Hugmyndin um að Ísland skuli vera sjálfstætt ríki gagnvart erlendum öflum er rótgróin í samfélags- og stjórnmálaumræðu hér á landi. Sú hugmynd er ein af þeim fáu sem er raunverulega sett í fram í áróðursformi af stjórnvöldum og nýtur þverpólitísks samþykkis. Flestir þekkja hin fleygu orð „vér mótmælum allir“ og kannast við verk Gunnlaugs Blöndal af fundinum dramatíska 1851. Fáir virðast tilbúnir að gagnrýna þessa hugmynd opinberlega eða spyrja hvort það sé í raun og veru skynsamlegt að vera rúmlega 300.000 manna þjóð að reka eins einangrað ríki og við mögulega getum. Hvers vegna er hugmyndin um að Ísland þurfi að rembast við að vera algjörlega sjálfstætt enn í umræðunni 75 árum eftir að lýðveldið Ísland var stofnað?
Ef stjórnskipan Íslands er borin saman við nálæg ríki er ljóst að Ísland er raunverulega töluvert „sjálfstæðara“ en gengur og gerist. Stjórnarskráin okkar hefur engin ákvæði að geyma um framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana þrátt fyrir að einhver þeirra hafi verið svo túlkuð að þau leyfi slíkt vegna EES-samningsins. Þetta einkenni íslenskrar stjórnskipunar má rekja til stofnunar lýðveldisins þegar fyrsta stjórnarskráin var rissuð upp með það eina markmið að koma æðsta valdinu, þá konungsvaldinu, í hendur hins íslenska forseta. Þá var ætlunin að breyta stjórnarskránni seinna enda byggist hún að miklu leyti á grunni frá 1874. Ef við lítum til Evrópu eru flest ríki þar annaðhvort meðlimir í Evrópusambandinu, sem gerir þau sjálfvirkt minna „sjálfstæð“ skv. skilgreiningu íslenskra sjálfstæðissinna, eða sitja við hlið Íslands í EES. Hin eina undantekning á þessu er Sviss sem hefur töluvert frábrugðna stjórnskipan sem byggist að miklu leyti á ríkri hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum. Ef við horfum til Bandaríkjanna sjáum við marglaga stjórnkerfi með alríkisstjórnina efst og 51 ríki sem myndu ekki teljast „sjálfstæð“ ef við notum mælikvarðann sem hérlendir sjálfstæðissinnar vilja miða við. Verður hér að telja ríki á borð við San Marino, Vatíkanið og Bandaríkin (sem eitt risastórt ríki) algjörlega ósambærileg við Ísland og þær vangaveltur sem hér eru uppi.
Nú eru uppi háværar raddir sem gagnrýna allt það sem við kemur Evrópusamvinnu. Dæmi um það er hin sterka andstaða við þriðja orkupakkann og annað viðbrögð þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Jóns Steinars Gunnlaugssonar o.fl. við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar. Þar voru uppi raddir um að hætta í MDE sem hefur verið einn helsti drifkraftur fyrir réttarbótum á Íslandi síðan við fengum aðild að honum, eins og Ragnar Aðalsteinsson benti réttilega á í Kastljósþætti þar sem Jón Steinar Gunnlaugsson viðraði hugmyndir sínar um að einangra okkur frekar frá erlendum öflum. Viðbrögð Jóns Steinars við dómi MDE voru áhugaverð fyrir þær sakir að í stað þess að taka dóminn til efnislegrar greiningar benti hann þess í stað á að hér væri erlent afl að vasast í skipan íslenskra dómstóla og þetta taldi hann hinn mesta harmleik. Viðbrögð sem þessi undirstrika hve einkennileg þessi kennisetning um algjört sjálfstæði getur reynst í raunheimum. Sigríður Á. Andersen tekur persónulega ákvörðun sem handhafi íslensks ríkisvalds og brýtur lög við skipan dómara með því að fara á svig við mat hæfnisnefndar (Hrd. 519/2017). Mannréttindadómstóll Evrópu bendir á að þarna sé stórlega vegið að réttarríkinu þegar persónulegt gildismat einnar manneskju um hvað henni þyki réttlát eða persónulega hagstæð niðurstaða í hæfnismati vegur þyngra en lög um skipan dómstóla. Viðbrögð sjálfstæðismanna eins og Jóns eru þá þau að gráta krókódílatárum yfir því að fullveldi Íslands sitji í gapastokki og að dómar eins og þessir séu til þess fallnir að tefla sjálfstæði Íslands í stórhættu. Sjálfstæði hverra? Jón hefur augljóslega engar sérstakar áhyggjur af sjálfstæði íslenskra dómstóla svo lengi sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram að skipa þá.
