Víða um heim hafa lífeyrissjóðir tekið forystuna í grænum fjárfestingum. Stjórnendur þeirra hafa reiknað saman langtímaávöxtun af fjárfestingum og áhættu af þeim til lengri tíma og komist að því að skynsamlegast sé að fjárfesta í því sem ekki skaðar umhverfið eða ýtir undir loftslagsvá. Í Evrópu hafa lífeyrissjóðir þrýst á fjármálafyrirtæki um stefnu um grænar og ábyrgar fjárfestingar og sums staðar hafa þeir bundist samtökum við að hafa áhrif á stórfyrirtæki um að gera grein fyrir áhættu í sínum rekstri vegna loftslagsvár.
Margt að gerast
Heimsins stærsti fjárfestingarsjóður – norski olíusjóðurinn hefur nýverið losað um fjárfestingar sínar í olíufélögum fyrir um 13 milljarða dollara. Stefna sjóðsins er orðin sú að til að mæta væntingum um langtímaávöxtun, sé ekki skynsamlegt að fjárfesta í kolavinnslu eða olíufélögum. Í staðinn hefur sjóðurinn fjárfest í auknum mæli í endurnýjanlegri orku.
Stærsta sjóðafyrirtæki heims BlackRock hefur gengið fram fyrir skjöldu og skrifað bréf til allra þeirra fyrirtækjastjórnenda sem félagið á hlut í, að þeirra hlutverk sé að starfa í sátt við samfélögin sem þau starfa í og taka tillit til langtímasjónarmiða. Viðskiptavinir BlackRock leggja nú áherslu á að halda fyrirtækinu við efnið um að standa við þau fyrirheit sem gefin hafa verið og láta aðgerðir fylgja orðum.
Fjármálamarkaðurinn í Evrópu hefur tekið utan um frumkvæði Michael Bloomberg fyrrverandi borgarstjóra New York og Mark Carney bankastjóra Englandsbanka um að félög geri grein fyrir loftslagsáhættu í sínum rekstri og telji það fram með réttum hætti í sínum bókum.
Þá hefur Evrópusambandið hefur sett mikla vinnu í umgjörð fjármálamarkaðarins til að greiða fyrir grænum fjárfestingum og setja viðmið og staðla um slíkar fjárfestingar. Það er brýnt til að þjóðir Evrópusambandsins nái að fjármagna nauðsynlegar aðgerðir í loftslagsstefnu sinni fyrir árið 2030.
Frumkvæði skortir hér
Á meðan öllu þessu fer fram úti í heimi, þar sem opinberir aðilar, alþjóðlegir Seðlabankar og samtök fjármálafyritækja vinna að því að styrkja umgjörðina og einstaka lífeyrissjóðir, ss. á Norðurlöndunum og Hollandi taka frumkvæði, fer ekki mikið fyrir slíkri umræðu hjá íslenskum lífeyrissjóðum. Íslensku sjóðirnir eru meðal þeirra stærstu í heimi í hlutfalli við hagkerfið. 50 ára saga af rekstri lífeyrissjóða, einhverri mikilvægustu fjárfestingu samfélagsins, hefur ekki skilað sér í nýsköpun eða frumkvæði þegar kemur að þessum málum. Betur má ef duga skal.
Það eru engin rök fyrir því að íslenskir sjóðir þurfi ekki að taka samsvarandi tillit til loftslagsvárinnar og sjóðir í nágrannalöndunum. Nú þegar sjóðirnir eiga meira en 4700 milljarða króna og þurfa í auknum mæli að fjárfesta erlendis, er nauðsynlegt að gera kröfur til þeirra um að beina þeim fjárfestingum með ábyrgum hætti. Það er eðlilegt að gera þær kröfur að lífeyrispeningum íslenskra launþega sé ekki varið til að halda uppi fyrirtækjum sem skaða umhverfi, valda náttúruspjöllum eða skapa neyðarástand í loftslaginu.
Tækin eru til staðar
Nú eru komin til sögunnar fjöldamörg tæki sem auðvelda fjárfestum að flokka burt slíkar fjárfestingar úr sínu eignasafni. Þá er hægt að taka frumkvæði í því að velja tilteknar fjárfestingaleiðir sem auka veg grænna fjárfestinga. Í þessa vinnu verða íslenskir fagfjárfestar að setja mun meiri kraft.
Til viðbótar við þetta er í íslenskum lögum kveðið á um að lífeyrissjóðir skuli setja sér siðferðileg viðmið í fjárfestingastefnu sinni. Þar má líta til norrænna fyrirmynda þar sem einstaka fjárfestingar eru útilokaðar út frá siðferðilegum gildum en einnig út frá áhættu af fjárfestingunum. Það græðir enginn á því til lengdar að styðja við fyrirtæki sem misbjóða almenningi með því að menga umhverfið, rústa náttúru, skemma vatnsból, ástunda þrældóm eða mansal. Lagaákvæðið um siðferðileg viðmið má ekki snúast um að haka í box, heldur á að vera hvatning um að taka af skarið um ábyrgar fjárfestingar.
Besta afmælisgjöfin
Nýleg umræða um vaxtaákvarðanir Lífeyrissjóðs verslunarmanna og staðreyndin um að framlög launþega í lífeyrissjóði séu að hækka, sýnir skýrt að nauðsynlegt er að taka umræðu um ábyrgð lífeyrissjóða gagnvart samfélaginu miklu ákveðnar hér á landi. Lífeyrissjóðirnir verða að hugsa um ávöxtun fjármuna sinna og áhættu í rekstri út frá hagsmunum sjóðfélaga, viðhorfum í samfélaginu og eigin orðsporshættu.
Íslenskir lífeyrissjóðir verða að leggja mun meiri áherslu á greiningu á áhrifum af fjárfestingarákvörðunum sínum. Stjórnendur lífeyrissjóða þurfa að vera miklu duglegri í að fjalla um fjárfestingarákvarðanir sínar og taka á móti rangfærslum í umræðunni með rökum og styrk en einnig vera reiðubúnir að snúa af rangri leið og losa um fjárfestingar sem brjóta gegn gildum sjóðfélaga. Það eru of miklir hagsmunir í húfi til að hægt sé að fela sig fyrir almenningsálitinu.
Á 50 ára afmæli íslenska lífeyrissjóðakerfisins eru fáar gjafir betur við hæfi en að sjóðirnir myndu stíga skrefin með afgerandi hætti í átt til grænna fjárfestinga og í baráttuna við loftslagsvána sem gerir framtíðina bjartari fyrir sjóðina sjálfa, sjóðfélaga þeirra og samfélögin sem þau búa í.
Höfundur er ráðgjafi um ábyrgar fjárfestingar.