Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, skrifar pistla í helgarblaðið. Ég verð að játa að ég les ekki pistla hans að staðaldri, en athygli mín var vakin á skrifum hans þann 17. ágúst. Í greininni kemur fram djúpstæður misskilningur Styrmis á eðli alþjóðasamstarfs og hún er full af rangfærslum.
Staðreyndin er sú að engum er mikilvægara en smáríkjum að alþjóðlegar reglur gildi og séu virtar af hinum stærri ríkjum sem gætu beitt valdi til þess að ná sínu fram. Um 300 ungmenni keyptu opnuauglýsingu í Fréttablaðinu 20. maí síðastliðinn með þessum boðskap: „Ekki spila með framtíð okkar. Við styðjum áframhaldandi aðild Íslands að EES-samningnum. Við viljum frjálst, opið og alþjóðlegt samfélag og stöndum saman gegn einangrunarhyggju.“ Boðskapur unga fólksins er kjarni málsins.
Nú er ekkert að því að menn hafi sterkar skoðanir og styðji þær rökum. Aftur á móti er alvarlegt þegar menn snúa veröldinni á hvolf til þess að styðja sína skoðun og bendir ekki til þess að málstaðurinn sé sterkur. Rökþrota menn freistast oft til þess að gera lítið úr andstæðingum sínum með því að líkja þeim við illmenni. Björn Bjarnason orðaði það þannig að „þegar menn fara út í þann forarpytt að líkja andstæðingum sínum við nasista þá eru þeir komnir út af borðinu … og þá er eiginlega ekki hægt að ræða sjónarmið þeirra lengur.“
Grundvallarmisskilningur Styrmis felst í því að með því að setja sameiginlegar reglur öðlist Evrópusambandið yfirráð af einhverju tagi yfir því sem reglurnar gilda um. Þetta er fráleitt. Það sem mestu máli skiptir er að reglur séu sanngjarnar og skynsamlegar, ekki hver semur þær.
Þingmenn setja lög af ýmsu tagi. Áður komu lög frá konungum. Jónsbók er lögbók sem Jón Eiríksson lögmaður kynnti Íslendingum árið 1280. Ýmis ákvæði í Jónsbók gilda enn þann dag í dag. Hefur Jón Eiríksson þá ráðið yfir þeim sviðum mannlífsins í meira en 700 ár? Auðvitað ekki.
Í Jónsbók er kafli sem nefndur er þjófabálkur og fjallar um auðgunarbrot. Enn í dag er sagt að eitthvað taki út yfir allan þjófabálk. Það merkir að eitthvað er óheyrilegt eða hefur keyrt um þverbak. Segja má með sanni að grein Styrmis taki út yfir allan þjófabálk.
Ég spurði Styrmi að því á fundi í janúar 2009 hvort hann þekkti eitthvert dæmi þess að ríki Evrópusambandsins hefðu stolið auðlindum af einhverju aðildarríkjanna. Ég bíð enn svars.
Nýlenduherrar og fiskimiðin
Greinin hefst á því að lýsa hvernig gömlu Evrópuríkin byggðu upp nýlenduveldi og arðrændu þjóðir annars staðar í heiminum. Bretar neituðu meðal annars að viðurkenna landhelgi Íslands og sendu hingað herskip. Þetta er sannarlega ljót saga, en þar með má segja að staðreyndakafla pistils Styrmis ljúki. Hann heldur áfram:
„Þegar Alþingi samþykkti að sækja um aðild fyrir Íslands hönd að Evrópusambandinu sumarið 2009 var alltaf ljóst að með aðild mundu fiskimiðin við Ísland færast undir stjórn embættismanna í Brussel í smáu og stóru vegna þess að þá hefði Ísland fallið undir sameiginlega fiskveiðistefnu ESB.“
Þetta er rangt. Nú þegar er það svo að Hafrannsóknarstofnun leggur mat á veiðiþol stofna við Ísland byggt á rannsóknum vísindamanna. Þessar rannsóknir eru unnar í samstarfi við vísindamenn erlendis. Veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar byggir á alþjóðasamningum um sjálfbærni og nýtingu náttúruauðlinda. Ýmsar alþjóðlegar stofnanir, OSPAR og Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) veita ráðgjöf. Fjallað er um stofnmat og ráðgjöf flestra helstu nytjastofna við Ísland af Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES). Ekkert bendir til þess að þetta breytist við fulla aðild að Evrópusambandinu. Um veiðar úr deili- og flökkustofnum hafa Íslendingar skuldbundið sig til þess að semja við aðrar þjóðir sem eiga hagsmuna að gæta.
