Undanfarnar vikur hef ég fylgst af undrun og depurð með feilspori Félags eldri borgara í Reykjavík sem virðist vera að enda fram af hæstu bjargbrún. Kannski er það hluti af íslenskri menningu að framkvæma fyrst og hugsa svo. Möglega er þetta svo rótgróið í landann að sama hve oft við rekum okkur á að þá lærum við aldrei. Það að gera kröfu til eldri borgara um að greiða milljónir króna umfram umsamið kaupverð nýbyggðra íbúða félagsins er auðvitað óásættanlegt en að það skuli vera hagsmunasamtök aldraðra sem þannig ganga fram er þyngra en tárum tekur. Stærstu mistökin felast ekki endilega í vanreiknaðri hækkun byggingarkostnaðar, sem er hrikalegt út af fyrir sig, heldur því að Félag eldri borgara, hagsmunasamtökin sjálf, skuli hafa farið út í það að byggja fjölbýlishús til að selja félagsmönnum sínum íbúðir og skapað þannig alvarlega hagsmunaárekstra. Hvað var stjórn félagsins að hugsa?
Markmið samkvæmt lögum félagsins er að efla félagslegt og efnahagslegt öryggi eldra fólks. Vinna að úrbótum í húsnæðismálum eldri borgara og að fylgjast með lagasetningu Alþingis sem varðar hagsmuni aldraðra og beita áhrifum sínum með viðræðum, samstarfi og samningum við stjórnvöld.
Hvernig fara þessi markmið saman við það að vera einnig fasteignafélag í sölu íbúða til aldraðra? Svarið er einfalt. Það fer alls ekki saman. Með því að fara út í þessa vegferð hefur félagið gert sig vanhæft um að vinna að þessum mikilvægu hagsmunamálum gagnvart stjórnvöldum. Húsnæðismál ásamt með framfærslutekjum eru allra mikilvægustu hagsmunamál hvers einstaklings og fjölskyldu. Grunnur að tilveru fólks. Þegar hagsmunafélög taka að sér að útvega félagsmönnum sínum húsnæði, hvort sem er til leigu eða til kaups, þá geta þau ekki lengur sinnt aðhalds- og hagsmunahlutverki sínu hvað húsnæðismál varðar gagnvart stjórnvöldum og hafa þar af leiðandi farið gegn lögbundnu hlutverki sínu.
Hvað ætlar Félag eldri borgara að gera þegar einhver kaupandinn að íbúðunum í Árskógum 1 og 3, sem nú er deilt um, mætir á skrifstofu félagsins og óskar liðsinnis hagsmunfélagsins við að leita réttar síns gagnvart Félagi eldri borgara í Reykjavik?
Hvort ætli vegi þá þyngra hagsmunir skjólstæðingsins eða fjárhagslegir hagsmunir félagsins? Svarið liggur í augum uppi og við höfum um það ýmis dæmi.
Þegar ég tók við formennsku í Geðhjálp upp úr aldamótunum var eitt fyrsta verk nýrrar stjórnar að færa ófullnægjandi húsnæðiskerfi fyrir geðfatlaða sem kallað var Stuðningsþjónusta Geðhjálpar frá félaginu til Reykjavíkurborgar þar sem húsnæðiskerfi fatlaðra átti miklu betur heima. Þar með gat félagið loks farið að beita sér í búsetumálum geðfatlaðra og með þrýstingi og samvinnu við stjórnvöld tókst að koma á fót íbúðakjörnum fyrir fatlaða sem reyndust ein mesta framför í málaflokknum á fyrsta áratug aldarinnar. Það hefði aldrei tekist ef Geðhjálp hefði haldið áfram að reka sitt eigið búsetufélag og það kom aldrei til greina að Geðhjálp ræki hina nýju búsetukjarna.
