Mike Pence varaforseti kom, regnbogafánum var flaggað, Eliza forsetafrú klæddist hvítu og að lokum hitti Pence Katrínu „forsætis“ sem sýndi með skemmtilegum hætti með líkamstjáningu sinni hvað henni fannst um manninn og skoðanir hans. Þetta var mikið umstang; leyniskyttur, þyrlur og brynvarðir bílar. Já, svona er þetta þegar fulltrúar heimsveldis láta sjá sig.
Hvað stendur þá eftir? Jú, væntanlega mun Guðlaugur Þór „utanríkis“ halda áfram að halla sér að Bandaríkjum Trumps, væntanlega mun hann reyna eftir fremsta megni að vinna áfram að fríverslunarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. Svo virðist sem ein megináherslan í utanríkismálum Íslands um þessar mundir sé aukin samskipti, og þar með viðskipti við Bandaríkin. Á árinu 2018 flutti Ísland út vörur fyrir um 430 milljónir dollara til Bandaríkjanna, en heildarverðmæti útflutnings Íslands á því ári var um 5 milljarðar dollara.
Áframhaldið á norðurskautapólitíkinni?
En það sem skiptir kannski jafnvel meira máli er það hvernig Bandaríkin og Ísland ætla að halda áfram þeirri norðurskautapólitík sem Pence var svo tíðrætt um.
Fyrir rúmum áratug skrifaði undirritaður langa fréttaskýringu um Norðurslóðir í þá fréttatímaritið Mannlíf. Greinin hét „Og ísarnir bráðna“. Þá voru menn að vakna upp við þá staðreynd að siglingaleiðin norður af Íslandi og í gegnum Norðurpólinn væri að opnast. Hún kallast „Norðausturleiðin” og getur stytt siglingar frá Asíu til Evrópu um allt að 40%.
Meðal annars í þessu ljósi verður að skoða kauptilboð Trumps í Grænland og orð Mike Pence hér á landi. Rússar hafa einfaldlega ákveðið forskot og Bandaríkjamenn eru nú kannski með nokkuð örvæntingarfullum hætti að reyna að „stimpla sig inn“ í þetta dæmi og vinna upp forskot Rússa.
Kínverjar eru líka með í þessum „leik“ og hafa skilgreint sig sem „nær-heimskauts-land“ (near artic country), þó það kunni að virka langsótt. Kínverjar eru með sem áheyrnarfulltrúar í Norðurskautsráðinu (The Arctic Council), þar sem Ísland er með formennsku til ársins 2021. Í sáttmála núverandi ríkisstjórnar segir orðrétt um málefni norðurslóða: „Málefni norðurslóða snerta nær allar hliðar íslensks samfélags og eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu. Ísland mun á vettvangi Norðurskautsráðsins einkum leggja áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, loftslagsmál og málefni hafsins.”
Jafnvægislistar er þörf
Eftir þetta allt saman situr að Ísland þarf að sýna fram á ákveðna „jafnvægislist“ í þessum efnum á næstu mánuðum og misserum. Hér eru stórir gerendur á ferð og gríðarlegir hagsmunir, ekki bara stórþjóðanna, heldur líka frumbyggja í þeim löndum sem eru hér á norðurslóðum. Þetta er því mikil áskorun fyrir Guðlaug Þór utanríkisráðherra. Enginn vill aukna spennu og eða hættu á átökum við Ísland, norðan þess eða umhverfis.
En menn vita einnig að þegar um jafn miklar auðlindir er að tefla og mögulega eru undir hafsvæði og ísum norðurslóða, þá er ekkert gefið eftir. „Svarta gullið“ og annað slíkt hefur margoft áður í sögunni valdið deilum, jafnvel styrjöldum. Því verða menn að passa sig og málið í heild sinni því áskorun fyrir íslensk stjórnvöld
Höfundur er MA í stjórnmálafræði.