Við fulla aðild yrðu miðin við Ísland skilgreind sem sérstakt veiðisvæði. Hafró yrði í sama hlutverki og nú. Sú mýta er þrálát að fulla aðild Íslands að Evrópusambandinu öðlist aðrar þjóðir rétt til veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu. Ekkert er fjær sanni. Veiðiréttindi innan sambandsins byggja á veiðireynslu þjóða. Íslendingar hafa verið einráðir á sínum miðum í 40 ár og engir aðrir fengju veiðirétt nema við vildum veita hann, rétt eins og nú.
Nýlenduherrar og orkulindir
Nú kemur Styrmir að kjarnanum í boðskap sínum þessa dagana:
„Það var ekki markmið þeirra, sem gerðu EES-samninginn, að hleypa gömlu nýlenduveldunum í Evrópu til áhrifa í nýtingu á hinni mestu auðlind þjóðarinnar, þ.e. orku fallvatnanna. En samþykki Alþingi orkupakka 3 er það ígildi þess að við hefðum fallizt á að færa yfirráð yfir fiskimiðum okkar til Brussel. Þetta er sagt vegna þess að með samþykkt orkupakkans verðum við hluti af regluverki hins sameiginlega orkumarkaðar í Evrópu. Og jafnvel þótt enginn sæstrengur yrði lagður mundi áhrifa hans gæta hér.
Enn og aftur heldur Styrmir því fram að sameiginlegar reglur þýði yfirráð hræðilegs hers „skriffinna í Brussel“. Orkupakkinn fjallar fyrst og fremst um neytendavernd og segir meðal annars: „Aðildarríkin skulu tryggja að á yfirráðasvæði þeirra eigi allir viðskiptavinir sem kaupa til heimilisnota og, eftir því sem aðildarríkin telja rétt, lítil fyrirtæki (nánar tiltekið fyrirtæki með færri en 50 starfandi einstaklinga og ársveltu eða efnahagsreikning sem er ekki meiri en 10 miljónir evra), rétt á alþjónustu, þ.e. að fá afhenta raforku af tilteknum gæðum á sanngjörnu verði sem er auðveldlega og greinilega samanburðarhæft, gagnsætt og án mismununar.“
Styrmir segir: „Endalausar lagaskýringar fram og til baka eru ekki kjarni málsins. Heldur sú staðreynd að með því að samþykkja orkupakka 3 erum við að gefa frá okkur yfirráð yfir annarri mestu auðlind okkar.“
Fyrir þá sem ekki vita er rétt að Styrmir er lögfræðingur að mennt. Hann ætti sem slíkur að vita öðrum betur að lagatexti nær til þess sem í honum stendur, en ekki einhverju sem gæti gerst og fellur utan lagabálksins (og reyndar líka þjófabálksins).
Aumingjar og föðurlandssvikarar
Styrmir fjallar svo um það hvers vegna einstakir flokkar styðji málið. Hann hefur ekki mikið álit á flokksbræðrum sínum:
„Sjálfstæðisflokkurinn á eftir að taka ákvörðun um ráðherra. Sú staðreynd hefur áhrif á afstöðu einhverra þingmanna hans, sem gera sér vonir um slíkt embætti.“
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru sem sé vesalingar sem láta sem sé hræða sig til hlýðni með von um umbun.
Styrmir heldur áfram: „Það er erfiðara að skilja, hvers vegna Framsóknarflokkurinn tekur þátt í þessum leik, vegna þess að hann er einfaldlega í lífshættu.“ Og síðar: „Afstaða VG er óskiljanleg.“
Það skyldi þó aldrei vera að þingmenn þessara flokka hefðu einfaldlega kynnt sér málið?
Nú fer Styrmir á flug. Hann tekur falskenningu sína um yfirráð yfir auðlindum upp á nýtt stig og segir: „Samfylkingin og Viðreisn fagna vegna þess að þeir tveir flokkar hafa það beinlínis á stefnuskrá sinni að færa yfirráð yfir íslenzkum auðlindum í hendur Brussel.“ Þetta er auðvitað auvirðilegur málflutningur, sem allir sanngjarnir menn sjá í gegnum.
Og þó. Margt ágætt fólk trúir því illa að virðulegur ritstjóri blaðs sem nær allir landsmenn keyptu og lásu á sínum tíma fari með fleipur. Þess vegna þarf að svara rangfærslum af þessu tagi, þó að þær taki út yfir allan þjófabálk.
Höfundur er fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra.