Í umræðunni undanfarið hefur ítrekað verið látið að því liggja að innleiðing svonefnds orkupakka þrjú feli það í sér að íslenska ríkið verði skuldbundið til þess að leyfa lagningu sæstrengs um flutning raforku til annars ríkis. Jafnframt er gefið í skyn að synjun orkupakkans jafngildi ákvörðun um að sæstrengur verði ekki lagður.
Orkupakkinn fjallar ekki um sæstreng
Hið rétta er að orkupakki þrjú fjallar ekki með neinum hætti um skyldu ríkjanna til að koma á eða leyfa samtengingu um flutning orku sín á milli. Þær yfirþjóðlegu heimildir ESA/ACER, sem lögfræðinga greinir vissulega á um hvort samræmist íslenskri stjórnskipun, ná þannig ótvírætt ekki til ákvarðana um hvort byggja skuli ný grunnvirki sem fela í sér tengingu orkumarkaða tveggja eða fleiri ríkja.
Það er því einungis við þær aðstæður að slík tenging liggur þegar fyrir að þessar heimildir verða virkar. Stjórnskipuleg álitamál lúta að þessum (yfirþjóðlegu) heimildum en ekki að hugsanlegri skyldu til að leyfa sæstreng. Um þetta tel ég t.d. að við Stefán Már Stefánsson og Friðrik Hirst séum sammála þótt annað hafi verið gefið í skyn um efni álitsgerðar þeirra.
Skylda samkvæmt almennum reglum EES?
Ef skylda hvílir á íslenska ríkinu til að heimila lagningu sæstrengs getur sú skylda ekki leitt af orkupakkanum. Koma þá til skoðunar almennar reglur EES-samningsins, einkum 11. og 12. gr. samningsins sem banna magntakmarkanir á inn- og útflutningi “svo og allar ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif”.
Þetta eru reglur sem við höfum verið bundin af í röskan aldarfjórðum án þess að því hafi nokkur tíma verið hreyft, af eftirlitsstofnunum eða einkaaðilum, að í þeim fælist einhver skylda til að heimila lagningu sæstrengs og er hugmyndin um streng þó ekki ný af nálinni.
Ekkert aðildarríki ESB lítur svo á að í sambærilegum reglum sáttmála ESB felist téð skylda gagnvart þeim. Af reglum ESB sjálfs verður einnig dregin ályktun um að þetta atriði sé ótvírætt á forræði ríkjanna. Gildir þá einu þótt styrking orkunets Evrópu (þ.á m. með samtenglum milli ríkja) sé, almennt séð, í samræmi við orkustefnu ESB, sbr. sbr. einkum reglugerð nr. 347/2013/ESB um viðmiðunarreglur fyrir sameiginlega orkuinnviði Evrópu.
Fyrir skyldukenningunni, sem raunar virðist bundin við Ísland og ákveðna hluta Noregs, finnst heldur engin stoð í dómum Evrópudómstólsins, EFTA-dómstólsins eða gögnum frá Framkvæmdastjórn ESB. Þvert á móti hefur yfirmaður orkumála hjá framkvæmdastjórninni áréttað gagnvart Íslandi að ákvörðun um þetta atriði sé og verði hjá ríkinu. Við þetta bætist að öll EFTA-ríkin hafa lýst sömu afstöðu í sameiginlegu EES-nefndinni.
Skylda myndi heyra til stórtíðinda
Mér er ekki kunnugt um neinn fræðimann á sviði evrópuréttar sem heldur því fram að í ofangreindum reglum EES-samningsins eða sambærilegum reglum ESB-réttar felist hugsanleg skylda aðildarríkjanna til að heimila lagningu samtengils, svo sem sæstrengs. Það myndi augljóslega sæta stórtíðindum ef einhver af stofnunum EES/ESB myndi snúa við blaðinu að þessu leyti.
Vafalaust myndu Íslendingar, og væntanlega einnig Norðmenn, íhuga vandlega sinn gang í EES-samstarfinu ef svo afar ólíklega færi að EFTA-dómstóllinn féllist á slíkan málflutning í máli sem ESA hefði höfðað gegn Íslandi eða vísað hefði verið til dómstólsins af hálfu íslenskra dómstóla. Um slíka aðstöðu og möguleika Íslands í því sambandi væri auðvitað hægt að skeggræða lengi. Hér verður látið nægja að benda á að slík niðurstaða myndi aldrei hafa bein eða milliliðalaus áhrif að íslenskum rétti.
Á forræði Alþingis
Samhliða innleiðingu orkupakkans stendur til að slá því föstu í orkulögum að ákvörðun um sæstreng verði ekki tekin án samþykkis Alþingis. Með innleiðingu orkupakkans væri því ekki mörkuð sú stefna af hálfu íslenskra stjórnvalda að heimila lagningu sæstrengs. Án tillits til þessarar breytingar er raunar erfitt að sjá fyrir sér að unnt sé að heimila lagningu sæstrengs án þess að hugað sé lagaumgjörð slíks verkefnis en það krefst einnig aðkomu Alþingis.
Spurningin um hvort ráðast eigi í lagningu sæstrengs, eða heimila slíka framkvæmd, er því mál sem Íslendingar eiga við sjálfa sig og eigin stjórnarstofnanir, einkum Alþingi, en ekki stofnanir í Evrópu.
Synjun við orkupakkanum engin trygging
Eins og staðan er í dag er líklegast að ákvörðun um lagningu sæstrengs hefði ekkert með EES-reglur gera enda er Bretland á leið úr ESB svo sem kunnugt er. Þær stjórnunarheimildir gagnvart samtengli milli ríkja sem orkupakkinn felur í sér eru því, þegar af þessum ástæðum, afar ólíklegar til að koma nokkur tíma til framkvæmda gagnvart íslenskum hagsmunum. Öllu líklegra er, ef til lagningar sæstrengs kæmi, að um slíkar heimildir yrði samið á grundvelli tvíhliða samnings við Bretland.
Hvað sem þessu líður ætti öllum að vera ljóst að ákvörðun um lagningu sæstrengs getur verið tekin hvort heldur orkupakki þrjú er innleiddur eða ekki og hvort heldur Bretland verður áfram í ESB eða ekki. Þetta virðist þó fara verulega á milli mála í umræðunni um orkupakkann.
Hver og einn á rétt á því að hafa sína skoðun á því hvort rétt sé að heimila lagningu sæstrengs um flutning raforku til og frá Íslandi svo og taka þátt í umræðu um það efni. Hver og einn á einnig rétt á því að hafa sína skoðun á því hvort orkupakki þrjú sé samþykktur eða innleiðingu hans synjað með beinum og óbeinum afleiðingum fyrir þátttöku Íslands í EES-samstarfinu sem sumir telja e.t.v hvort sem er að tímabært sé að endurskoða frá grunni.
Það er hins vegar villandi að láta að því liggja að synjun við innleiðingu orkupakka þrjú veiti einhverja tryggingu gagnvart ákvörðunum Alþingis um heimild til lagningar sæstrengs.
Höfundur er lögfræðingur.