Á sama tíma og hundruð milljarða vantar í fjárfestingar heilbrigðis- og vegakerfi landsmanna, auk annarra mikilvægra innviða, er ríkissjóður með hundruð milljarða bundna atvinnufyrirtækjum á samkeppnismarkaði. Skýtur það ekki dálítið skökku við að á sama tíma og ríkisstjórnin treystir sér ekki til að selja hluta af eignum sínum í fjármálafyrirtækjum hyggst hún leita til einkaaðila um fjármögnun nauðsynlegra innviðauppbygginga. Er betra að einkavæða samgöngur en fjármálafyrirtæki? Er það sanngjarnt að ætla íbúum á Suðurlandi og Suðurnesjum að greiða veggjöld til að fá nauðsynlegar samgöngubætur? Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar. Er ekki eðlilegra að losa um eignarhald í bönkunum og ráðstafa því í nauðsynlegar innviðafjárfestingar?
Fjárfestingar í innviðum okkar hafa verið vanræktar undangenginn áratug, eða allt frá hruni. Jafnvel þótt afkoma ríkis og sveitarfélaga hafi batnað verulega á síðustu árum eru fjárfestingar enn langt undir meðaltali, eins og meðfylgjandi mynd sýnir.
Ef fjárfestingar hins opinbera hefðu átt að halda í við meðalfjárfestingu áratugarins fyrir hrun er uppsöfnuð fjárfestingaþörf undangengins áratugar ríflega 400 milljarðar króna. Það er í samræmi við niðurstöður vandaðrar úttektar Samtaka iðnaðarins sem mat uppsafnaða fjárfestingarþörf hins opinbera um 370 milljarða. Þar vantar reyndar alveg inn mat á uppsafnaðri þörf í heilbrigðiskerfinu. Bygging nýs Landsspítala mun kosta 60-80 milljarða króna. Um 24 milljarða vantar í uppbyggingu hjúkrunarrýma á næstu fimm árum.
Því til viðbótar þarf að leggja um 80 milljarða króna í uppbyggingu Borgarlínu auk þess sem uppsöfnuð nýfjárfestingarþörf í vegakerfi nemur tugum milljarða króna umfram núgildandi Samgönguáætlun. Ekki er óvarlegt að áætla uppsafnaða viðhalds- og fjárfestingarþörf hins opinbera upp á rúma 600 milljarða króna til viðbótar við hefðbundnar fjárfestingar. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur fjárfesting í vegakerfinu alls ekki haldist í hendur við stóraukna umferð á undanförnum árum.
Umsvif hins opinbera á Íslandi í samkeppnisrekstri með því mesta á Vesturlöndum
Á sama tíma og við glímum við þennan uppsafnaða vanda bindum við mun meira fjármagn í samkeppnisrekstri hins opinbera heldur en viðgengst í nágrannalöndum okkar. Ríkissjóður er með um 450 milljarða króna bundna í fjármálastarfsemi þegar horft er til eignarhlutar ríkisins í viðskiptabönkum að viðbættum Íbúðarlánasjóði og LÍN. Eignarhlutur ríkisins í bönkunum einum samsvarar um 16% af landsframleiðslu samanborið við um 3% í Noregi, því Norðurlandanna þar sem eignarhald ríkisins er mest utan Íslands.
Ekki verður séð að eignarhald ríkissjóðs á fjármálamarkaði hafi haft jákvæð áhrif fyrir neytendur. Bankarnir eru allt of óhagkvæmir í rekstri, vaxtamunur þeirra er mun meiri en í nágrannalöndum okkar og þjónustugjöld komin langt úr hófi fram. Íslenska fjármálakerfið er auk þess að verða langt á eftir í þróun fjártæknilausna og óhófleg reglubyrði að auki að draga úr samkeppnishæfni þess. Neytendur borga síðan brúsann í formi hærri vaxta og þjónustugjalda.
Það er ekkert óeðlilegt að almenningur sé á varðbergi þegar kemur að einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Síðast þegar bankarnir voru einkavæddir leiddi það til mikillar áhættusækni og skuldsetningar bankakerfisins sem endaði eins og kunnugt er með ósköpum. Sú var raunar einnig reynsla hinna Norðurlandanna þegar fjármálamarkaðir þeirra voru opnaðir upp fyrir um þremur áratugum síðan. Þar þurfti ríkið einnig tímabundið að leysa til sín banka en losaði sig hins vegar að stærstu hluta út þegar tækifæri gafst.
Margvíslegar umbætur hafa hins vegar verið gerðar á regluverki fjármálamarkaða í Evrópu á undanförnum árum og eftirlit eflt til muna til að koma í veg fyrir þá áhættusækni sem viðgekkst í fjármálakerfinu og skattgreiðendur sátu víða uppi með kostnaðinn af. Það er mikilvægt að hafa í huga að ríkið stýrir einmitt umgjörð markaða með laga- og reglusetningu, ekki með eignarhaldi.
Eignasölu í stað veggjalda
Það væri hæglega hægt að losa allt að 300 milljarða króna með sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálakerfinu og halda eftir sem áður eftir kjölfestuhlut í Landsbankanum. Afrakstur þessarar eignarsölu mætti nýta til nauðsynlegrar innviðafjárfestingar. Það er mun skynsamlegri forgangsröðun en að reka hið opinbera eins og fjárfestingarsjóð.
Það er skynsamlegri stefna í stað þess að ætla að fjármagna nauðsynlegar vegabætur á Suðvesturhorni landsins með veggjöldum. Rétt er að hafa í huga að hér er um samfellt atvinnusvæði að ræða og fjöldi fólks mun verða fyrir verulegum kostnaðarauka við að sækja vinnu vegna þessara áforma. Það er marklaust að bera þessi áform saman við byggingu Hvalfjarðarganga á sínum tíma. Sú stytting sem göngin skiluðu lækkaði samgöngukostnað þeirra. Að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar og Suðurlandsvegar að Árborg, eða bygging nýrrar Ölfusárbrúar, mun ekki lækka ferðakostnað íbúa á þessu svæði. Veggjöld munu hins vegar augljóslega hækka hann. Þetta eru nauðsynlegar framkvæmdir til þess að auka öryggi og ætti því að vera borgað með öðrum hætti en beinum hækkandi álögum á fólk.
Það væri nær lagi að fjármagna þessi verkefni með sölu eigna. Það er enda löngu tímabært að hefja sölu og hluta af eignum ríkisins í fjármálakerfinu. Auðvitað er mikilvægt er að vanda þar til verks. Sporin hræða vissulega. En það gerist auðvitað ekkert ef aldrei er hafist handa, líkt og stefna stjórnarflokkanna virðist vera í þessum efnum.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.