Orkuskortur er sagður vera annan daginn og hinn daginn rætt um sæstreng.
Er furða þótt almenningur og jafnvel atvinnumenn í stjórnmálum geti ruglast í ríminu, þegar skilaboð orkufursta landsins eru svona misvísandi. Mannvitsbrekkur Landsvirkjunar og Orkuveitunnar segja að í landinu sé næg orka og ekki þurfi að hafa áhyggjur af rafvæðingu samgangnanna í landinu.
Síðan kemur Landsnets gæinn og „telur líkur á raforkuskorti innan þriggja ára, miðað við áætlaða notkun almennings og stórnotenda. Langstærsti hluti raforkunotkunar á Íslandi fer til stóriðju, eða um 83%“. Þetta hlutfall rokkar reyndar frá 83% og upp í 90% eftir því segir frá.
Hvað er að gerast?
Sagt er í nýrri glans skýrslu frá „Landsneti“ orðrétt:
„Gagnaverum hefur fjölgað hratt á Íslandi undanfarin ár. Nýtt gagnaver Etix hóf störf á Blönduósi fyrr á þessu ári og verið er að reisa eitt stærsta gagnaver landsins við Korputorg í Reykjavík.
Orkuþörf þess verður á við öll heimili landsins samanlagt. Helsta verkefni gagnavera á Íslandi er svokölluð HPC-vinnsla, sem er mestmegnis Bitcoin-gröftur, sem krefst mikillar orkunotkunar en minni gagnaflutnings“.
Hvaða aðilar hafa umboð til þess að selja eitthvað sem ekki er til á Íslandi. Þ.e.a.s. raforku sem ekki liggur á lausu. Raforku sem landsmenn þurfa að nota. Almenningur hefur ekki áhuga á að byggð séu fleiri raforkuver á Íslandi sem eiga að framleiða rafmagn fyrir útlendinga.
Hvar liggur valdið til að selja raforku sem ekki er til staðar í landinu?
Er þetta ekki farið að minna á Einar Benediktsson sem seldi þúfur og norðurljós?