Allt frá lokum síðari heimstyrjaldar hefur Ísland sem fullvalda ríki verið þátttakandi í margvíslegu fjölþjóðlegu samstarfi. Tilgangurinn með slíku samstarfi hefur verið og mun ávallt vera að styrkja stöðu landsins í samfélagi þjóðanna. Það er óumdeilt að þau skref sem við höfum tekið sem virkir þátttakendur í fjölþættu samstarfi hafa styrkt fullveldi landsins og bætt efnahags þess svo um munar. Ákvarðanir um að taka þátt í fjölþjóðasamstarfi hafa haft einhver mestu áhrif á lífsgæði okkar Íslendinga fyrr og síðar.
Heimsmyndin hefur breyst
Heimsmynd kaldastríðssáranna var tiltölulega einföld. Það voru tveir turnar sem tókust á; vestræn ríki undir forystu Bandaríkjamanna og sósíalistaríki undir forystu Sovétríkjanna. Hugmyndafræðin greindist í tvennt; hugsjónir lýðræðis og frjálsra viðskipta og hugmyndaheimur alræðis og sósíalisma. Margir töldu að með falli Berlínarmúrsins stæðu þjóðir heimsins á krossgötum. Nú þrjátíu árum síðar stöndum við enn á sömu krossgötum og heimsmyndin jafnvel mun flóknari en áður, togkraftarnir fleiri og hugmyndafræðin sundurlausari, jafnvel fjölskrúðugri og fjarri því eins einföld og á tímum kalda stríðsins. Bandaríkin byggja ekki á myndun bandalaga með sama hætti og áður, samvinna þeirra við bandamenn sína byggir í vaxandi mæli á þeirra eigin hagsmunum en minna mæli en áður á sameiginlegum hugsjónum og hagsmunum eða samstöðu með þeim. Kína mun væntanlega verða forysturíkið á alþjóðavettvangi á næstu áratugum. Þá mun Evrópusambandið sem hefur vaxið hratt og er miklu áhrifameira en áður skipta verulegu máli þótt það glími um stundarsakir við ákveðinn innri vanda.
Evrópuhugsjónin er ávöxtur vestrænna lýðræðishugmynda kalda stríðsins. Í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa hugmyndir um frjáls viðskipti færst frá fjölþjóðasamvinnu til tvíhliða samninga þar sem þeir sterku hafa jafnan undirtökin. Þetta er varhugaverð þróun fyrir smærri ríki þar sem almennt er talið að þau njóti skjóls frá ægivaldi stærri ríkja innan vébanda fjölþjóðlegrar samvinnu. Afturhald og þjóðernispólitískar hugmyndir sem birtast í ólíkum myndum frá einu ríki til annars eru að verða meira áberandi en áður. Þessir straumar hafa einnig borist til Íslands. Við höfum nú þegar fundið fyrir þeim í umræðum um þriðja orkupakkann og tortryggni gagnvart EES samningnum, útlendinga, í umræðum um þungunarrof, innflutning á fersku kjöti og svo fá eitt sé nefnt.
Valkostir Íslands
Í náinni framtíð blasir við að við Íslendingar munum eiga tvo kosti, komumst við að þeirri niðurstöðu að æskilegt sé að treysta stöðu landsins enn frekar í alþjóðlegu samhengi. Annars vegar að taka upp þéttara samband við Bretland og Bandaríkin og fylgja þeim eftir í gerð tvíhliða fríverslunarsamninga, sem geta verið mun grynnri og umfangsminni en þeir samningar sem við gerum í gegnum EES. Ef þessi leið yrði valin hefði það í för með sér að við myndum yfirgefa innri markað Evrópu líkt og Bretar, sem hefði í för með sér grundvallarbreytingar með tilheyrandi röskun á atvinnu- og viðskiptalífi.
Hins vegar gætum við stigið skrefið í átt að fullri aðild að Evrópusambandinu og tryggt okkur þannig sæti við borðið með þeim áhrifum sem það veitir. Við þekkjum vel í gegnum farsælt samstarf okkar í NATO að röddin við borðið heyrist og skiptir máli. Að velja fyrri kostinn þýðir ekki að við getum ekki ræktað góð samskipti við Evrópu. Á sama hátt og full aðild að Evrópusambandinu mun ekki þrengja kosti landsins til að halda áfram góðum samskiptum við Breta og Bandaríkjamenn. Eitt útilokar ekki annað. Stóra spurningin er bara sú hvor leiðin svarar betur heildarhagsmunum og markmiðum íslenskrar þjóðar.
Nauðsynleg kortlagning
Það er brýnt að kortleggja stöðu Íslands og áskoranir í ljósi breyttrar heimsmyndar og nýrra verkefna sem við munum þurfa að takast á við á næstu árum. Mikilvægt er að meta að hvaða marki Ísland getur sem best tryggt hagsmuni sína í þeirri fjölþjóðlegu samvinnu sem það tekur þátt í og stendur til boða, eins og vestrænu varnarsamstarfi, efnahagssamstarfi, Norðurlandasamvinnu, Norðurskautssamvinnu og öðru svæðisbundnu samstarfi. Í því skyni lögðu nokkrir þingmenn mismunandi flokka fram þingsályktun í síðustu viku með það fyrir augum að fela utanríkisráðherra í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis að skipa nefnd sérfræðinga sem falið verði að vinna úttekt á stöðu Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu þar sem mat verði lagt á hvernig styrkja megi stöðu Íslands á alþjóðavettvangi til framtíðar. Lagt er til að nefndin skili úttekt til ráðherra fyrir lok janúar 2021, hún verði gerð opinber og ráðherra flytji skýrslu um hana á vorþingi 2021.
Tillagan gegn vaxandi einangrunarhyggja
Síðustu dagar í þinginu hafa sýnt okkur fram á að flokkur afturhalds og einangrunarhyggju hikar ekki við að nota stöðu Íslands í fjölþjóðasamstarfi sem skiptimynt í innanlandspólitík og í þágu sérhagsmuna. Ríkisstjórnin spilar síðan með og umgengst skuldbindingar Íslands í alþjóðasamstarfi af miklu kæruleysi. Slík tækifærismennska er ólíðandi og ógn við dýrmæta framtíðarhagsmuni Íslands í alþjóðasamstarfi. Meðal annars þess vegna er kortlagning á stöðu Íslands og hagsmunum okkar í fjölþjóðlegu samstarfi brýnt skref gegn framgangi hvers konar popúlisma og einangrunarhyggju. Þeir fjölþjóðasamningar sem undir eru hafa fært okkur lífsgæði og tækifæri sem nær óhugsandi væri að vera án. Mikilvægt er í breyttri veröld að við vinnum heimavinnuna okkar sem fyrst og treystum þannig stöðu Íslands og valkosti til framtíðar. Þannig getum við staðið vörð um frjálst, opið og alþjóðlegt samfélag.
Höfundur er formaður Viðreisnar.