Það hefur borið nokkuð á umræðu um lausafjárstöðu bankanna (sjá t.d. „Lausafjárstaðan fer enn versnandi“ og „Fái ekki að setja fé í innlán í Seðlabankann“). Í þessari umræðu er ýjað að því að lausafjárstaða bankanna hindri þá frá því að geta búið til þau lán – og þar með peninga – sem þeir annars gætu búið til og er vitnað til, að því er virðist, óútkominnar skýrslu Landsbankans þar sem segir: „Reglur um lausafé eru nú að okkar mati orðnar meira hamlandi fyrir lánavöxt og arðgreiðslur en eiginfjárkröfur.“
Hér er rétt að staldra við. Í fyrsta lagi þurfa bankar ekki lausafé til þess að búa til lán. Því ætti lausafé ekki að vera takmarkandi þáttur við myndun lánsins sjálfs. Í öðru lagi sýna opinberar skýrslur að nægt lausafé er innan bankanna. Og í þriðja lagi eru engin merki sýnileg á markaði sem sýna að nokkur lausfjárskortur sé til staðar.
Útlánamyndun banka er ekki háð lausafjárstöðu þeirra
Það er algengur misskilningur að bankar séu milligönguaðilar milli þeirra sem spara og þeirra sem taka lán. Enginn banki er háður því að nokkur maður leggi sparnað sinn inn í þann banka í formi innláns þegar kemur að útlánaákvörðunum bankans. Helstu seðlabankar heimsins hafa staðfest þetta sem og Alþjóðagreiðslubankinn í Sviss. Eða eins og þýski seðlabankinn orðaði það í apríl 2017: „geta banka til þess að veita lán og búa til peninga hefur ekkert með það að gera hvort hann hafi umfram innlán hjá seðlabankanum eða innlán frá viðskiptavinum.“
Þegar banki veitir lán skrifar hann niður á sinn efnahagsreikning að hann skuldi lántakanum andvirði lánsins. Á sama tíma er ritað niður að lántakinn skuldi bankanum andvirði lánsins. Skuld bankans til lántakans er innlán lántakans í bankanum sem bankinn leyfir lántakanum að nota til að greiða fyrir vörur og þjónustu, þökk sé aðild bankans að greiðslukerfi landsins sem Seðlabanki Íslands rekur og gert er upp með innistæðum banka hjá Seðlabankanum sjálfum.
Lausfjárkröfur eru venjulega uppfylltar með téðum innistæðum banka hjá Seðlabankanum. Þessar innistæður eru aldrei lánaðar út til almennra lántaka, enda er það bókstaflega ekki hægt, heldur eru þær notaðar til þess að tryggja skilvirkni greiðslukerfisins og getu bankanna sjálfra til þess að standa að baki sínum eigin skuldbindingum í íslenskri krónu. Um þetta snúast lausafjárkröfur Seðlabankans.
Eftir að banki hefur búið til útlán og innlán við sína útlánastarfsemi getur það komið upp að hann þurfi á auknum innistæðum hjá Seðlabankanum að halda til að uppfylla lausafjárkröfur Seðlabankans. Hann hefur þrjár leiðir til þess.
Fyrst getur hann reynt að fá almenning til að selja sér lausafé, þ.e. „leggja fé inn í bankann“, sem bankinn kaupir með því að skrifa niður á sinn efnahagsreikning að hann skuldi innlánaeigandanum andvirði innlánsins. Þetta er ódýrasta leiðin, enda eru innlán oft með 0% vexti, og hluti af fullkomlega eðlilegri samkeppni milli banka.
Næstódýrasta leiðin er að fá lánuð innlán annarra banka hjá Seðlabanka Íslands á því sem er kallað millibankamarkaður. Sé mikil lausafjárþurrð getur það skeð að verðlagning, þ.e. vextir, á millibankamarkaði hækki mjög m.v. stýrivexti. Þá er mikil velta á millibankamarkaði merki um lausafjárþurrð.
Dýrast er að fá lánað hjá Seðlabanka Íslands en þegar Seðlabanki Íslands lánar banka er það gert á nákvæmlega sama hátt og þegar banki lánar almennum lántaka: ritað er niður á efnahagsreikning Seðlabankans að hann skuldi bankanum andvirði lánsins í formi innláns hjá Seðlabankanum meðan Seðlabankinn eignast skuld bankans við Seðlabankann.
Það góða er að við getum séð það á opinberum gögnum hvort bankarnir hafi þörf á þessari fjármögnun.
Bankarnir uppfylla kröfur Seðlabankans um lausafjárstöðu
Í nýjustu skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika, sem kom út í apríl, má lesa (bls. 27):„Lausafjárstaða bankanna er áfram vel umfram kröfur Seðlabankans og hefur lítið breyst undanfarið ár. Lausafjárhlutfall í íslenskum krónum hefur lækkað en hækkað í erlendum gjaldmiðlum. Fjármögnun bankanna innanlands var í samræmi við viðskiptaáætlanir þeirra en álag á erlendar útgáfur hækkaði á síðasta ári sem skilaði sér í færri útgáfum erlendis en árin á undan.“
Tvær áhugaverðar myndir má einnig finna í skýrslunni (bls. 31 og 33).
Það sem þessar tvær myndir sýna okkur er að þótt lausar eignir hafi minnkað hjá bönkunum jókst vöxtur útlána milli ára. Ef lægri lausafjárstaða hefur hamlandi áhrif á útlánagetu bankanna ætti þetta vart að geta átt sér stað. Nema sambandið væri ólínulegt og að bankarnir væru komnir að þolmörkum lausafjárhlutfalls síns. En sé svo ætti það að koma fram á millibankamarkaði, í formi hærra vaxtaálags eða mikillar veltu, eða hjá Seðlabankanum í formi aukinna lausafjárlánveitinga til banka.
Engin merki um lausafjárþurrð
Það er auðvelt að fletta upp gögnum um það. Hér má sjá að ekkert er að gerast á millibankamarkaði, þ.e. álagið (REIBOR spread á stýrivexti) er lágt og lítil sem engin velta er til staðar. Bæði er merki um að engin lausafjárskortur sé í bankakerfinu.
Að lokum má sjá hvort bankarnir séu að neyðast til að finna sér lausafé hjá Seðlabanka Íslands, svokölluð lán gegn veði eða REPO viðskipti.
Og svo er ekki: sé notast við mánaðartölur frá Seðlabanka Íslands má sjá að hann hefur ekki veitt bankastofnun lán gegn veði síðan í desember 2012.
Eiginfjárhlutföll eru ekki það sama og lausafjárhlutföll
Það er því ekkert að óttast hvað varðar lausafjárstöðu bankanna í íslenskri krónu, hún er ekki að takmarka útlánagetu þeirra líkt og rætt hefur verið um.
Það sem við ættum að hafa í huga er hvort lausafjárstaða bankanna í erlendri mynt sé góð (stórir gjalddagar eru á árunum 2020 og 2021) og hvort eiginfjárhlutföll bankanna séu hæfileg m.t.t. stöðugleikakrafna og lánagetu, en ólíkt lausafjárkröfum í íslenskri mynt geta eiginfjárhlutföll verið hamlandi fyrir útlánagetu banka.