Sagnfræðikennsla er til þess að læra af og forðast að endurtaka mistök fortíðar, eða svo var mér kennt á menntaskólaárunum. Eitthvað virðist þó vera farið að fenna yfir einn helsta lærdóm sögu 20. aldarinnar ef horft er til þess mikla uppgangs sem þjóðernispoppúlismi hefur notið á undanförnum árum. Ný ríkisstjórn á Bretlandseyjum er enn ein áminningin um þann uppgang en þær eru fjölmargar aðrar og því miður í vaxandi mæli á Vesturlöndum einnig.
Þá hefur áhrifa þjóðernispoppúlískra flokka gætt í auknum mæli á Norðurlöndunum, þar með talið hér á landi í umræðunni um þriðja orkupakkann, innflytjendamál og framtíð EES samningsins og mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Vegna þessarar þróunar hefur svonefnd lýðræðisvísitala the Economist verið fallandi í heiminum nær samfellt undangenginn áratug.
Alls staðar er stef þjóðernisrembunnar hið sama. Alið er á ótta og tortryggni. Leiðtogar þessara flokka vísa til áður glæstrar fortíðar viðkomandi þjóðar sem heyri sögunni til vegna óæskilegra útlendra áhrifa. Þar er gjarnan vísað til erlendra ríkja, innflytjenda, alþjóðavæðingar eða alls í senn. Þetta er auðvitað kunnuglegt stef í heimssögunni. Upprisa fasisma í Evrópu á þriðja áratug síðustu aldar byggði á sama grunni. Fortíðardýrkunin á sér þó sjaldnast stoð í veruleikanum og þær lausnir sem boðið er upp á undir formerkjum þjóðernisrembunnar mun líklegri til að grafa undan lífskjörum viðkomandi ríkja en styrkja þau.
Rússland hefur einangrast efnahagslega vegna útþenslustefnu Pútíns. Verulega er tekið að hægja á hagvexti í Bandaríkjunum og ljóst að einangrunarstefna Trump og ríkur vilji til tollastríðs við umheiminn er að hafa skaðleg áhrif á bandarískt efnahagslíf. Nýjasta dæmið er síðan útganga Breta úr Evrópusambandinu sem haft hefur mjög neikvæð áhrif á breskan efnahag.
Þrátt fyrir að leiðtogar þjóðernisrembunnar flíki föðurlandsást sinni óspart virðist þjóðarhagur sjaldnast ráða för í stefnumálum þeirra. Þar skiptir öllu ímynd hins sterka og óskeikula leiðtoga. Leiðtogans sem sé tilbúinn að takast á við allar þær ytri ógnir sem steðji að.
Boris á flótta undan eigin ábyrgð
Ríkisstjórn Boris Johnson tók við völdum í Bretlandi í liðinni viku. Ekkert skorti á digurbarkalegar yfirlýsingar hins nýja forsætisráðherra. Bretland skyldi reist til fyrri dýrðar og yrði „besti staður á jarðríki“ (greatest place on earth) undir hans stjórn. Einn liður í þeirri vegferð væri útgangan úr Evrópusambandinu, sem skyldi eiga sér stað þann 31. október, með eða án samnings.
Það er kannski við hæfi að Johnson fái það verkefni að leysa þann hnút sem Brexit er komið í. Boris var jú helsti hvatamaður Brexit fyrir þremur árum síðan. Niðurstaða kosninganna var mikið högg fyrir breskan efnahag. Eitt skýrasta dæmið er að breska pundið féll mikið þegar niðurstaðan lá fyrir og er enn 15% lægra gagnvart evru. Fjöldi fyrirtækja hefur fært starfsemi úr landi, hætt við fjárfestingaráform eða hyggur á flutning. Áætlað er að á þriðja hundrað þúsund starfa hafi nú þegar tapast vegna Brexit. Framleiðslufyrirtæki eru að færa framleiðslu sína yfir á meginlandið og ljóst að staða Lundúna sem fjármálamiðstöðvar mun veikjast vegna Brexit.
Litlar líkur eru hins vegar á því að Boris komist lengra í samningum við ESB um Brexit en Theresa May. Yfirlýsingar hans um samningslaust Brexit sýna fádæma ábyrgðarleysi en endurspegla um leið eðli poppúlistans. Það er mikilvægara að sýna styrk en stjórnkænsku. Gildir einu þótt bæði Englandsbanki og Skrifstofa ábyrgra ríkisfjármála hafi varað við krappri efnahagslægð í Bretlandi verði samningslaust Brexit að veruleika.
Vaxandi ójöfnuður rót vandans
Í málflutningi Brexit sinna hefur ESB verið kennt um flest það sem aflaga hafið farið í breskum stjórnmálum á undanförnum áratugum. Regluverkið sé íþyngjandi. Tollabandalagið takmarkandi í viðskiptum við ríki utan ESB, aðildin sé allt of kostnaðarsöm og síðast en ekki síst opni hún á ótakmarkað flæði innflytjenda til Bretlands.
Þessi málflutningur fékk ekki hvað síst hljómgrunn á svæðum sem hafa orðið illa úti vegna mikilla breytinga á samsetningu starfa í Bretlandi á undanförnum áratugum. Líkt og alls staðar í hinum vestræna heimi hefur framleiðslustörfum fækkað en þjónustustörfum fjölgað mikið á móti.
