Það eru liðlega 10 ár frá hruni og við erum mörg sem teljum að enn hafi ekki verið settir nógu traustir öryggisventlar á starfsemi banka og um starfsemi lífeyrissjóðanna.
Oddný Harðardóttir skrifar stuttan pistil í Moggann 12. júlí um hluta málsins en hún er auðvitað stjórnmálamaður sem engan vill styggja að óþörfu og segir m.a.:
„Við verðum að koma í veg fyrir að íslenskur almenningur – skattgreiðendur, ríkissjóður, sparifjáreigendur - fjármagni áhættusömustu bankaviðskiptin. Það kenndi bankahrunið þjóðinni. Að breyta þyrfti bankakerfinu þannig að það þjóni hag almennings en ekki bara þeim sem vilja fá aðgang að sparifé almennings“.
Þetta er auðvitað allt satt og rétt. Almenningur fékk í fangið við bankahrunið gríðarlega upphæðir í krónum talið sem hann átti í erfiðleikum með að gera sér grein fyrir. Bara gatið á ríkissjóði var upp á 216 milljarða. Skattfé almennings var nýtt til að rétta við bankakerfið. Þá er óupptalin þau önnur persónuleg áföll sem almenningur þurfti að bera og ber raunar enn óbætt.
Oddný segir:
„Rót efnahagshrunsins var einkavæðing bankanna. Eftir einkavæðinguna leyfðu stjórnvöld bankakerfinu að vaxa langt út fyrir öll skynsemismörk, héldu Fjármálaeftirlitinu veiku og settu sér „djarfa“ stefnu um land fjármálaviðskipta. Með stuðningi stjórnvalda lögðu nokkrir menn Ísland undir í veðmáli sem tapaðist. Og almenningur bar kostnaðinn“.
Þetta er auðvitað ekki allur sannleikurinn, þetta nær en er fullmikil einföldun. Því við sögu kom auðvitað einnig ákaflega samfélags andstæð stjórnmála stefna (frjálshyggjan) sem hafði gegnsýrt samfélagið og stefnu stjórnvalda frá í byrjun 10. áratugarins.
Fylgifiskur þeirrar stefnu er ólýðræðisleg vinnubrögð ásamt ótrúlegri spillingu er náði hámarki með einkavæðingu ríkisbankanna. Það er enn grasserandi mikil spilling á Íslandi.
Frá því fyrir kosningar 2007 og síðustu misserin fyrir hrun opnaðist upp rækilega fyrir almenningi hversu gríðarlega gegnsýrð þjóðfélagsgerðin var af hvers kyns spillingu og beinlínis af mútu-ómenningu sem gömlu valdaflokkarnir voru oft rækilega flæktir í með sínum erfðar prinsum.
Nú þegar stærsti hluti bankakerfisins er í eigu ríkisins og þriðji bankinn er að mestu kominn í eigu erlendra eigenda eru ekki margar veiðilendur fyrir helstu gróðapunga og víkinga þjóðarinnar nema þá lífeyrissjóðirnir eftir lagabreytingar þær sem ríkisstjórnin 1998 gerði um umgjörð sjóðanna. Sem voru þá allt í einu orðnir hreinir fjárfestingalánasjóðir.
Undanfarnar vikur hefur launafólk séð magnast stríðið um stjórnir lífeyris-sjóðina. Verkalýðshreyfingin hefur tekið stakkaskiptum og nú er ljóst að stærstu verkalýðsfélögin ætla sér að gera hundahreinsun í stjórnum sjóðanna. Með það fyrir augum að breyta lánastefnu sjóðanna og verkefnum þeirra og um leið rýra völd samtaka fjárfesta og samtaka atvinnurekenda yfir sjóðunum.
En atvinnurekendum munar mest um lífeyrissjóð verslunarmanna og starfsgreinasambandsfélaganna. Eitt er víst, að nauðsynlegt er að verja lífeyrissjóðakerfið og að gera það að því samtryggingar- og eftirlaunakerfi er menn höfðu í huga í upphafi innan verkalýðshreyfingarinnar.
Þessar stökur eftir séra Helga Sveinsson bárust mér á netinu:
Þegar sektin sækir að
sálarfriði manna,
flýja þeir oft í felustað
frjálsu góðgerðanna.
Til að öðlast þjóðarþögn
þegar þeir aðra véla,
gefa sumir agnarögn
af því sem þeir stela.