Það gildir um flesta hluti að maður tekur ekki eftir því að þeir virki ekki nema maður þurfi að nota þá. Innanlandsflug hefur mikið verið til umræðu undanfarna mánuði einmitt vegna þess að vaxandi samstaða er um að það virki ekki. Efnahagslegur grundvöllur innanlandsflugs er takmarkaður, stofnanalegur strúktúr gallaður og innviðirnir eru að grotna niður. Það versta er að þeir sem bera ábyrgð á því að laga þetta ástand geta það ekki, sem skapar pirring og ásakanagleði á alla bóga.
Nokkrum sinnum í sumar hafa flugsamgöngur um Reykjavíkurflugvöll legið niðri að einhverju eða öllu leyti, nú síðast sl. föstudag. Þeim sem hlusta á sjálfvirku ATIS-þjónustuna (sími 424 4225) bregður þá að heyra að lokað sé fyrir til dæmis almanna- og kennsluflug vegna manneklu. Stundum gengur það enn lengra, að ekki einu sinni áætlunarflug fær að fara um völlinn. Þannig geta óvænt veikindi eins flugumferðarstjóra raskað mikilli starfsemi með tilheyrandi tækifæris- og raunkostnaði.
Það er ekki við flugumferðarstjóranna sjálfa að sakast – þessi mannekla verður ekki til í tómarúmi. Isavia, sem rekur flugvöllinn, er gert að veita þessa þjónustu, en hefur ekki sérstök fjárráð til þess og hefur takmarkaðar heimildir til að ráðstafa tekjum af öðrum rekstri (t.d. hagnaði af Leifsstöð) til að tryggja að þjónusta flugvalla sé veitt. Sé einhver veikur þá eru ekki til réttir peningar í réttum potti til að ræsa út staðgengil, og fyrst klippt á þá þjónustu sem skilar ekki tekjum.
Vandamálið einskorðast auðvitað ekki við Reykjavíkurflugvöll. Viðhald lítilla lendingarstaða til dæmis verður að aukaatriði þrátt fyrir mikilvægi þeirra fyrir flugöryggi og þjálfun.
Isavia er opinbert hlutafélag, og er því rekið í hagnaðarskyni. En að taka út hagnað samræmist ekki alltaf markmiðum almannaþjónustu. Innanlandsflug hefur því verið olnbogabarn rekstursins, þar sem ekki nema lítill hluti þess ber nokkra arðsemi, og þá litla.
Hluti vandans kann að vera að Isavia er í eigu Fjármálaráðuneytisins, meðan það starfrækir innanlandsflugið eftir þjónustusamningi við Samgönguráðuneytið. Ef þessu fyrirkomulagi væri hrókerað gæti margt batnað. Skipun að ofan, hvort heldur í formi eigandastefnu eða útvíkkaðs þjónustusamnings, gæti leitt af sér meiri þjónustu bæði við almannaflug og aðrar tegundir flugs.
Önnur nálgun væri að færa flugrekstur og flugleiðsöguþjónustu burt frá Isavia, og láta í hefðbundnari ríkisstofnun sem hefur fyrst og fremst það hlutverk að tryggja almannaþjónustu. Með þessu væri mögulegt að breyta lendingargjöldum og flugleiðsögugjöldum til að koma til móts við þær almenningssamgöngur sem fara um himininn.
Í öllu falli virðast allir sammála um að það er vandamál til staðar og að fullreynt sé að reyna að finna lausn eingöngu með greiðvikni og þolinmæði að vopni. Breytinga er þörf á tilhögun í fluggeiranum; margar hverjar koma fyrir í nýrri grænbók um framtíð flugs, en aðrar snúa að rekstri Isavia sjálfs. Því fyrr sem farið er í þær breytingar, því betra.
Höfundur er þingmaður Pírata.