En vandinn er ekki tilflutningur starfa. Sú þróun er áskorun en ekki vandamál. Og vandinn er heldur ekki alþjóðavæðing eða alþjóðasamastarf. Vestræn ríki, ekki síður en þróunarríki, hafa hagnast á alþjóðavæðingunni. Efnahagslegur ójöfnuður þjóða hefur minnkað en á sama tíma hefur ójöfnuður aukist mikið innan einstakra landa. Í Bretlandi og Bandaríkjunum hefur svonefndur gini stuðull hækkað um þriðjung eða meira á undanförnum þremur áratugum. Störf í millistétt sem áður gáfu vel af sér gera það ekki lengur. Stjórnvöld beggja landa hafa ekki tryggt íbúum þeirra sanngjarna hlutdeild í ávinningi alþjóðavæðingarinnar. Sú óánægja sem þeirri þróun hefur fylgt hefur síðan skapað þjóðernispoppúlistum tækifæri til að ná völdum.
Líka á Íslandi
Þrátt fyrir að jöfnuður sé hér mikill, líkt og á hinum Norðurlöndunum, hefur þjóðernispoppúlismi ekkert síður sótt í sig veðrið hér á landi en í nágrannaríkjum okkar. Málflutningur Miðflokksins í umræðunni um Þriðja orkupakkann ber t.d. öll megin einkenni hans. Erlendir aðilar ásælist auðlindir okkar. Verið sé að framselja ákvörðunartökuvald um virkjun og nýtingu auðlinda til Brussel og lagning sæstrengs verði óhjákvæmileg, samþykki Alþingi þriðja orkupakkann. Allar þessar fullyrðingar hafa verið hraktar með ítarlegum rökum en það hefur ekki slegið á málflutning Miðflokksmanna.
Raunin er að við, líkt og flestar aðrar þjóðir, höfum notið góðs af auknum alþjóðaviðskiptum. Efnahagslíf okkar hefur tekið stakkaskiptum fyrir tilstilli EES samningsins. Útflutningsgreinar okkar eru bæði mun öflugri og fjölbreyttari en þær voru fyrir gildistöku samningsins. Aðgengi okkar að 500 milljón manna innri markaði hefur skilað okkur ótal tækifærum sem við höfum náð að hagnýta okkur. Bættur markaðsaðgangur fyrir sjávarafurðir. Opnun markaða fyrir íslenskan iðnað og hugverkagreinar. Svo ekki sé gleymt hlut frjáls flæðis fólks til starfa sem staðið hefur undir efnahagsuppgangi undangenginna ára. Án innflytjenda hefði mikill uppgangur ferðaþjónustunnar aldrei verið mögulegur. Enginn vafi er heldur á því að EES samningurinn hefur skilað okkur miklum ávinningi í ferðaþjónustu enda felur hann í sér fullt frelsi í flugi til og frá Evrópu í stað þeirrar verndar sem þjóðarflugfélög nutu áður fyrr.
Miðflokksmenn lítið ykkur nær
Í málflutningi sínum í umræðu um þriðja orkupakkann hafa Miðflokksmenn ítrekað ýjað að því að innleiðing hans brjóti gegn stjórnarskrá. Að þingmenn sem styðji innleiðingu hans séu að brjóta gegn eið sínum gagnvart stjórnarskrá lýðveldisins. Með öðrum orðum að við sem aðhyllumst alþjóðlegt samstarf og teljum EES samninginn og aðild að Evrópusambandinu framfaraskref fyrir þjóðina vinnum gegn þjóðarhag.
Fátt er fjær sanni. Staðreyndin er sú að fátt hefur skilað okkur meiri ávinningi en Evrópusamvinnan. EES samningurinn á ríkan þátt í því að Ísland er meðal best settu þjóða heims þegar horft er til efnahagslegrar velsældar. Að sama skapi kennir sagan okkur að einangrunarhyggja skilar ekki efnahagslegri velsæld. Þvert á móti grefur hún undan lífskjörum.
Þessi orðræða minnir óneitanlega á umræðuna innan breska Íhaldsflokksins, sem á endanum leiddi til þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit. Segja má að leiðtogar flokksins hafi hrakist til þeirrar afleitu stöðu sem Bretland er nú í, vegna kjarkleysis í baráttunni við þjóðernispoppúlisma og Evrópuandúð innan flokksins. Hið sama má ekki henda hér á landi.
Ekki má heldur gleyma voveiflegum afleiðingum síðasta uppgangstímabils þjóðernisrembings/fasisma í Evrópu. Það væri kannski rétt að Miðflokksmenn og íhaldsmenn innan Sjálfstæðisflokksins litu vandlega í spegil og rifjuðu aðeins upp sögukunnáttu sína áður en þeir væna aðra þingmenn um að vinna gegn þjóðarhag.
Hugmyndafræði þjóðernisrembunnar býður ekki fram neinar lausnir á þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Hún elur aðeins á tortryggni og ótta og til lengdar mun aukin einangrunarhyggja grafa undan lífskjörum þjóðarinnar. Andstaðan við Þriðja orkupakkann er í raun andstaða við EES samninginn. Með afstöðu sinni hefur Miðflokkurinn tekið afstöðu gegn samningi sem skilað hefur íslensku þjóðinni mesta lífskjarabata undanfarins aldarfjórðungs.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.