Yfir hásumarið fer borgarráð með afgreiðsluheimildir borgarstjórnar sem ekki fundar í júlí og ágúst . Þetta fyrirkomulag er til þess gert að afgreiðsla mála innan borgarkerfisins tefjist ekki. Á sumrin eru það eru því einna helst skipulagsmál sem eru fyrirferðamikil á fundum borgarráðs. Þrjú mál sem nokkuð hafa verið í almennri umræðu voru lögð fyrir borgarráð í síðustu viku en málin eru á ólíkum skipulagsstigum.
Ný byggð mun rísa í Furugerði 23 en búið er að auglýsa skipulagið og taka tillit til umsagna og ábendinga. Þá var deiliskipulag fyrir svæðið við Stýrimannaskólann samþykkt til auglýsingar en nýtt skipulag verndar, bæði Saltfiskmóann og Vatnshólinn og þar gerð græn svæði auk þess sem skipulögð er lágstemmd byggð á svæðinu þar sem m.a. eru fyrirhugaðar íbúðir fyrir eldri borgara og stúdenta.
Græn og framsýn uppbygging við Stekkjabakka
Þriðja og líklega stærsta málið er þróun svæðis við Stekkjabakkann sem liggur ofna við Elliðaárdalinn. Þar er um að ræða afar jákvæða og græna uppbyggingu. Sjálfstæðisflokkurinn fer nú mikinn í tengslum við það mál og reynir af öllum mætti að slá ryki í augu fólks, t.d. með yfirlýsingum um flýtimeðferð í borgarráði og óvönduð vinnubrögð. Slíkar upphrópanir eru langt frá staðreyndum málsins. Þetta nýja skipulag hefur verið í vinnslu í nokkur ár og búið að auglýsa tillöguna vel. Haldinn var afar vel sóttur fundur með íbúum, tekið var við mörgum ábendingum og umsögnum, þeim svarað og tekið tillit til þeirra eins og við á. Nákvæmlega eins og vinna við deiliskipulag fer almennt fram. Hróp og köll um annað eru bara til þess fallin að draga athyglina frá þeirri góðu uppbyggingu sem þarna mun verða.
Deiliskipulagið byggir á grænni og sjálfbærri hugmyndafræði. Um er að ræða gróðurhvelfingar þar sem nýttur er jarðvarmi til að skapa ákveðna Miðjarðarhafsstemningu og fjölbreytta upplifun í fjölskylduvænu umhverfi fyrir alla aldurshópa, svo sem kaffihús og markaðstorg þar sem m.a. verður hægt að kaupa ferskar matjurtir sem ræktaðar verða á staðnum. Þá verður aðstaða fyrir kynningar og móttöku hópa, t.d. frá skólum, leikskólum og vinnustöðum.
Þessi uppbygging er í anda þess sem margir íbúar Breiðholts og Árbæjar hafa einmitt kallað eftir. Að halda í græn svæði en einnig stuðla að auknu mannlífi með aukinni þjónustu, salernisaðstöðu og stöðum til að hittast á og eiga góðar stundir með fjölskyldu og vinum.
Þarna verður hvorki ljósmengun né hávaðamengun. Elliðaárnar verða ekki mengaðar og lífríki þeirra ekki sett í hættu. Þarna verður ekki bílaumferð og ekkert rask á náttúru- eða söguminjum. Öll uppbygging mun fara fram á óræktuðu, röskuðu svæði í útjaðri Elliðaárdalsins sem fáir hafa getað notið. Uppbyggingin sem framundan er mun einfaldlega styðja við dalinn sem náttúruparadís, ólíkt því sem upphrópanir afturhaldsins gefa til kynna. Allar þessar staðreyndir koma fram í gögnum málsins sem ég hvet áhugasama til að skoða hér.
Einnig hefur verið tekið saman fræðandi listi af spurningum og svörum.
Styðjum við nýja ferðamáta
Borgarráð samþykkti einnig verklagsreglur vegna starfsemi stöðvalausra hjóla- og rafhjólaleiga innan Reykjavíkur. Að undanförnu hefur orðið mikil aukning á rafhlaupahjólum í borgum nágrannalanda okkar og eru hjólin orðinn mikilvægur þáttur í samgöngukerfi þessara borga. Rafhjól er handhægur og þægilegur ferðamáti sem flestir ráða við og ljóst að þau nýtast vel sem samgöngubót, t.d. síðasta spölinn heim og að heiman. Við viljum vera tilbúin fyrir nýjungar í samgöngum og tilgangur þessara reglna er því fyrst og fremst að tryggja gagnsætt og opið verklag þegar þar að kemur enda vonumst til að sjá þennan nýja og þægilega ferðamáta ná fótfestu hér í borg.
Borgarhátíðir 2020-2022 - atvinnulífið fær fulltrúa í forvali
Það er deginum ljósara að borgarhátíðir setja mikinn svip á mannlíf borgarinnar og hafa mikil og góð áhrif á borgina okkar. Sem dæmi má nefna Menningarnótt, Hinsegin daga, Reykjavík Film Festival og Reykjavík Airwaves en allar hafa þessar hátíðir sett sitt mark á borgarlífið á undanförnum árum og haft gríðarleg áhrif á mannlíf og menningu borgarinnar. Samningar sem gerðir voru um borgarhátíðir árið 2017 renna út á þessu ári og að undanförnu hefur því verið unnið að undirbúningi þess hvernig standa skuli að vali borgarhátíða fyrir árin 2020-2022 en á fundi borgarráðs í síðustu viku voru samþykktar nýjar reglur um borgarhátíðir . Ákveðið var að fá inn í faghóp um borgarhátíðir fulltrúa frá atvinnulífinu þ.e. einn fulltrúa frá Samtökum verslunar og þjónustu ásamt Samtökum ferðaþjónustunnar. Þessi breyting er í samræmi við áherslur okkar um að tengja atvinnulífið betur inn í umgjörð og skipulag borgarinnar. Það verður fróðlegt að fylgjast með störfum faghópsins og gaman að fylgjast með áframhaldandi jákvæðum áhrifum borgarhátíðanna okkar á iðandi mannlíf Reykjavíkur.
Hér hefur einungis verið fjallað um nokkur af um 40 málum sem komu á inn á borð borgarráðs í síðustu viku en þau sem vilja fylgjast með helstu ákvörðunum borgarinnar geta gert það hér.