Síðsumarið í borginni er afar fallegt og borgarbúar útiteknir eftir hlýtt og þurrt sumar. Málefni haustsins kalla nú á okkur og skólar hefjast á næstu dögum. Fréttir af ráðningum í skólum og leikskólum munu skjóta upp kollinum og áhugavert verður að sjá hvernig ráðningar ganga. Umræður um umferðaþunga þegar borgarbúar snúa aftur úr sumarfríum verður eflaust fyrirferðarmikil að vanda. Borgarráð kom saman eftir sumarfrí fimmtudaginn 15. ágúst og voru 42 mál á dagskrá.
Mér eru ofarlega í huga fréttir sem berast af veitingastöðum og búðum í miðborginni sem sumar læsa nú dyrum fyrir fullt og allt meðan aðrir aðilar kynna nýja veitingastaði og verslanir. Þegar fréttir bárust um að Ostabúðin væri að loka fylltist ég söknuði. Sú búð, ásamt mörgum öðrum, hefur verið fastur punktur í tilverunni svo árum skiptir og verður sárt saknað. Umræða hefur skapast um hvað sé að gerast, hvort þessi þróun sé ný eða gömul og hvort eitthvað sé hægt að gera. Mikil breyting hefur orðið á miðborginni undanfarin ár og er hún í mikilli sókn, 59 nýjir rekstraraðilar hófu rekstur í miðborginni á árunum 2018 og 2019, mun færri hafa horfið á braut eða fært sig og þeirra verður sárt saknað, það er ég viss um.
Rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja er mikil vinna og eigendur geta aldrei slakað á gagnvart skuldbindingum sínum um t.d. laun, vörukaup eða leigu. Rekstrarumhverfi þarf að vera eins stöðugt og kostur er sem því miður er ekki raunin um þessar mundir. Óvissa í efnahagsmálum, kjarasamningar, hækkandi kostnaður og hækkanir á fasteignaverði hafa áhrif ásamt fækkun ferðamanna. Eins er rætt um framkvæmdir í miðborginni og áhrif þeirra, göngugötur o.fl. Sjálf þekki ég vel veruleika rekstraraðila. Mín reynsla er að það eru fjölmargir þættir sem hafa áhrif á rekstur fyrirtækja og þegar margir samhangandiþættir koma saman þá getur þol og úthald þrotið. Ég skil það vel, fólk er í þessu af lífi og sál og færir margar fórnir, oftast eru þetta blóð, sviti og tár sem þarf til að halda litlum fyrirtækjum gangandi og stundum dugar það ekki til. Hugur minn er hjá öllu því harðduglega fólki sem stendur vaktina alla daga til að þjónusta okkur.
Borgin getur margt gert til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja, eitt af því er að lækka fasteignaskatta sem var eitt kosningarloforða Viðreisnar og hefur ákvörðun um lækkun fasteignaskatta á fyrirtæki verið tekin í borgarstjórn. Sveitarfélög verða einnig að skilja þarfir fyrirtækja, halda uppi öflugu samtali og samvinnu við þau. Ákvarðanir innan borgarinnar þurfa ávallt að vera með hagsmuni borgarbúa og fyrirtækja að leiðarljósi. Upplýsingamiðlun spilar einnig stórt hlutverk, fyrirtæki þurfa að vera meðvituð um þá stefnu sem borgarvöld setja svo hægt sé að setja það inn í áætlanir fyrirtækjanna.
Betur má ef duga skal og því hefur borgin unnið að því undanfarna mánuði að kortleggja og stilla upp í samvinnu við hagaðila um hvernig þessum samskiptum og skipulagi er best farið. Sú vinna stendur enn yfir en mikill vilji er að vinna að því að bæta umhverfi atvinnulífsins í Reykjavík. Við munum kynna þær hugmyndir á næstunni.
