingu. Því sem áður var hægt að treysta er ekki lengur hægt að treysta. Vonleysi grípur um sig. Þjóðfélög læsast inn í vítahring neikvæðrar þróunar. Vantraust og reiði truflar eðilega starfsemi þjóðfélags og stjórnmála sem aftur eykur enn á almennt vantraust og reiði.
- Áfall kallar á glögga sýn á það sem gerst hefur. Æðruleysisbænin er gott veganesti:
„Guð, gefðu mér æðruleysi
til að sætta mig við það
sem ég fæ ekki breytt.
Kjark til að breyta því sem ég
get ekki breytt
og vit til að greina þar á milli.“
Hér og nú á þjóðhátíðardegi Íslendinga 17. júní skulum við undanbragðalaust horfast í augu við nokkrar staðreyndir um íslenska lýðveldið sem stofnað var 1944. Ísland varð fullvalda ríki 1918. Í meir en 100 ár höfðum við ráðið okkur sjálf. Í 75 ár höfum við haft hér lýðveldi.
Íslenska lýðveldið í djúpum vanda
Hér eru þrjár staðreyndir um ástand íslenska lýðveldisins:
- Íslenska lýðveldið er djúpum vanda. Almennt ríkir vantraust og tortryggni í garð stjórnmála, opinberra stofnana og fjármálastofnana. Þannig sýnir nýleg könnun Gallup að 67% svarenda telja spilling vera alvarlegt vandamál í íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu samanborið við 14% í Svíþjóð, 15% í Danmörku, 77% í Úkraínu, 80% í Rússlandi og 86% á Ítalíu. Samkvæmt nýrri könnun MMR treysta 18% svarenda Alþingi – og það fyrir síðustu uppákomur á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Í Noregi treysta tveir þriðju kjósenda sínu löggjafarþingi.
- Ein aðalorsök vantraustsins er Hrunið 2008. Í hugum þorra Íslendinga afhjúpaði Hrunið bitran sannleika um eigið þjóðfélag. Heimskreppa eða styrjaldir voru ekki þar orsakavaldar. Leiðarljós íslenskra ráðamanna voru sérhagsmunir hinna ríku og voldugu. Spilling, vanhæfni, fúsk og frændhygli stjórnaði gerðum valdafólks í stjórnmálum, fjármálakerfi og opinberum stofnunum. Nákvæmlega þeim sem almenningur treystir ekki í dag.
- Meir en tíu árum eftir Hrun erum stödd í neikvæðri þróun íslensks lýðræðis og réttarríkis. Gleymum ekki upreist æru kynferðisafbrotamanna; eitruðu samspili fjármála, viðskiptalífs og stjórnmála; geðþóttaákvörðunum ráðamanna við skipan dómara í Landsrétt; úrræðaleysi Alþingi við sjálftöku Alþingismanna og siðferðisbrestum; Klausturmálið.
Að mínu mati eru samt ein mesta ógæfa Íslands fólgin í meðferð stjórnarskrármálsins og þess að hafa hvorki Samfélagssáttmála eða nýja stjórnarskrá. Við búum enn við stjórnarskrá sem í grundvallaratriðum er byggð á stjórnarskrá konungsríkisins Danmörku – frá 1849.
Nýr samfélagssáttmáli
Margar réttarbætur koma erlendis frá hvort sem er frá Evrópusambandinu í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Mannréttindadómstólinn í Strassborg eða alþjóðlega sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Íslenskir ráðamenn streitast oft á móti eins og þeir geta.
Sem betur fer höfum við samið nýjan Samfélagssáttmála og nýja stjórnarskrá. Fyrst var haldin þjóðfundur; síðan kosið Stjórnlagaþing. Stjórnlagaráð skilaði góðu verki. 20. október 2012 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem mikill meirihluti samþykkti meginatriði nýrrar stjórnarskrár. Alþingi er ekkert að vanbúnaði að afgreiða nýju stjórnarskránna eftir breytingar sem mætti gera án þess að raska meginatriðum frumvarpsins. Munum að engin af undanförnum hneykslismálum hefði komið upp væri nýja stjórnarskráin í gildi.
Ég legg til að við hættum að deila um fortíðina í stjórnarskrármálinu.
Við getum ekki breytt hinu liðna. Það er ekki á okkar valdi. Það er hins vegar á okkar valdi að viðurkenna í verki að íslenska lýðveldið verður ekki byggt upp nema á grundvelli trúar og vonar – nema að við setjum okkur sameiginleg markmið. Ákveðum hvers konar þjóðfélag við viljum hafa í nútíð og framtíð. Við getum ekki látið sérhagsmunahópa ráða áfram för. Við þurfum niðurstöðu í deilum um Samfélagsáttmála og nýja stjórnarskrá. Endalausar deilur um grundvallarlög og leikreglur hafa til óþurftar markað sögu íslenska lýðveldisins.
Við þurfum lýðveldi sem á sér draum því eins og þjóðskáldið Hannes Pétursson yrkir:
„Og við stóðumst ekki án drauma
neinn dag til kvölds. …. “
Á þessum sólskinsdegi skulum við strengja þess heit að næsta 17. Júní árið 2020 – á 100 ára afmæli jafns kosningaréttar kvenna sem karla – skuli hafa tekið gildi nýr Samfélagssáttmáli og ný stjórnarskrá.
Mikið afskaplega eru nú Aðfararorðin – Nýi samfélagssáttmálinn - að nýju stjórnarskránni fallegur og ljóðrænn texti:
„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.
Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindum að hornsteinum.
Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.
Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.
Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.”
Á grunni þessa samfélagssáttmála getur framtíð íslenska lýðveldisins orðið björt og farsæl.
(Ávarpið var flutt við útimessu Laugarnessafnaðar í Laugardal 17. júní 2019).