Fólk sem framleiðir hugmyndir var að fá snemmbúna jólagjöf frá Alþingi: Skattar sem þau borga á tekjur af hugmyndunum sínum lækka nú niður í 22%. Jakob Frímann Magnússon, sem hefur barist fyrir þessari breytingu, segir þetta einfaldlega leiðréttingu á miklu óréttlæti. STEF-gjöld og tekjur af bókasölu hafa hingað til verið skattlögð sem laun, en núna eru þau fjármagnstekjur.
Nú getur hugverkafólk látið hugmyndirnar vinna fyrir sig, eins og kapítalistar láta peningana (og annað fólk) vinna fyrir sig, og borgað 40% lægri skatt af því en vinnandi fólk borgar fyrir sínar tekjur.
Ég hef ekkert nema hrós og hamingjuóskir fyrir hinar skapandi greinar, sem Jakob segir að séu atvinnugreinar framtíðarinnar.
Það eina sem ég myndi vilja bæta við er hinar framtíðargreinarnar – umönnunargreinar, þjónusta, og jafnvel framleiðsla á undirstöðum samfélagsins, eins og matvælum og vegum og vinnslu hráefna. Vinnandi fólk, sem á hvorki hlutabréf né hugverk til að láta vinna fyrir sig, á lítið annað en megn sitt og mátt til að skapa verðmæti og fegurð í heiminum. Jakob segir að „þeir sem leigja út hús eða íbúðir“ hafa hingað til greitt 22% skatt, meðan „eigendur eigna úr öðrum byggingarefnum s.s. orðum, tónum og myndum til þessa greitt mun hærri tekjuskatt.“
Hvað með þá sem eiga bara vinnuaflið sitt? Eiga tekjur af þeirri eign að vera skattlagðar hærra, bara vegna þess að þau þurfa að hafa fyrir eigninni sinni sérhverja vinnandi stund?
Þetta er sérlega aðkallandi spurning í ljósi þess að ómenntaðar vinnandi hendur, uppistaða allra samfélaga frá hirðingjum til háborga, eru meðal þeirra verst launuðu, hér eftir sem hingað til.
Það er ekkert réttlæti í því að auður hugmyndanna greiði hærri skatt en auður verðbréfanna. En stærsta óréttlætið er eftir: Að mannauður okkar greiði hæstan skatt allra. Þetta óréttlæti þarf að laga.
Í nýlegum tekjublöðum kom fram að tekjuhæsta fólk samfélagsins okkar fær næstum öll launin sín gegnum fjármagnstekjur. Einn eigandi fiskvinnslufyrirtækis þurfti að skrimta undir lágmarkslaunum í fyrra. Hann fékk hins vegar að meðaltali 92 milljónir á mánuði í fjármagnstekjur fyrir sölu á verðbréfum. Þessi verðmæti urðu til með vinnu annars fólks, og þess vegna þurfti hann bara að borga 22% skatt þegar hann skammtaði sér þau. Starfsfólkið borgaði hins vegar 37% tekjuskatt, því það lagði til eigin mannauð, frekar en arf og lánsfé.
Á Íslandi eru tveir heimar. Annar heimurinn er sá þar sem fólk vinnur ómissandi vinnu með eigin höndum, og borgar af því venjulegan skatt. Hinn heimurinn, skattaparadísin, er sá þar sem þú tekur lán og færð arð og kaupir og selur bréf. Fyrir þessa atorku, sem mætti segja að heimurinn gæti verið án, færðu hundraðfalt meira borgað og greiðir 40% lægri skatt. Ríkið afþakkar þessar tekjur og sker frekar niður í velferðarþjónustu, hleður skerðingum á skerðingar, og leggur þannig enn meiri byrðar á vinnandi hendur. Allt til að forða paradísinni frá óþægindum.
Ég samgleðst Jakobi Frímann að hafa sloppið úr táradal 37% tekjuskatts, og upp hafist í skattaparadís. En kannski væri betra ef við byggjum öll saman á jörðinni.