Sex einstaklingar skrifa að jafnaði tvær greinar á viku í íslensku dagblöðin tvö, Fréttablaðið og Morgunblaðið, og virðast hafa vit á flestu, að ógleymdum hinum sjöunda blekbera – fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins, sem í vikulegu Reykjavíkurbréfi og fimm daga í viku sproksetur fólk og snýr út úr orðum andstæðinganna í Staksteinum.
Í umræðuþáttum útvarps- og sjónvarpsstöðva láta spekingar síðan móðan mása. Í þessum umræðuþáttum eru kallaðir til orðvísir doktorar í stjórnmálafræðum, sem spá fyrir um úrslit kosninga víða um lönd og um ókomna framtíð, en viðast ekki þekkja orð danska heimspekingsins og StormP. sem segir: „Det er vanskelig at spå, særlig om fremtiden.“
Eðlilegt er að við, sem láta í okkur heyran – viljum tjá okkur opinberlega, séum minnug orð Hávamála að afla sér þekkingar, sýna hófsemi og kunna sig því málugur maður verður sér oft til skammar – eða eins og þar stendur:
Ærna mælir,
sá er æva þegir,
staðlausa stafi;
hraðmælt tunga,
nema haldendur eigi,
oft sér ógott um gelur.
Í Fyrstu málfræðiritgerð Snorra-Eddu frá því um 1150 segir, að málróf sé gefið mörgum, en spekin fám. Prédikarinn leggur einnig áherslu á, að menn séu orðvarir: „Vertu ekki of munnhvatur og hjarta þitt hraði sér ekki að mæla orð frammi fyrir Guði“ eða „Varir heimskingjans vinna honum tjón. Fyrstu orðin fram úr honum eru heimska, og endir á ræðu hans er ill flónska. Allt er þetta því gamall sannleikur þar sem allt ber að sama brunni: verum varkár, gætum orða okkar, tökum tillit til annarra.
Austurríski heimspekingurinn Ludwig Wittgenstein [1889-1951] segir: „Allt, sem á annað borð er unnt að hugsa, er unnt að hugsa á skýran hátt. Allt, sem á annað borð er unnt að segja, er unnnt að segja á skýran hátt” – eða á frummálinu þýsku: „Alles was überhaupt gedacht werden kann, kann klar gedacht werden. Alles was sich aussprechen lässt, lässt sich klar aussprechen.“
Tímabilið frá því Hávamál, Völuspá, helgar þýðingar, fornaldarsögur Norðurlanda, Íslendingasögur og Sturlunga saga voru færðar í letur á Íslandi, hefur verið kallað „gullöld Íslendinga“. Nú hafa gárungar kallað samtíð okkar „bullöld Íslendinga. Látum í guðs nafni þessi orð gárunganna ekki rætast.