Árið 2006 var stórmyndin 300 frumsýnd, byggð á samnefndum teiknimyndasögum. Í stuttu máli fjallar myndin um 300 manna hóp fáklæddra og vöðvastæltra Spartverja, með Leonídas konung (Gerard Butler) í fararbroddi, sem þurfa að takast á við hið ómögulega verkerfni að halda aftur af innrásarher 300 þúsund Persa.
Margir virðast telja að vaxtarfyrirtæki sem hafa hug á því að fara á First North markaðinn standi frammi fyrir svipuðum ómöguleika, í tengslum við annars konar 300 manna hóp. Í þeirra tilviki er aftur á móti ekki um að ræða hermenn á leið í orrustu upp á líf og dauða heldur þá 300 aðila sem Nasdaq gerir kröfu um að séu hluthafar í fyrirtæki við skráningu þess á First North (vægari krafa er reyndar gerð til fyrirtækja sem hafa gert samning um viðskiptavakt).
Fyrirliggjandi gögn og upplýsingar virðast, blessunarlega, ekki styðja við þessa hræðslu. Frá hruni hafa 14 almenn útboð verið haldin á Íslandi og fjöldi aðila sem sóst hefur eftir að kaupa verið frá ríflega fimm hundruð aðilum og upp í tæplega átta þúsund. Þar á meðal eru fyrirtæki eins og Icelandair Group og Hagar, sem ruddu brautina með afar vel heppnuðum útboðum eftir hrun – þegar traust á hlutabréfamörkuðum var í algjöru lágmarki og margir voru, eðlilega, efins um þátttöku almennings.
Þrátt fyrir mikinn áhuga almennings á útboðum má segja að fæst þeirra fyrirtækja sem hafa haldið almenn útboð eftir hrun teljast til vaxtarfyrirtækja, sem er sá flokkur fjárfestinga sem höfðar einna mest til almennings.
Vöxtur hlutabréfahópfjármögnunar (e. equity crowdfunding) á heimsvísu og ævintýralegur uppgangur First North markaðarins í Stokkhólmi bendir til þess að það er að verða ákveðin vitundarvakning um að nú, sem endranær, geti verið mikil tækifæri fyrir spennandi vaxtarfyrirtæki í því að líta á almenning sem mögulegan samstarfsaðila á vegferð sinni.
Tækifærin virðast ekki síst vera til staðar hér á landi. Í könnun sem Gallup framkvæmdi árið 2018 kom m.a. fram að 28% heimila reyndust ósammála því að kaup á verðbréfum og hlutabréfum væru of áhættusöm fjárfesting fyrir þau. Sama könnun leiddi jafnframt í ljós að 49% heimila töldu sig geta safnað „svolitlu sparifé“ og 14% „talsverðu sparifé“. Þrátt fyrir að leiða megi að því líkum að afstaða almennings hafi breyst að einhverju leyti, samhliða kólnun í hagkerfinu, er engu að síður um ljóst að um talsvert fjármagn er að ræða og mikil, því sem næst ónýtt, tækifæri.
Ólíkt þeim vanda sem Gerard Butler og félagar stóðu frammi fyrir í kvikmyndinni 300 þarfnast skráning á First North engra blóðsúthellinga og kröfurnar sem gerðar eru við skráningu eru í flestum tilfellum vel viðráðanlegar. Skráningarferlið getur vissulega tekið á, en skilar sér í betra skipulagi og bættum forsendum fyrir traustum rekstri.
Til þess að einfalda fyrirtækjum að meta stöðuna eða taka stökkið hefur Nasdaq, ásamt samstarfsaðilum, að auki boðið upp á átta mánaða námskeið, First North – næsta skref, um flest allt sem við kemur skráningarferlinu, þeim að kostnaðarlausu og án skuldbindingar. Skráning fyrir komandi vetur stendur nú yfir og eru áhugasamir stjórnendur hvattir til að hafa samband við undirritaðan (baldur.thorlacius@nasdaq.com).
Hvað kröfuna um 300 hluthafa varðar ættu fyrirtæki frekar að líta á hana sem tækifæri en hindrun. Tækifæri til þess að afla sér fjármagns frá þeim hópi fjárfesta sem hefur hvað mestan áhuga á spennandi vaxtarfyrirtækjum. Tækifæri til þess koma sér á kortið og blása til sóknar. Tækifæri til þess að brúa bilið milli atvinnulífs og almennings. Tækifæri til þess að nýta sér skráninguna til fulls og þann sýnleika sem felst í að vera á markaði.