Eftir að ég settist í stól formanns Öryrkjabandalags Íslands árið 2005 kom fljótt í ljós að húsnæðisfélag Öryrkjabandalagsins var sama marki brennt og stuðningsþjónusta Geðhjálpar hafði áður verið. Húsnæðið var oft óviðunandi fyrir fatlað fólk og mikið vantaði upp á grunnþjónustu við íbúana. Byggt hafði verið upp einangrandi og aðgreinandi húsnæðiskerfi á vegum heildarsamtaka fatlaðra sem gekk þvert gegn yfirlýstum markmiðum samtakanna og markmiðum Sameinuðu þjóðanna um eitt samfélag fyrir alla og samfélag án aðgreiningar. Þegar á reyndi var ekki skilningur og vilji til að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi og því eru heildarsamtök fatlaðra á Ískandi enn þann dag í dag vanhæf gagnvart stjórnvöldum að gera kröfur um raunverulegar úrbætur í húsnæðismálum fatlaðra.
Og enn er höggvið í sömu knérunn. Nú er það Alþýðusamband Íslands sem hefur ásamt BSRB, með kröfugerð á hendur stjórnvöldum síðan árið 2012, farið af stað með risa áform um byggingu á íbúðum fyrir félagsmenn sína. Félögin stofnuðu byggingararfélag sitt Bjarg og gert ráð fyrir að á þessu ári hafi lóðum fyrir 1000 íbúðum verið úthlutað til byggingarfélags verkalýðsfélaganna í Reykjavík. Hvert á félagsmaðurinn í ASÍ að leyta þegar hann telur að Bjarg hafi gerst brotlegt við leigusamning? Nú eða verkamaðurinn sem skuldar leigu og er sagt upp leigunni hjá Bjargi en telur vegið að sér? Snýr hann sér til fulltrúa verkalýðsfélagsins síns sem á í raun á endanum íbúðina? Hvernig fer ASÍ að því að vera ekki vanhæft þegar upp koma slík réttindamál?
Hlutverk hagsmunasamtaka er gríðarlega mikilvægt. Einmitt það að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna en vera ekki vanhæf til þess. Viðkvæðið er oft „einhver verður að gera þetta. Ef ekki við hver þá?” Engin hugmyndafræðileg umræða, siðfræðileg eða alvöru stefnumótun af því að þörfin er brýn. Þannig urðu Hátúnsblokkirnar til, Stuðningsþjónusta Geðhjálpar, íbúðaævintýri Félags eldri borgara og nú verkalýðshreyfingarinnar. Ég tek undir það að ríkið og sveitarfélög geta verið svifasein og oft þarft að varða vegin. En það ættu þá hagsmunafélögin að gera með úthugsuðum tilraunaverkefnum sem þau fóstra til skamms tíma á meðan þau sanna sig en eru svo færð yfir til sveitarfélaganna eða ríkisins allavega til þeirra aðila sem ekki hafa jafnframt skilgreindu hagsmunagæslu- og aðhaldshlutverki að gegna eins og tilfellið er með umrædd frjáls félagasamtök. Þarna verður að gera skýran greinarmun á milli.
Það er ekki bara það að hagsmunafélögin séu með þessu fasteign-abrölti sínu að gera sig vanhæf til að sinna hlutverki sínu og koma aftan að sínum eigin félagsmönnum. Til að bæta gráu ofan á svart þá lúta slík félög ekki stjórnsýslulögum og upplýsingalögum. Það þýðir að réttarstaða félagsmanna sem gera samning við hagsmunafélög sín eða eignaharhaldsfélög þeirra um leigu eða kaup á íbúðum er mun lakari en ef um væri að ræða félagsþjónustur sveitarfélaganna. Þetta er að mörgu leyti óskastaða stjórnvalda eins og gefur auga leið þar sem þau eru í raun losuð undan ábyrgð en eftir standa löskuð og vanhæf hagsmunasamtök fólksins í landinu.
Höfundur er fjölmiðlamaður.