Afstaða íslenskra stjórnvalda gegn fólki á flótta hefur harðnað mjög á síðustu árum. Það skýtur skökku við þegar barátta gegn þeim ógöngu sem mannkynið hefur komið sér í er á ábyrgð allra jarðarbúa; líka Íslendinga.
Fátækt, stríð og hamfarahlýnun eru allt ástæður þess að fólk flýr heimkynni sín. Mörgum eru það þyngstu skrefin sem stigin eru um ævina. Fæstir foreldrar leggja í hættulega óvissuför með börn sín nema brýn hætta steðji að eða lífið sjálft liggi við. Mjög lítill hluti þessa fólks kemur hingað til okkar og þráir öryggi fyrir börnin sín í því friðsæla, jafna og ríka samfélagi, sem leiðtogar þjóðarinnar guma svo af á alþjóðavettvangi.
Ríkisstjórninni ber engin skylda að vísa frá börnum í leit að öryggi og vernd. Hún velur aftur á móti að gera það. Bara á þessu ári hefur 75 börnum verið neitað um alþjóðlega vernd - þar á meðal þeim Mahdi, Ali, Zaineb og Amir sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum að undanförnu, og á að senda út í óvissu og óöryggi til Grikklands. Við getum að sjálfsögðu valið að veita þessum börnum, og öðrum börnum í sömu stöðu, vernd.
Nú segist ráðherra vilja endurskoða framkvæmd útlendingalaganna þegar kemur að börnum - en hversu mörgum börnum ætlar ríkisstjórnin að vísa héðan burt á meðan hún skipar enn eina nefndina? Hvernig hjálpar það þeim áhyggjufullu börnum sem eiga nú yfir höfði sér lögregluheimsókn?
Í frumvarpi sem ríkisstjórnin ræddi á fundi þann 2. apríl og lagt var fyrir Alþingi nokkrum dögum síðar, liggur fyrir að eigi að herða útlendingalöggjöfina - þrátt fyrir forsæti flokks með yfirlýsta stefnu um mannúðlegri mótttöku fleira fólks á flótta. Þá á að þrengja enn frekar að réttindum fólks í leit að alþjóðlegri vernd og auðvelda jafnvel brottvísanir til landa eins og Grikklands.
Það er í raun sárara en tárum taki ef ekki hefur þurft nema rúm hundrað ár fyrir íbúa eins ríkasta lands í heimi að gleyma því að Íslendingar sjálfir flúðu í þúsundatali vestur um heim. Þessum nöturlega kafla Íslandssögunnar gerir Halldór Laxnes skil í Brekkukotsannál og lætur sögumann bókarinnar Álfgrím m.a. segja þessi orð:
„Í það mund sem ég var að verða til, þá var þar í kotinu mikil örtröð af því fólki sem nú á dögum heitir flóttamenn; það er að flýa land; það leggur á stað með tárum úr heimkynnum sínum og ættbygð af því svo illa er að því búið heimafyrir að börn þess ná ekki þroska heldur deya.“
Þessi orð eru vissulega upp úr skáldsögu en lýsa þó nöprum veruleika þess tíma á Íslandi.
Þau nísta inn að beini, ekki síst vegna þess að það er svo stutt síðan forfeður okkar, jafnvel afar og ömmur, gátu almennt ekki tryggt börnum sínum öryggi og mikil óvissa var um hvort þau kæmust yfirhöfuð á legg.
Það er aumt ef ríkisstjórn þjóðar, sem bjó við slíkar aðstæður fyrir örfáum áratugum, kýs að vísa börnum, sem jafnvel hafa myndað hér tengsl og fest rætur, út í fullkomið óöryggi. Það er hneisa sem ríkisstjórnin ber auðvitað ábyrgð á en kemur þó óorði á alla þjóðina.
Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.