Eftir hækkandi gengi íslensku krónunnar frá um 2013 til 2017 fór verðbólgustig lækkandi hér á landi, þrátt fyrir umtalsverðar launahækkanir í kjarasamningum frá 2015.
Frá miðju ári 2017 snérist þetta við og gengið tók að lækka, sem ýtti undir verðbólgu á ný, sem kom fram með nokkuð afgerandi hætti á seinni hluta ársins 2018. Sumir tengdu það við aukinn fjárflótta úr landi sem rekja mætti til ótta íslenskra efnamanna við harðnandi kjaraátök.
Óeðlilega mikil hækkun íbúðaverðs átti einnig stóran þátt í hækkun verðlags á árinu 2018 (og raunar einnig á árunum þar á undan). Ef húsnæðisliðurinn hefði ekki verið inni í verðlagsvísitölunni hefði verið verðhjöðnun hér frá seinni hluta 2016 og til fyrri hluta 2018.
Loks kom verðbólguskot í tengslum við fall WOW Air og kjarasamningana í vor, sem náði hámarki í apríl.
Þessa þróun á verðbólgustiginu má glögglega sjá á myndinni hér að neðan, en þar er sýnd þróun samræmdrar vísitölu neysluverðs á Íslandi og að meðaltali á evrópska efnahagssvæðinu, frá byrjun árs 2018 til júlí á þessu ári (tölur frá Eurostat og Hagstofu Íslands).
Fram undir lok árs 2018 var verðbólgustigið á Íslandi undir meðaltalinu á evrópska efnahagssvæðinu en fór þá lítillega yfir það og loks með afgerandi hætti í apríl á þessu ári (bláa línan á myndinni).
Síðan þá hefur verðbólgan farið lækkandi á ný og var í júlí nálægt meðaltalinu á evrópska efnahagssvæðinu.
Stærsti verðbólgukúfurinn frá því í vor hefur þannig gengið til baka.
Góðar horfur eru á að enn muni draga úr verðbólgu á næstunni, sem styrkir möguleika á að kjarasamningarnir skili launafólki árangri, sem að var stefnt.
Þessi þróun styður einnig við möguleika á frekari lækkun vaxta, bæði stýrivaxta Seðlabankans og vaxta neyslu- og húsnæðislána.
Vaxtastigið á Íslandi ætti þannig að halda áfram að lækka á næstunni.
Það er mikilvægt – bæði fyrir heimilin og atvinnulífið.
Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu - stéttarfélagi.