Secret Solstice
Málefni Secret Solstice voru rædd í borgarráði sl. fimmtudag. Hátíðin litaði mannlíf borgarinnar í sumar og teljum við að vel hafi tekist til þó alltaf séu tækifæri til úrbóta. Unnið hafði verið úr ábendingum borgarbúa frá hátíðinni árið á undan og breytingar gerðar í samræmi við þær. Árangurinn var góður því til að mynda komu upp miklu færri fíkniefnamál í ár en áður. Stífari rammi var settur utan um allt starfið, öflugt samstarf var unnið af forvarnarfólki borgarinnar, lögreglu og tónleikahöldurum. Athvarf var starfrækt á meðan hátíðinni stóð, lögregla var sýnileg og stjórnun á umferð og flæði um hátíðina gekk afar vel. Tónlistarhátíð eins og þessi er, þegar vel tekst til, afar ánægjuleg viðbót við fjölbreytt líf í borginni okkar. Það er hlutverk okkar að halda áfram að betrumbæta okkar störf og því mikilvægt að vinna vel úr öllum ábendingum og umsögnum sem berast um stóran viðburð sem þennan og vinna vel úr svo áframhaldandi samstarf um tónlistarhátíðina verði okkur öllum til ánægju. Íþrótta- og tómstundasviði er falið að fara yfir málið og skoða dagsetningar á Secret Solstice fyrir 2020.
Samgöngustyrkur vinsæll meðal starfsmanna borgarinnar
Fyrir borgarráð var lagður viðauki við fjárhagsáætlun 2019 þar sem m.a. samgöngustyrkir voru á dagskrá. Viðaukar eru reglulega lagðir fyrir borgarráð til að deila út fjármunum, gera leiðréttingar eða bæta við nýjungum. Í þetta skiptið var samþykkt að fjárheimildir hækki um tæpar 94 miljónir kr. til sviða borgarinnar vegna samgöngusamninga frá janúar til júní 2019. Það er afar ánægjulegt að sjá hvað starfsmenn taka vel í verkefnið. Í september 2017 hóf Reykjavíkurborg að bjóða starfsmönnum samgöngusamninga. Markmiðið er að létta á álagstímum í umferðinni, draga úr mengun, stuðla að heilsueflingu starfsmanna og bæta kjör starfsfólks. Starfsmenn skóla- og frístundasviðs eru sérlega öflug í að prófa fjölbreytta samgöngumáta en tæplega 69 miljónir kr. af þeim 94 miljónum kr. sem var útdeilt fara til sviðsins. Það verður gaman að fylgjast með samgöngustyrkjum næstu misserin, ég bíð spennt að sjá hvort og hvernig aukning í rafhjólasölu breyti samgöngumáta.
Hinsegin dagar
Hinsegin dagar, ein af borgarhátíðum Reykjavíkur, hófust í Reykjavík 8. ágúst og náðu hámarki með gleðigöngu og tónleikum í Hljómskálagarði s.l. laugardag. Ég vil óska stjórn Hinsegin daga, hinsegin samfélaginu og öllum borgarbúum til hamingju með frábærlega litríka og skemmtilega hátíð.
Líkt og fyrri ár var frábært að fylgjast með og taka þátt í þeim fjölbreyttu viðburðum sem voru á dagskrá Hinsegin daga sem að þessu sinni voru lengri en áður í tilefni 20 ára afmælis hátíðarinnar. Hinsegin dagar eru gríðarlega mikilvæg hátíð fyrir Reykjavíkurborg, ekki bara því þeir glæða borgina lífi heldur einnig því hátíðahöldin snúast um mannréttindi og fjölbreytileika auk þess að innsigla samstöðu borgarbúa.
Eitt af því sem Hinsegin dagar beindu sjónum að þetta árið er staða og líðan hinsegin fólks í atvinnulífinu. Þau mál hafa lítið verið rædd hér á landi. Á fundi sem Hinsegin dagar og Nasdaq stóðu fyrir var farið yfir ýmis mál sem stjórnendur fyrirtækja þurfa að huga að til að hlúa að fjölbreytileika enda fyrir löngu sannað að fjölbreytni skilar betri ákvarðanatöku, betra starfi og meiri hagnaði. Á fundinum voru kynntar helstu niðurstöður úr netkönnun sem Hinsegin dagar framkvæmdu í sumar. Niðurstöðurnar benda til þess að hér á landi megi gera enn betur til að tryggja jafnrétti og betri líðan á vinnumarkaði. Ég vona svo sannarlega að sú umræða sem hófst á Hinsegin dögum sé bara upphafið af enn frekara samtali og aðgerðum í rétta átt.
Hér hefur einungis verið fjallað um nokkur af þeim fjölmörgu málum sem einkenndu síðustu viku, þau sem vilja fylgjast með helstu ákvörðunum borgarinnar geta gert það á: https://reykjavik.is/fundargerdir/fundur-nr-5552
Höfundur er oddviti Viðreisnar og formaður borgarráðs.