Landsvirkjun er í eigu íslensku þjóðarinnar og er falið að fara með mikilvæga hagsmuni hennar. Hlutverk fyrirtækisins er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem því er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Þessu hlutverki fylgir sannarlega mikil ábyrgð.
Sanngjarnt og samkeppnishæft verð
Landsvirkjun leggur allt kapp á að bjóða viðskiptavinum sínum sanngjarnt og samkeppnishæft verð, þannig að hagsmuna eigenda Landsvirkjunar – íslensku þjóðarinnar – sé gætt í hvívetna, en þó með þeim hætti að ekki sé vegið að rekstrargrundvelli viðskiptavinanna. Orkuverð til stórnotenda er ákvarðað í tvíhliða samningaviðræðum, ekki með einhliða valdboði Landsvirkjunar. Hlýtur sú staðreynd að renna stoðum undir að viðskiptavinir fyrirtækisins telja orkuverðið a.m.k. ásættanlegt.
Einn af mikilvægum viðskiptavinum Landsvirkjunar er Elkem Ísland á Grundartanga. Nýleg niðurstaða gerðardóms um rafmagnsverð í framlengdum samningi fyrirtækjanna tveggja, Landsvirkjunar sem er eigu Íslendinga og Elkem, sem er í eigu alþjóðlegra fjárfesta, varð nýverið tilefni fyrir formann Verkalýðsfélags Akraness til að ásaka Landsvirkjun um óbilgirni. Hélt hann því fram að fyrirtækið beinlínis ógni starfsgrundvelli stóriðjufyrirtækja á Íslandi með því að fara fram á hærra verð við endurnýjun samninga.
Ekkert er raunar fjær sanni. Landsvirkjun hefur ekki hag af rekstrarerfiðleikum viðskiptavina sinna, heldur þvert á móti. Farsæl starfsemi fyrirtækjanna er þýðingarmikið hagsmunamál Landsvirkjunar enda fara um 85% af raforkuvinnslunni til þessara stóru og mikilvægu viðskiptavina, eins og Elkem.
Öflugir mótaðilar
Við endursamninga síðustu missera hefur verið tekist á um mikla viðskiptahagsmuni. Samningarnir eru gerðir í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og þar hafa mótaðilar Landsvirkjunar verið öflug alþjóðleg stórfyrirtæki, sem hafa mikla reynslu af slíkri samningagerð.
Afsal á afrakstri af auðlindinni
Það sjónarmið að erlendum stórfyrirtækjum sé veitt raforka á óeðlilega lágu verði felur í raun í sér kröfu um afsal þjóðarinnar á fullum afrakstri orkuauðlinda Íslands. Afleiðingin af því yrði sú að auðlindarentan myndi lenda utan landsteinanna. Sem betur fer er rekstur þeirra öflugu erlendu stórfyrirtækja sem hafa hér starfsemi með þeim hætti að hann þolir að greiða Íslendingum alþjóðlegt markaðsverð á raforku.
Miðað við sambærilega samninga
Í niðurstöðu gerðardóms um nýtt rafmagnsverð í framlengdum rafmagnssamningi Landsvirkjunar og Elkem var höfð hliðsjón af sambærilegum rafmagnssamningum við stórnotendur í málmframleiðslu á Íslandi. Gerðardómurinn er niðurstaða af mikilli og faglegri vinnu hlutlausra aðila sem fyrirtækin komu sér saman um.
Undir kostnaðarverði
Rafmagnsverðið, sem gerðardómurinn ákvað, er langt í frá óeðlilega hátt. Raunar mætti fremur telja að það sé í lægri kantinum. Eftir breytinguna er rafmagnsverðið sem Elkem greiðir fjarri því að vera hátt miðað við aðra samninga Landsvirkjunar við stórnotendur. Í raun er verðið enn svo lágt, að það nær varla meðalkostnaðarverði og er jafnframt verulega undir kostnaðarverði síðustu virkjana Landsvirkjunar.
Staða á málmmörkuðum krefjandi um þessar mundir
Aðrir þættir en hækkun raforkuverðs hafa hins vegar miklu meiri áhrif á afkomu stórnotenda Íslandi.
Staða á málmmörkuðum er afar erfið um þessar mundir. Verð á afurðum í kísiliðnaði er lágt og birgðasöfnun er ríkjandi sem hefur leitt til um þriðjungs verðlækkunar undanfarið ár. Svipaða sögu er að segja um áliðnað þar sem verð hefur lækkað um fjórðung síðasta ár á sama tíma og lykilhráefni eins og súrál hefur hækkað töluvert í verði. Rekstrarumhverfi Elkem er því óhjákvæmilega krefjandi um þessar mundir.
Sterk samkeppnisstaða Elkem á Íslandi
Þótt verðið til Elkem hafi hækkað frá því lága verði sem áður var tryggir það verksmiðjunni áfram samkeppnishæf kjör. Mat Landsvirkjunar og óháðra greiningaraðila er að samkeppnishæfni Elkem verksmiðjunnar á Grundartanga sé áfram ein sú besta í heiminum.
Farsælt viðskiptasamband
Samstarf og viðskiptasamband Landsvirkjunar og Elkem hefur verið með miklum ágætum allt frá því það hófst fyrir 44 árum. Elkem er mikilvægur viðskiptavinur fyrir Landsvirkjun og við væntum þess að þetta farsæla samband haldi áfram í framtíðinni.
Það er því engin ástæða fyrir aðila, sem standa utan samningssambands fyrirtækjanna, að gerast hagsmunagæslumenn alþjóðlegra stóriðjufyrirtækja á opinberum vettvangi í samningaviðræðum við Landsvirkjun um raforkuverð. Þau eru fullfær um að gæta sinna hagsmuna sjálf.
Höfundur er forstjóri Landsvirkjunar.