Nýlega hefur verið til umfjöllunar mál Momo Hayashi frá Japan, en hún fékk þau skilaboð frá Útlendingastofnun nýlega að henni skyldi vísað úr landi þrátt fyrir að hafa verið hérlendis í fjögur ár, hafa lært tungumálið og vera búin að skjóta niður rótum, enda augljós metnaður hennar að búa hér, landi og þjóð til heilla.
Eðlilega eru margir hneykslaðir og finnst þetta fáránlegt. Þá er fólk gjarnt á að kenna Útlendingastofnun eða Vinnumálastofnun um. En vandinn er djúpstæðari en svo og virðist erfitt að koma honum á framfæri utan þess hóps sem reglulega fæst við útlendingamál, sér í lagi málefni hælisleitenda.
Vandinn er stefna Íslands í útlendingamálum.
Stefna eða stefnuleysi
Sumir myndu reyndar segja að vandinn væri stefnuleysi. Stefnan er hvergi skrifuð niður, heldur má einungis lesa hana úr lögum og framkvæmd. Sú stefna er í einu orði mannfjandleg eins og útlendingastefnur hafa ríka tilhneigingu til að verða; enda um að ræða löggjöf sérstaklega hannaða til að skerða frelsi fólks og koma í veg fyrir að það láti drauma sína rætast, að því er virðist vegna þess að frelsi og draumar útlendinga hljóti að vera í andstöðu við hagsmuni ríkisins.
Þó verður að nefna áhugaverða staðreynd. U.þ.b. 7% mannkyns eða sirka 500 milljón manns mega koma hingað til lands í dag og setjast að án þess að spyrja kóng eða prest. Það eru ríkisborgarar Evrópusambandsins og EES-ríkja. Hver einn og einasti Grikki og Ítali gæti flutt hingað í dag. Miklar áhyggjur voru af því, þegar EES-samningurinn var samþykktur, að Ítalir kæmu hingað í stórum stíl og yrðu innviðum landsins, tungu og menningu þess ofviða. Augljóslega reyndust þær áhyggjur óþarfar.
En síðan þarf að nefna aðra, jafnvel enn áhugaverðari staðreynd, sem er sú, að komir þú frá svokölluðu „þriðja ríki“, þ.e. ríki sem er hvorki Ísland sjálft né EES-ríki, að þá er meginreglan sú að þú mátt bara ekkert setjast hérna að.
Jafnvel þótt þú talir íslensku reiprennandi. Jafnvel þótt þú hafir aldrei í lífinu brotið neitt af þér, hvorki hér né annars staðar. Jafnvel þótt þú hafir örugga vinnu og getir sýnt fram á að hafa borgað himinháa skatta í heimalandi og jafnvel þótt þú hafir verið hér í námi í fjögur ár. Jafnvel þótt þú hafir eignast urmull af vinum sem vonuðu að þeir gætu haft meiri tíma með þér og munu sakna þín þegar þér verður sparkað úr landi.
Meðvituð ákvörðun, ekki mistök
Þetta eru ekki einhver mistök í framkvæmd heldur hvernig íslensk yfirvöld hafa ákveðið að hlutirnir skuli vera. Meginreglan er sú að útlendingar eigi að vera í útlöndum. Síðan eru undantekningar. Þú mátt t.d. góðfúslega búa hérna ef þú ert í hjónabandi með Íslendingi, eða ef þú ert sérfræðingur í vinnu hjá fyrirtæki sem telur sérfræðiþekkingu þína ómissandi. Undirritaður hefur hitt tugi manns sem næstum því öllum Íslendingum þætti fráleitt að senda úr landi en mega hins vegar ekki vera hérna vegna þess að þeir eru ekki giftir Íslendingi og eru ekki háskólamenntaðir sérfræðingar. Bandaríkjamenn sem koma hingað gagngert til að læra tungumálið og kynnast menningu og þjóð, sem dæmi. Þeir skulu bara gjöra svo vel að verða ástfangnir af einhverjum sem er til í að giftast þeim, eða vera með ómissandi sérfræðiþekkingu sem íslenskt fyrirtæki berst á hæl og hnakka fyrir að fá að njóta.
Undirritaður er jafn hneykslaður og aðrir á því að Momo hafi verið hafnað um dvalarleyfi, en er hinsvegar ekki á neinn hátt hissa. Þvert á móti kæmi það undirrituðum verulega á óvart ef einstaklingur í sömu stöðu og Momo fengi hér landvistarleyfi, vegna þess að Ísland hefur einfaldlega ákveðið að fólk í hennar stöðu skuli vera annars staðar en á Íslandi.
Í stað þess að fólk verði alltaf reitt og hissa einungis þegar tiltekin mál fólks fá náð og blessun fjölmiðla væri ágætt ef innbyggður stuðningur við hina órituðu og mannfjandlegu útlendingastefnu fengi sjálf meiri gagnrýni. Þessi innbyggði stuðningur byggir á tveimur ranghugmyndum. Önnur er sú að til þess að heimila fólki í meira mæli að setjast hér að þurfi að hleypa öllum í heiminum inn án nokkurra skilyrða yfirhöfuð. Það er rangt. Hin er sú að fólk sé í eðli sínu einhvers konar byrði á samfélaginu. Það er líka rangt. Samfélög eru ekkert nema samansöfn af fólki og því fleira fólk, því stærra samfélag, því fleiri fyrirtæki, því meiri eftirspurn og meira framboð, fleira starfsfólk og fleiri atvinnutækifæri. Því fleiri skattgreiðendur.
Kaldar kveðjur
Við hefðum gott af fleira fólki. Við græðum bæði menningarlega og efnahagslega á fólki sem sér nógu mikið spunnið í eldfjall úti í hafsauga, sem í þokkabót heitir „Ís-land“, til að það yfirgefi heimaland sitt og hefji líf á nýjum stað með öllum þeim þrótti sem slíkt krefst. Þetta fólk er okkur til tekna, bæði menningarlega og efnahagslega og við ættum að þakka fyrir hversu margt fólk vill búa hérna.
Í það minnsta mættum við reka það sjaldnar úr landi.
Enginn sem þekkir útlendingamál er hissa á sögu Momo Hayashi. Það eina sem kemur á óvart er hversu stór hluti íslensks samfélags heldur ennþá að Bandaríkjamenn og Japanir sem hingað vilji koma, megi það alveg, ef þeir eru löghlýðnir, duglegir einstaklingar sem axla sína ábyrgð og uppfylla sínar skyldur við samfélagið. Svarið er nei. Þeir mega það bara ekki neitt, og af hverju ekki?
Vegna þess að um leið og talað er um að hleypa fleirum inn byrjar sama gamla gólið um að verið sé að „galopna landamærin“. Nú síðast var það undirritun einhvers sameiginlegs skilnings hjá Sameinuðu Þjóðunum og þar áður voru það nýju útlendingalögin 2016. Hvorugt fól reyndar í sér neitt sérstakt frjálslyndi, en það er önnur saga.
Það merkilega er að þrátt fyrir þessi meintu „galopnu landamæri“ sjáum við hvað eftir annað fréttaumfjöllun um algjörlega fráleitar brottvísanir, jafnt fullorðinna sem barna.
Hvernig stendur á því?
Jú, vegna þess að hin „galopnu landamæri“ eru ímyndunarfyllerí íhaldsafla sem þekkja ekki til raunveruleikans. Raunveruleikinn er að við erum með mjög stranga útlendingastefnu sem reynist algjör martröð gagnvart fullkomlega heiðvirðu, saklausu fólki sem Íslendingar hefðu hag af því að hafa í sínu liði.
Meiri hag en af taugaveiklun þeirra sem mesta kappið leggja á að veifa okkar fallega fána.
Sem, vel á minnst, á betra skilið.
Höfundur er alþingismaður fyrir Pírata.