Einnig er vert að minnast þess að langflestar þær eftirlitsstofnanir og dómstólar sem sjálfstæðissinnar óttast svo mjög og kalla „erlend öfl“ eru stofnanir þar sem fjölmörg ríki taka ákvarðanir í sameiningu. Íslenski fulltrúinn hefur t.d. jafn mikið vægi og margfalt fjölmennari ríki við ákvörðunartöku í Mannréttindadómstól Evrópu. Ein undantekning frá þessu er að Ísland á lítinn sem engan þátt í ákvarðanatökum Evrópusambandsins þrátt fyrir þau miklu áhrif sem þær hafa á íslenska lögsögu í gegnum EES-samninginn. Þessa valdþurrð má rekja til sjálfstæðisáráttu okkar en til þess að fá að taka þátt í ákvarðanatöku ESB þyrftum við fyrst að ganga í ESB, en þá værum við auðvitað að afsala valdi til „erlendra aðila“ í augum sjálfstæðissinna.
Þá má alltaf velta því fyrir sér hvaða hagsmunum hugmyndafræði sem þessi þjónar best? Hagsmunum þeirra sem hafa mest völd og þeirra sem hagnast á því að löggjafarvald sé á höndum sem fæstra og að sérfræðingar séu sem fæstir og starfi helst hjá þeim örfáu fyrirtækjum sem reglurnar eigi taka til.
Sömu spurninga má einnig spyrja um íslensku krónuna sem virkar eins og stjórnlaus fleki sem þjóðin stendur dauðhrædd á án þess að hafa hugmynd um hvert stefnir. Allt í þágu fjársterkra útflutningsfyrirtækja sem þekkja sveiflurnar og kunna að forða gjaldeyrinum sínum þegar niðursveifla er í vændum. Krónan er dýr í rekstri og einfaldlega fáránlegur rembingur að halda í hana í stað þess að leita stuðnings sterkara hagkerfis eins og býðst okkur í Evrópu. Þar er eins og annars staðar í íslensku stjórnarfari ríghaldið í einhverskonar gamalt stolt um að við getum vel staðið á eigin fótum og rekið tröllauknar stofnanir sem sjá um gjaldeyrinn í stað þess að nýta hið evrópska hagkerfi sem við eigum svo greiðan aðgang að og nota eigin fjármuni í skynsamlegri ráðstafanir, eins og aðgerðir sem miða að því að lækka vöruverð á Íslandi sem er hærra en þekkist í nokkru öðru landi í Evrópu.
Þessi hugvekja er ekki rituð í þeim tilgangi að fræða lesendur um sögu, hagfræði eða lögfræði enda er undirritaður ekki sérfræðingur í neinu því sem var snert á hér að ofan eins og glöggir sjá. Öllu heldur var ætlunin að varpa fram þeirri spurningu hvort sá einbeitti vilji þeirra sem stjórna landinu til að halda valdasprotum og eftirliti með valdhöfum algjörlega innanlands þjóni raunverulegum hagsmunum borgara landsins. Eða er þessi sjálfstæðisárátta bara hula sem þau fáu nýta sér til að halda valdinu yfir okkur hinum án þess að þurfa að sæta eftirliti?
Ég tel Íslendinga, sérstaklega þá ungu, langþreytta á þessu leikriti. Við viljum minna íslenskt og meira útlenskt, alls staðar.