Nýlega tilkynnti menntamálaráðherra að ríkisútvarpið yrði tekið af auglýsingamarkaði. Með þessu er að nokkru komið til móts við kröfur rekstaraðila annarra fjölmiðla. Með því að sitja einir að auglýsingamarkaðinum telja þeir fjárhag sínum borgið. Spurningin er hvort það sé hagur neytenda og auglýsenda að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði og í framhaldi af því hvort það sé hagur neytenda að veikja möguleika RÚV til að afla tekna og bæta með því dagskrá sína. Athuga ber að RÚV leikur ekki lausum hala á auglýsingamarkaði. Hlutdeild RÚV er óeðlilega lítil miðað við vinsældir fjölmiðilsins. Ástæðan er að margskonar hindranir hafa þegar verið settar á auglýsingaöflun þess. Slíkar hindranir geta verið réttlætanlegar til að auka fyrirsjáanleika í rekstarumhverfi samkeppnisaðila en ganga of langt svo sem með banni á auglýsingum í vefmiðli RÚV. Aðstæður prentmiðla og sumra vefmiðla eru allt aðrar en sjónvarps eða hljóðvarps. Vandamál þeirra er sérstakt úrlausnarefni og ekki til umræðu hér.
Þýðing auglýsinga og markaðstengsla
Auglýsingar eru ekki aðeins tæki til að selja vöru og þjónustu. Undir þær falla hvers kyns tilkynningar um mannamót og listviðburði. Loks falla sumar auglýsingar eða tilkynningar undir almannaþjónustu og teljast varla söluvara. Fyrir dagskárgerð fjölmiðils er sala auglýsinga mikilvæg leiðbeining um áhorf/hlustun og vinsældir þátta. Stærð auglýsingamarkaðarins er háð heildarfjölda neytenda með þokkalega greiðslugetu. Hann helst nokkuð stöðugur í þessu samhengi en aðrir þættir svo sem hagþróun hafa einnig áhrif. Spurningin er hvort það fé sem rann áður til auglýsinga í RÚV skili sér til innlendra samkeppnisaðila. Verði RÚV bætt tekjutapið að fullu þarf dagskráin ekki að breytast. Þá er óvíst að áhorf og hlustun á RÚV minnki þótt auglýsingar detti út. Í því tilfelli virðist lítil ástæða fyrir auglýsendur að verja meiru fé til að auglýsa fyrir sama hóp og nú þegar næst í utan notendahóps RÚV. Auglýsingamarkaðurinn brotnar þá upp eða dregst saman með þeim afleiðingum m.a. að auglýsingaiðnaðurinn gæti misst spón úr aski sínum þar sem leiknar auglýsingar hætta að borga sig.
Til að innlendir aðilar fái hlutdeild í auglýsingatekjum sem áður runnu til RÚV verður að draga úr vinsældum fjölmiðilsins og minnka áhorf og hlustun. Óhjákvæmilega verður þess krafist að fjárframlög til RÚV verði skert ásamt því að vinsæl þjónusta verði aflögð svo sem beinar úsendingar frá íþróttaviðburðum þar með talið Ólympíuleikum og heimsmeistaramótum í knattspyrnu.
Mikilvægi fjárhagslegs sjálfstæðis
Yfirlýsingar um að RÚV verði bættur tekjumissirinn eru augljóslega óábyrgar. Aldrei verður hægt að treysta á yfir tveggja milljarða hækkun á framlögum frá ríkissjóði til langframa. Brotthvarf af auglýsingamarkaði þýðir óhjákvæmilega verulega skerðingu á tekjum og þjónustu. Með því að afnema með öllu fjárhagslegt sjálfstæði og tengingu við markaðsöflin verður lítið svigrúm til endurbóta og framfara í dagskrárgerð. Miklar breytingar hafa orðið á fjölmiðlun og þróunin er hröð utanlands sem innan. Vaxandi magn af erlendu efni streymir á innanlandsmarkað. Ljóst er að fyrirtæki eins og Google eða Facebook munu ná sífellt sterkari tökum á fjölmiðlamarkaðinum og auglýsendur munu snúa sér til þeirra mun fyrr ef innlendi markaðurinn brotnar upp. Ríkisútvarpið hefur djúpar rætur í íslenskri menningu gegnum langa stofnanasögu. Í fámennu samfélagi er einginn annar ljósvakamiðill sem hefur minnsta möguleika á að mæta samkeppni utanfrá með fjölbreyttri innlendri dagskrárgerð og dreifingu á vönduðu efni til almennings.
Óháð, þar með talið fjárhagslega óháð, ríkisútvarp með skýr markmið um ábyrgan fréttaflutning er brjóstvörn gegn áróðri og hálfsannleik sem virðist vaxandi í samfélagi nútímans.
Sóknarfæri
Í stað þess að draga úr möguleikum RÚV til að veita góða þjónustu ætti að efla stofnunina með tiltækum ráðum. Leyfa þarf auglýsingar á vefmiðli og nýta sjálfstæða tekjuöflun sem best til að auka þjónustuna og bæta dagskrána. Til dæmis má leigja útsendingartíma á RÚV 2 til aðila sem vilja koma fram ákveðnum sjónarmiðum eða spreyta sig á dagskrárgerð. Jafnframt má nýta þessa rás fyrir meira fræðsluefni og beinar útsendingar á tónleikum jazz- og pophljómsveita. Markaðurinn fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti er óseðjandi og markaðurinn ótakmarkaður erlendis. Með samstarfi fagaðila getur framleiðsla sjónvarpsefnis verið umtalsverður útflutningsiðnaður ef rétt er á málum haldið. RÚV getur verið í forystuhlutverki um uppbyggingu slíks iðnaðar hérlendis.
Almannahagur
Það er grundvallarmunur á viðskiptalíkani fjölmiðils sem miðar að því að veita sem greiðastan aðgang að sem fjölbreyttustu efni og líkani sem byggir á að loka fyrir efni og taka gjald fyrir að opna aðganginn. Frá sjónarhóli neytenda er opið aðgengi að vinsælu efni tvímælalaust hagstæðasti kosturinn en þá er eðlilegt að auglýsingar beri a.m.k. hluta kostnaðarins.
Hagur neytenda mun versna verulega ef RÚV missir auglýsingatekjur og fjárhagslegt sjálfstæði hverfur. Sú styrka stoð sem RÚV hefur verið fyrir óháðan fréttaflutning, íslenska tungu og menningu á ljósvakasviðinu mun veikjast eða hverfa. Það þjónar ekki almannahagsmunum að taka RÚV af auglýsingamarkaði.