Um marga áratugi voru vinstri menn klofnir í tvær fylkingar. Í kommúnista, sem síðar nefndu sig sósíalista. Og í sósíaldemókrata – jafnaðarmenn. Þessi tvískipting kom í veg fyrir, að annar hvor næði svipuðum áhrifum og systursamtök náðu í nálægum löndum. Þessi sjálfhelda ríkti til síðasta áratugar síðustu aldar. Þá hrundi Berlínarmúrinn. Þá hrundu kommúnistastjórnir Austur-Evrópulanda. Þá þögnuðu allra þær raddir, sem mestu ábyrgðina báru á áratuga langri sundrungu. Þá hurfu deilumálin, sem skipt höfðu sköpum nær alla öldina. Loksins þá sköpuðust tækifæri til þess að leita samstöðu þeirra, sem sundraðir höfðu verið. Til handtaks í stað hnefa. Til árangurs í stað árangursleysis. Ástæðum sundrungar var blásið burtu.
Horft um öxl ...
Þáverandi forysta Alþýðuflokksins var sér meðvituð um þetta tækifæri. Þáverandi forysta Alþýðubandalagsins var það líka. Báðar vildu þær taka höndum saman til þess að grafa gamlan ágreining og ná þeirri vígstöðu á hinum pólitíska vettvangi, sem svo sárt var saknað. Báðar lögðu sig fram þar um. Ágreiningur varð þó ekki að fullu leystur. Sá ágreiningur stóð ekki um neitt, sem áður olli deilum. Ekki um neitt, sem hrundi með Berlínarmúrnum. Hann stóð um þrennt:
- Um arfleifð Alþýðuflokksins um samstarf við íhaldið , sem hófst með ríkisstjórninni, sem kennd var við Stefán Jóhann Strefánsson formann Alþýðuflokksins og mynduð var árið 1947. Undir forystu Alþýðuflokksins voru íhaldsöflin þar leidd til valda. Sá atburður hafði afleiðingar, var ítrekaður og endurtekinn. Óttast var, að sú atburðarás gæti endurvakist. Enda var sá leikur endurtekinn árið 2007 að tilhlutan þáverandi formanns Samfylkingarinnar, sem raunar hafði engan þátt tekið í stofnun Samfylkingarinnar. Afleiðingin varð sú, að í stað þess að njóta allt að 30% stuðnings meðal þjóðarinnar eins og var fyrir daga hrunsstjórnarinnar féllu allir frambjóðendur flokksins í öllum kjördæmum árið 2016 nema einn – frambjóðandinn á Norðurlandi eystra. Núverandi formaður Samfylkingarinnar. Á atkvæðum hans hélt flokkurinn lífi. Annars hefði Samfylkingin horfið af þjóðmálavettvangi.
- Um þegar Ísland fyrir tilstilli Alþýðuflokksins og með stuðningi hluta Sjálfstæðisflokksins samþykkti aðildina að EES árið 1994 í andstöðu við bæði hluta Framsóknarflokksins og þingmenn Alþýðubandalagsins. Tiltekinn hluti fylgismanna Alþýðubandalagsins var svo mikið andstæður þeirri ákvörðun sem og öllu samneyti við Evrópusambandið að þeir gátu ekki hugsað sér að ganga til minnstu samvinnu við þá, sem aðhyllst höfðu Evrópuhugsjónina.
- Um aðildina að NATO og að varnarsamstarfi vestrænna ríkja. Hrun Berlínarmúrsins hafði engin áhrif hér á. Allt „hernaðarbrölt” og öll linkind íslenskra stjórnvalda á þeim vettvangi var slíkt bannorð, að aldrei skyidui ljáð máls á nokkru minnsta viðfangsefni af því tagi. Þess vegan var engin samvinna hugsanleg – eða svo sögðu stofnendur VG.
... og horft í spegil
Að horfa í spegil er að horfast í augu við samtíðina. Og hvaða samtímamynd sjáum við í speglinum?
- Þeir, sem ekki gátu hugsað sér samvinnu sósíalista og sósíaldemókrata leiða nú íhaldsstjórn líkt og Stefán Jóhann Stefánsson, formaður Alþýðuflokksins gerði árið 1947. Íhaldsstjórn sömu flokka og Stefán Jóhann leiddi til valda árið 1947. Sama fordæmi hefur verið skapað. Það hefur VG sjálft gert – og telst ekki lengur til tíðinda.
- Sérhver forystumaður Vinstri grænna, sem lætur í sér heyra um Orkupakka 3, segir mál allra mála vera að verja þurfi EES samninginn og ekkert það megi gerast, sem geti stefnt honum í hættu eða valdið uppnámi í Evrópusambandinu. “Það, sem helst hann varast vann/varð að koma yfir hann”.
- Stuðningsmenn VG – sem ekki gátu hugsað sér samstarf sósíalista og sósíaldemókrata – eru í forystu ríkisstjórnar, sem samþykkt hefur 40 þúsund milljóna króna framlag erlendis frá til uppbyggingar hernaðarmannvirkja NA TO á Keflavíkurflugvelli ásamt því að leggja sjálf fram hundruði milljóna króna til sama verkefnis. Hún hefur jafnframt samþykkt uppbyggingu gisti- og dvalaraðstöðu fyrir 1.000 bandaríska hermenn á sama svæði og opnað þannig aftur íslenskt land til búsetu fyrir bandaríska hermenn.
Samfylkingin og VG eru eins og áður en þau urðu til – tveir áhrifalitlir flokkar, sem eiga fáa aðra valkosti en að veljast sem samverkamenn í samsteypum með íhaldsöflunum. Jafnvel nú – í hörmungunum miðjum – væru þeir þó forystuaflið í íslenskum stjórnmálum bæru þeir gæfu til þess að standa saman. Það segja skoðanakannanir um fylgi flokkanna? Hvað er þá, sem stendur í veginum? Hver er meiningarmunurinn um heilbrigðisstefnu Svandísar Svavarsdóttur? Nákvæmlega enginn! Hver er meiningarmunurinn um umhverfisstefnu Guðmundar Inga Guðbrandssonar? Nákvæmlega enginn! Hver er meiningarmunurinn eftir að hafa horft í spegilinn – eftir að hafa horfst í augu við samtíð sína og borið þá samtíðarmynd saman við það sem sjá má ef litið er um öxl? Nákvæmlega enginn! Er þá ekki kominn tími til, að gamall draumur forystumanna bæði sósíalista og sósíaldemókrata fái loksins að rætast? Þegar öllum leyfum ágreiningsins hefur loksins verið eytt! Sá draumur lifir – á meðan hann fæst ekki deyddur. Hver vill skipa aftökusveitina? VG?!? Katrín, Svandís og Guðmundur???
Höfundur er fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins og einn af stofnendum Samfylkingarinar.